Það hefur verið gert dálítið mál úr því að lögreglan þurfti að hreinsa út í dómssalnum á dögunum þegar rétta átti yfir hópnum sem réðst inn í Alþingishúsið í fyrra. Mér finnst það mjög eðlilegt að tekið sé hart á því þegar fólk er með kjaft inni í dómssal og segist gera það sem því sýnist. Sama er að innrás í Alþingishúsið er alvarlegur hlutur. Ef menn halda að þetta sé eitthvað glens og eigi að taka það sem óvitahátt og krakkalæti þá er það mikill misskilningur. Eitt rugl réttlætir ekki annað. Óstjórn í samfélaginu réttlætir ekki að ráðist sé gegn grundvallarstofnunum þess. Ef að það líðst þá er orðið stutt í upplausnina og stjórnleysið. Kannske er það markmið þessa hóps. Hver veit? Það eru engin mannréttindi að fá að ráðast inn í Alþingishúsið án eftirmála eða að fá að rífa kjaft í dómssölum átölulaust.
Í dag fór ég í fyrsta sinn í nær 20 ár niður í bæ í tengslum við 1. maí. Ég hafði myndavélina með því það eru allataf mörg áhugaverð myndefni til staðar þegar fólk hópast saman. Ég hitti Ingimund félaga minn frá því sl. sumar í göngunni og við bárumst með straumnum og spjölluðum saman. Það var gaman að hitta hann og taka sólarhæðina. Ingimundur varð fyrir nokkru áfalli í vetur þegar jafnvægisskynið brenglaðist. Hann vaknaði einn morguninn og það var í ólagi. Það var sem betur fer ekkert alvarlegt enda þótt það sé nógu slæmt að hafa brenglað jafnvægi. Hann er búinn að jafnasig og er að snúa hreyfingu og hlaupum í gang aftur. Þar sem við gegnum í grandaleysi okkar í áttina að Austurvelli þá vissi ég ekki fyrr til en að farið er að kyrja nallann við hliðina á okkur. Það var meir en ég þoldi. Eftir að hafa lesið margar og þykkar bækur um að því virðist endalaus óhæfuverk kommúnista í gegnum áratugina frá því hin svokallaða bylting í Rússlandi átti sér stað þá er nallinn eitt af því sem ég get ekki hlustað á án þess að yfir mig steypist ónota hrollur. Samfylgd minni með göngunni lauk því þarna.
Mér fannst ekki margt fólk samankomið á Austurvelli, því miður. Það voru engin 10.000 saman komin eins og maður sér sagt frá í fjölmiðlum. Ef almenningi fyndist verkalýðsforystan vera raunveruleg brjóstvörn þess fólks sem er í erfiðleikum í stöðu dagsins þá hefði Austurvöllur ekki rúmað þá sem erindi hefðu átt á vettvang. Eru ekki um 20.000 manns atvinnulausir fyrir utan alla hina? Ég ætla ekki að segja hvað veldur.
Það var svolítið gaman að sjá nokkra gamla kunningja á Austurvelli í dag og að þeir voru nákvæmlega eins og þeir voru fyrir um 20 árum síðan. Sama hollning, sami klæðaburður, sama skegg. Það er gott að hafa smá staðfestu í tilverunni.
Það var frábært að fylgjast með því þegar Snæfell í Stykkishólmi varð íslandsmeistari í körfu á dögunum. Það er ekki lítið mál fyrir 1000 manna pláss. Það ætti að sýna öðrum að það er ýmislegt hægt. Þegar ég var tvo vetur í skóla í Hólminum fyrir rúmum 40 árum síðan!!! þá var körfuboltaáhugi mikill þar. Kannski vegna þess að þá var komið gott íþróttahús í Hólminum. Ekki man ég til að Snæfell tæki þátt í íslandsmóti af einhverju tagi í köfubolta en áhuginn var þess meiri heima fyrir. Þeir sem virkilega sköruðu fram úr fóru síðan suður í alvöru lið. Ríkharður Hrafnkelsson. Sigurður Hjörleifsson og Kristján Ágústsson léku allir með Val á sínum tíma og gerðu það gott. Nú er Valur ekki svipur hjá sjón í körfubolta en Snæfell hampar titlunum. Vonandi ná þeir að halda dampi og fara ekki fram úr sjálfum sér í fjármálunum. Það er þeim mun erfiðara að halda undirtökunum í þeim efnum eftir því sem betur gengur.
Nú fer ég að hægja á mér og breyta um taktik. Hitaæfingar eru framundan og einnig verð ég að leggja smá rækt við niðurhlaup. Það er hlaupið frá Petermaritzburg til Durban og það er niður í móti. Það er öllu verra en upp í móti. Hitinn er ekki mjög mikill nema seinni hluta hlaupsins en sama er, maður á að búa sig eftir bestu getu undir svona hlaup. Ég geri ráð fyrir að fara svona 10 sinnum í Ívar á næstu þremur vikum. Ívar er það kallað þegar brettið er sett í 15° halla og svo böðlast maður áfram kappklæddur. Ég tek 4 km á þessum nótum í hvert sinn. Það tekur svona þrjú kortér. Ef menn vilja svitna þá er þetta aðferðin. Svo er sána á eftir.
laugardagur, maí 01, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Steinn Jóhanns benti mér á að nota compression buxur til að minnka álagið á lærin niður brekkur. Það virkaði ótrúlega vel í fyrra og lærin héldu mun betur út í Mont Blanc hlaupinu. Í stað þess að verða sár strax eftir fyrsta fjallið gerðist það ekki fyrr en á km 110 þrátt fyrir að ég hefði tekið allar brekkur á fullri ferð.
Takk fyrir ábendinguna Börkur. Skoða þetta. Hvað er að frétta af þér? Er farið að vora í Hammerfest? Hér vegur vorið salt á þröskuldinum. Ágætisveður en ekki hæýindi.
Heyrðu já það vorar af og til, versta veður vetrarins var í vikunni en farið að vora aftur. Ægilegur hlaupafiðringur farinn að hlaðast upp og spennan fyrir sumarið að vaxa. Formið gott og finn ég hraðann aukast á hverjum degi. Vantar bara að komast í út fyrir malbikið aðeins en stutt í það vonandi.
Heyrðu það var ekki alveg rétt sem ég sagði í byrjun, ég hafði pantað compression buxur en þar sem þær virtust upppantaðar í allri Evrópu fékk ég þær of seint. Keypti því 3/4 length Nike hlaupabuxur í númeri minna en ég hefði annars gert. Fann að þær héldu vel við lærin sem og varð. Þannig að það er kannski ekki nauðsynlegt að kaupa sérstakar buxur heldur, vera í buxum sem halda vel við (t.d. með því að kaupa númeri minna). Nota reyndar compression buxurnar núna og líkar vel.
Skrifa ummæli