laugardagur, mars 13, 2010

Maður hefur ekki mikið talað um Icesafe dæmið eftir kosninguna. Maður var svo sjokkeraður eftir Silfur Egils á sunnudaginn að það er best að tjá sig ekki um þessa hluti fyrst um sinn.

Fréttamennskan er oft dálítið sérstök. Þrjú dæi hafa stundið í augun upp á síðkastið. Mamma eins litháans sem var síðan dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir mannsalsmálið á dögunum fékk drottningarviðtal í öðru hverju sjónvarpinu. Hún varði þar son sinn aftan og framan eins og gefur að skilja. Það gera foreldrar yfirleitt. Hún fullyrti að stelpan væri lygalaupur sem ekki væri treystandi til eins eða neins. Í fyrsta lagi velti maður fyrir sé hvert var fréttaissjúið. Ekkert. Skyldi konunni síðan ekki hafa brugðið þegar strákdelinn var dæmdur í fimm ára fangelsi. Hver er tilgangurinn með svona viðtölum? Hann er mjög einfaldur. Að reyna að hafa áhrif á dómarana. Ef allir foreldrar meintra glæpamanna sem eru að fara að ganga fyrir dómara fengju svona viðtöl í fréttum sjónbvarpsins þá væri ekki mikið annað í þeim.

Síðan vegna sama máls þá fluttu fréttamenn fréttir af að ein konan sem hefur fengið vitnavernd vegna framburðar væri kærasta eins delans. Hver er ábyrgð fréttamanna í þessu sambandi? Það vantaði bara að það væri birt mynd af henni og heimilisfangið gefið upp. Fréttamenn eiga að bera það mikla virðingu fyrir fólki sem þorir að vitna gegn svona glæpamannadrasli að þeir eiga að hafa vit á því að þegja þótt þeir viti eitthvað en ekki blaðra eins og bjánar.

Í þriðja lagi var birt ítarleg frétt í gærkvöldi um strák sem var að flytja inn dóp með Samskipum. Hann hjálpaði svo löggunni við að koma höndum yfir annan dela sem stóð í þessu með honum. Það heitir að leika tveimur skjöldum og er ekki velséð í glæpaheimum. Það var sagt hvað strákurinn hét og fréttamaðurinn endaði fréttina glaðhlakkalegur eitthvað í þeim dúr að þótt löggan hefði verið ánægð með hjálpsemina þá væri ekki eins víst að kunninginn fyrrverandi væri það. Það var náttúrulega bara verið að siga seinni dólgnum á þann fyrri vegna þess að hann slaðraði. Hver er tilgangurinn með svona fréttum. Skil það ekki.

Til er félag sem heitir Blaðamannafélag Íslands. Það beitir sér meðal annars í hagsmunamálum félagsmanna sinna. Í fyrra var ritstjóri Morgunblaðsins rekinn. Það upphófst mikil sena vegna málsins af hálfu Blaðamannafélagsins. Brottreksturinn var fordæmdur í bak og fyrir, mikil og löng viðtöl voru vegna málsins í Kastljósum sjónvarpsstöðvanna, blaðamannafélag Norðurlanda ályktaði vegna málsins og ég veit ekki hvað.
Fyrir skömmu var ritstjóri Fréttablaðsins rekinn. Um þann brottrekstur hefur ekki heyrst múkk af hálfu Blaðamannafélagsins. Ekki eitt múkk. "Minn herra á aungvan vin" var einu sinni sagt.

Síðast þegar ég vissi þá voru Hraunfossar í Borgarfirði og Barnafoss rétt ofar í sömu á ekki einn og sami fossinn. Því var aftur á móti haldið fram í Útsvari í gærkvöldi.

Það er töluvert rætt um aðferðafræði í húsnæðismálum sem einn þingmaður VG hefur hampað nokkuð. Hún felst í því að íbúðaeigendur geti skilað lyklinum ef þeir ráða ekki við að borga af íbúðinni og gengið svo út án eftirmála. Fyrirmyndin er bandarísk og þykir mörgum hún mjög sniðug. Þetta er dæmi um tricky lausn sem er vanhugsuð í meira lagi. Ef þessu kerfi verður komið á þá mun það gjörbreyta eignarhaldi á íbúðarhúsnæði hérlendis og í raun húsnæðiskerfinu öllu. Íbúðarlánasjóður og aðrar lánastofanir munu ekki lána húsnæðislán nema til þess fólks sem allt að því örugglega getur borgað. Lánshæfi verður metið miklu nákvæmar en nú er gert. Fólk mun geta keypt sér íbúð mun síðar á æfinni en nú er. Gerðar verða kröfur um mun meira eigið fé en nú er gert. Gerðar verða mun stífari kröfur um greiðsluhæfi. Opinberir starfsmenn munu verða reitaður hærra en fólk sem vinnur hjá einkageiranum vegna þess að atvinnuöryggi er meira í opinbera geiranum. Leigumarkaður mun verða miklu stærri hluti af íbúðarkerfinu en nú. ef það er þetta fyrirkomulag sem menne ru að sækjast eftir þá gott og vel. En þá á að segja það en ekki tala um þetta sem aðferð sem muni redda málunum án hliðaráhrifa.

Á baráttudegi kvenna var rætt um það eins og vanalega hvað konur hafa farið hallloka að mörgu leyti í samfélaginu. Það er farið í gegnum þessa hluti árlega. Nefnd voru dæmi um hve konur stæðu höllum fæti í þjóðfélaginu. Þær hefðu t.d. hvorki orðið landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eða seðlabankastjóri. Nú hef ég það svo sem ekki heldur en mér er nokk sama. Ég velti hins vegar fyrir mér hvers vegna var ekki komið inn á að það stýrir engin kona stærstu togurum þjóðarinnar og það eru í raun sára sára fáar konur á fiskveiðiflotanum. Það er náttúrulega gróft misrétti þegar launin hafa hækkað verulega vegna gengisþróunarinnar. Hvar eru konurnar í byggingariðnaðinum eða vinnuvélabransanum? Ein konan sagðist vilja breyta þjóðfélaginu á þann hátt að karlmenn færu að sinna umönnunarstörfum meira en þeir hafa gert til þessa. Gott og vel. Þetta er fínt. En á móti finnst meær eðlilegt að sjá fleiri konur í járnabindingum, mótauppslætti, múrhúðun, almennri rafvirkjun, jarðýtuvinnu, vörubílaakstri og þannig mætti áfram telja. Einhver verður að vinna þessi verk þegar kallarnir eru allir komnir í umönnunarstörf.

Hlaupin hafa gegnið vel í vikunni. Ég er farinn að fara fyrr út á morgnana og tek nú 16 km áður en kemur að morgunverkunum í stað 12 áður. Það gengur fínt í þessu veðri. Fuglarnir eru komnir á fullt um sex leytið eins og það væri kominn miður maí. Ég var með fyrirlestur hjá ÍR skokk á mánudaginn. Það var vel mætt og mikið spurt og spekulerað.

Engin ummæli: