Um daginn var ég á fundi hjá Samtökum Atvinnulífsins. Frummælendur voru þrír, framkvæmdastjóri SA, forseti ASÍ og fjármálaráðherra. Fundarstjóri var formaður SA. Einn frummælenda sá ástæðu til hnýta sérstaklega í kynjahlutföllin í hópi þeirra sem fluttu erindi og stjórnuðu fundinum.
Nokkrum dögum síðar flutti fræðimaður í siðfræði fínt erindi um siðfræði hjá Rotaryklúbbnum sem ég er í. Einum fjórum sinnum meðan hann flutti erindi sitt sá hann þó ástæðu til að hnýta í klúbbinn fyrir kynjahlutföll innan hans.
Örfáum dögum síðar voru veitt bókmenntaverðlaun kvenna. Verðlaunaveitingin vakti mikla ánægju og fékk allstaðar jákvæða umfjöllun.
Nú er búið að banna nektarsýningar. Opinberlega eru tengsl nektarsýninga við mannsal færð sem rök fyrir banninu. Það hefur þó aldrei neinn verið kærður fyrir þesskonar hluti hérlendis hvað þá að dómur hafi fallið. Ég geng út frá því að þingnefndin sem fjallaði um málið hafi kallað fyrir sig fulltrúa þeirra einstaklinga sem hafa unnið við þessa atvinnugrein og þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða aðila máls. Megi gott á vita. Nokkrir þingmenn vöktu sérstaka athygli á að þarna hafi verið stigið stórt skref í jafnréttisbaráttu kvenna. En þegar sett eru lög þá er nauðsynlegt að hafa ýmis atriði í huga. Ég hef reyndar aldrei farið á samkomu af þessu tagi síðan ég sá „Susan bader sig“ í Sjallanum á Akureyri fyrir margt löngu. Ég veit ekki hvort sá gjörningur flokkaðist undir „striptease“ eða sýnikennslu í almennu hreinlæti en alla vega fannst mér þetta ómerkileg athöfn. En svo er ekki um alla. Ýmsir hafa gaman að horfa á annað fólk fara úr einhverju af fötum. Stærstu og best heppnuðu samkomur af þessu tagi hafa reyndar verið haldnar hérlendis þegar strákaflokkurinn „Chippendales“ hefur komið hingað til lands. Þeir hafa fyllt Breiðvang af áhorfendum sem að sögn nærstaddra hafa verið 99,99% af kvenkyni. Þær skemmtu sér svo vel að hljóðin heyrðust langt út á götu. Maður spyr sig af hverju einhverjir skuli finna það upp hjá sér að banna konum að fara út að skemmta sér með því að horfa á nokkra myndarlega vel vaxna stráka fækka fötum upp á sviði. Sérstaklega þegar þær hafa svona gaman af því og þeir vafalaust líka.
Eitt af rökunum sem sett eru fram fyrir því að það eigi að banna nektarstaði er að mannsal tengist þeim. Vont er ef satt er. En utan úr hinum stóra heimi berast fregnir þess efnis að mannsal eigi sér ekki síður stað í veitingahúsabransanum, byggingariðnaði og vefnaðariðnaði en á nektarstöðum. Hvað er þá til ráða?
Þátturinn „Lífið“ sem sýndur var á mánudagskvöldið var frábær. Svona náttúrulífsþættir eru með því alskemmtilegasta sem maður horfir á í sjónvarpinu. Ég keypti mér hliðstæða seríu fyrir nokkru sem heitir „Planet Earth“. Hún var á góðum prís í Elko að því mig minnir. David Attenborough gerir ekki nema góða þætti í þessum dúr.
Moggavefurinn hefur að undanförnu birt fína pistla eftir Karenu Axels þríþrautarkonu. Hún er ein af þeim öflugu íþróttamönnum sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum 19 manna sjálfskipaða hópsins sem skilgreinir hvað má kalla íþróttir og hvað ekki. Karen er ekki að keppa bara til að vera með. Hún er í enska landsliðinu í ólympískri þríþraut og stefnir á verðlaunapall í hvert sinn sem hún keppir. Hún er tvímælalaust meðal fremstu íþróttamanna okkar nú um stundir. Nú hefur hún verið að undirbúa sig fyrir sína fyrstu keppni í fullum Ironman. Það verður gaman að sjá hvernig henni gengur. Pistlarnir hennar eru við hæfi allra þeirra sem hafa gaman að reglubundinni hreyfingu og ástundun íþrótta.
miðvikudagur, mars 24, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli