Ég flaup til Durban í gegnum London, París og Jóhannesborg. Flugið tók um 18 kl. frá London. Það er flott að fljúga í stóru Airbus þotunum. Maður sefur vel og ekkert að því að verja nótt í þeim. Í rútunni frá flugvellinum heim á hótel í Durban voru ensk og sænsk stelpa sem hlupu Conrades í fyrra svo og englendingur sem var að fara í fyrsta sinn eins og ég. Þær fræddu okkur um eitt og annað en það er alltaf gaman að heyra upplifun annarra af svona hlaupum. Þegar ég var á leið út af hótelinu þá var Lars Peter fyrsti maður sem ég hitti á tröppunum. Hann hafði komið fyrr um daginn og var að skoða sig um eins og ég. Hann var ekki alveg nógu hress, hafði fengið flensuskít fyrr í vikunni og var með hósta. Skelfilegt að fá svona sendingu í aðdraganda hlaups sem búið er að æfa fyrir mánuðum saman. Durban er ein af stórborgum Suður Afríku. Í henni búa um 3,5 miljónir manna. Hún stendur við strönd Indlandshafsins á austurströnd Suður Afríku. Borgin sjálf er svo sem ekkert frábrugðin ýmsum borgum sem maður hefur séð, svo sem ekkert sérstaklega aðlaðandi en greinilega ýmislegt að gerast. Í aðfluginu sást yfir kofahverfin í útjaðri borgarinnar. Þangað ætti enginn hvítur maður að fara einn síns liðs var manni sagt. Í þeim er mannslífið ekki mikils virði og glæpatíðni mikil. Á hinn bóginn varð ég aldrei fyrir áreitni eða aðkasti af neinu tagi þegar ég var að þvælast um miðborgina og var ég þó oftast eini hvíti maðurinn á svæðinu. Einu sinni fékk ég ábendingu um að passa myndavélina vel og það er í sjálfu sér skynsamlegt. Hótelið var fínt og bara í klassa við góð millihótel í Evrópu. Ég fann mér stað að borða um kvöldið sem seldi grillaðan fisk og franskar. Það var fínt og ekkert að því. Maður varð saddur sem var það eina sem skipti máli. Matarskammturinn kostaði 21 Rand (x 16 kr) sem er hundódýrt. Tveim dögum seinna áttaði ég mig á því að maturinn í veitingahúsinu á hótelinu kostaði því sem næst það sama. Hann var oftast kjötgúllas, kartöflur, hrísgrjón og grænmeti. Þar var hins vegar þjónað til borðs og maður borðaði með alvöru hnífapörum en ekki plastgöfflum eins og á fiskistaðnum.
Expoið var á laugardaginn. Það var stórt og í stíl við það sem maður hefur séð í London og Boston. Allt til alls fyrir hlaupara. Í einu horninu var sett upp sýning með myndum og frásögnum frá fyrri hlaupum. Það var fróðlegt og áhugavert að skoða sögu hlaupsins gegnum árin. Í tvö skipti sá ég frásagnir af því að það hafði verið reynt að svindla í hlaupinu. Á áttunda áratugnum vann einhver hlaupið á ágætum tíma. Þegar myndir af honum birtust í böðunum þá gaf leigubílstjóri sig fram sesm sagðist hafa tekið þennan mann upp við ákveðið hótel einum tveim tímum eftir að hlaupið hófst. Þá hafði sá hinn sami smeygt sér inn í hlaupið eftir 30-40 km og kom svo sigri hrósandi í mark sem fyrsti maður. Sú kæti varði heldur stutt. Í annað skipti þá höfðu tvíburabræður sem litu alveg eins út ákveðið að svindla. Það vara bara fyrir fimm árum síðan. Þeir skiptu um klæðnað inni á almenningsklósettum við hlaupaleiðina. Annar keyrði á undan og kom sér fyrir inni á ákveðnu klósetti. Hinn birtist svo, þeir skiptu um föt og sá óþreytti hélt svo áfram og svo koll af kolli. Sá sem lauk hlaupinu kom níundi í mark. Einhverra hluta vegna þóttu þeir grunsamlegir og það var farið að skoða myndir af hlaupinu. Þeir voru það framarlega að þeir voru auðfundnir. Það sem þeir klikkuðu á var að þeir höfðu úrið á sitt hvorri hendinni. Sá sem var hlauparinn fékk fimm ára bann frá hlaupinu. Hann skammaðist sín mikið, notaði tímann vel og keppti síðan í fyrsta sinn eftir skandalann í hlaupinu í ár. Hann varð þriðji á rúmum 5,35 sem er mikið afrek.
Eftir expóið var farið í gegnum rútinuna að gera sig kláran fyrir morgundaginn og vera viss um að ekkert myndi gleymast. Það má alls ekki gerast að eitthvað vanti þegar á hólminn er komið. Þá getur allt verið unnið fyrir gíg.
laugardagur, júní 12, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Til hamingju með árangurinn. Stórglæsilegt hjá þér.
Bestu kveðjur Jana
Þetta er frábær árangur ... lítið fjallað um svona afrek á boltastöðinni okkar.
Bestu kveðjur, Ólafur M. Jóhannesson
Skrifa ummæli