laugardagur, mars 20, 2010

Það hefur verið hreint ótrúlegt veður til hlaupa að undanförnu. Maður gleymir því að það sé miður mars þegar maður kemur út á morgnana. Logn, hlýtt og fuglasöngur í trjánum. Af mörgum góðum vetrum á undanförnum árum held ég að þessi sé einn sá besti. Það sem stendur upp úr er lognið og þurrt veður. Sjaldan eða aldrei þræsingur og væta. Megi gott á vita. Það var fínn túr í morgun. Ég hitti Jóa og Gauta á brúnni á seinni hringnum. Það var gott rennsli það sem eftir var eins og vanalegt er þegar Gauti er með.

Það hefur verið nokkur umræða að undanförnu um listamannalaun og sýnist sitt hverjum. Það er fínt. Það á ekki neitt að vera sjálfgefið og allt orkar tvímælis þá gert er. Þarna sýnist að ajálfsögðu sitt hverjum. Þeir sem njóta listamannalaunanna verja vígi sitt með kjafti og klóm á meðan þeir sem borga eru heldur gagnrýnni. Sumir sem blanda sér í umræðuna eru svo sem varla að styrkja stöðu svokallaðra listamanna. Er það nóg að gera eitthvað til að geta kallað sig listamann. Við skoðum stundum í glugga í málverkagalleríi í miðbænum þegar við förum langa túra á laugardögum. Sumt er áhugavert sem er þar inni en annað er bara krapp. Sama er að segja um vatnslitasýninguna á Kjarvalstöðum. Margt er þar vel gert og áhugavert en um annað er ekkert að segja nema það að það virðist sem svo að hinn svokallaði listamaður sé að láta á það reyna hvað hann getur slengt miklu rusli framan í áhorfendur en samt fengið þá til að klappa fyrir listinni.
Ég sá nýlega blaðagrein sem einn listamaðurinn skrifaði ti að réttlæta listamannalaun. Honum taldist til að meðalmaður þyrfti svona tvö ár ti að skrifa skáldsögu. Meðalsala er sögð vera um 1000 eintök. Það er svipaður eintakafjöldi og bókarkornið sem ég sló saman á kvöldin í fyrrasumar seldist nú fyrir jólin. Höfundurinn fær svona 600 þúsund fyrir bókina. Því á hann rétt á peningum frá ríkinu til að geta látið enda ná saman að mati greinarhöfundar. Það er sem sagt bara að hefjast handa við að mála og skrifa. Síðan er bara að fara að heimta.

Á bókamarkaðnum um daginn keypti ég mér bókina um forsetatíð Kristjáns Eldjárns sem Guðni Jóhannesson skrifaði. Hún byggir fyrst og fremst á dagbókum Kristjáns og innlestri á segulbandsspólur. Maður man í öllum aðalatriðum eftir hinni pólitísku atburðarás frá því um 1970 en þarna kemur fram hvað gerðist bak við tjöldin. Manni sýnist pólitíkin á þessum tíma hafa fyrst og fremst verið knúð áfram af persónulegri og hagsmunatengdri framagirni, öfund og vantrausti flokksforingjanna á hverjum öðrum.
Stjórnarkreppur voru algengari en ekki. Það gat tekið um tvo mánuði að mynda stjórn. Á meðan ríkti stjórnarfarsleg upplausn í samfélaginu. Síðan eru viðhorf og skoðanir manna allrar athygli verð. Árið 1974 settu Alþýðubandalagsforingjarnir það sem skilyrði að ríkisvaldið myndi þjóðnýta banka, tryggingafélög og olíufélög. Offrramleiðslu í landbúnaði átti að leysa með þvi að éta meira. Um og fyrir 1980 gat enginn minni flokkanna hugsað sér að vinna með stærsta flokknum. Gunnar Tór skar á þann hnút sem frægt er í sögunni og stýrði síðan í þrjú ár einni af verstu stjórnum sem verið hefur við völd. Á þessum árum var verðbólgan frá 20-40% á ári. Hún sló upp í 100% einstaka mánuði. Það var hins vegar eins og enginn skildi að hún var tilkomin vegna þess að menn eyddu umfram efni. Alla vega var ekkert gert sem skipti máli í þeim efnum.
Svona bækur eru nauðsynlegar svo hægt sé að skoða söguna í nýju ljósi. það er jafnvel mögulegt að læra eitthvað af henni.

Engin ummæli: