Kim Rasmussen og hans fólk á Borgundarhólmi hefur um nokkurra ára skeið staðið fyrir keppni í ofurmaraþonum í útkanti bæjarins Rönne á Borgundarhólmi. Kim er mikill hlaupari á heimsvísu. Hann hefur náð afar góðum árangri í Spartathlon og er t.d. eini maðurinn í heiminum sem hefur hlaupið bæði Western States og Spartathlon á sama árinu. Hann hefur einnig lokið Badwater hlaupinu. Hlaupið á Borgundarhólmi er staðsett rétt við sumarhúsafyrirtækið Galökken sem gerir alla hluti einfaldari og gerir aðstæður mjög góðar. Keppendur þurfa ekki að ganga meir en 100 metra og þá komast þeir í sturtu eða í sumarhús sem þeir geeta búið í. Hlaupið er á samsíða stígum sem liggja með ca 10 metra millibili. Stígarnir liggja í hávöxnum skógargöngum sem skýla fyrir vindum, regni og sól. Á einum stað er þjónustutjaldi tjaldað yfir brautina svo aðstæður eru eins þægilegar og hægt er.
Ég hafði skráð mig síðla vetrar í 48 klst hlaupið hjá Kim. Mig langaði til að takast á við það aftur því ég vissi að ég gat gert betur en í fyrra. Þá lenti ég í vandræðum út af slæmum skóm. Það er ekkert sérstaklega gaman að ganga og hlaupa langtímum saman með fæturna alsetta blöðrum, jafnvel þótt plástrar séu notaðir eins og hægt er. Einnig fékk ég hásinarmeiðsli því skórnir nudduðu mig á vondum stað. Þegar maður fer að beita fótunum öðruvísi en vanalega vegna hásinareymsla er vísast að blöðrur stingi upp kollinum á stöðum sem maður vissi ekki að væru til.
Það var þó einn galli á gjöf Njarðar. Ég hafði einnig skráð mig í Comrades hlaupið í Suður Afríku þrem vikum fyrr. Ég vissi ekki fyrirfram hvernig ég kæmi út úr því svo ég bað Kim að fá að borga hlaupið við komuna til Borgunarhólms. Ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig.
Allt var í lagi með fæturna eftir Comrades að mínu mati. Engu að síður voru ýmsir skeptískir á að ég væri að takast á við svona erfið hlaup með skömmu millibili. Maður verður hins vegar að hafa vit til að taka skynsamlegar ákvarðanir í svona málum, annað hvort til eða frá. Einnig skiptir máli hvað er verið að setja af peningum í þetta áhugamál.
Það var mikið um að vera úti við Galökken þetta árið. Öll vikan var undirlögð fyrir hlaup. Það var 7 daga maraþon (ett maraþon á dag), það var sex tíma hlaup, það var sex daga hlaup, það var 24 tíma hlaup og það var 48 tíma hlaup. Það segir sig sjálft að það er ekki lítið mál að standa að svona verkefni. Kim sagði mér að það væru um 60 manns sem kæmu að framkvæmdinni á einn og annan hátt. Af því ég veit hvað svona hlutir kosta og ganga ekki upp nema að þátttaka fáist og það er ekkert einfalt að fá þennan hóp af fólki til að vinna verkin þá kunni ég m.a. einfaldlega ekki við að renna af hólmi á síðustu stundu. Af því að það var engin afsökum sem hægt væri að leggja fram sem trúverðuga þá ákvað ég að láta slag standa og mæta á staðinn. Strákarnir mínir spurðu hvort þetta væri ekki áhætta að mæta aftur með Comrades í fótunum því ég sigraði í hlaupinu hlaupið í fyrra. Nú ætti ég á hættu að lenda í vandræðum og gæti jafnvel þurft að hætta í hlaupinu ef ég væri ekki búnn að jafna mig almennilega. Þá væri sómi fyrra árs farinn veg allrar veraldrar. Svona áhættu verður maður engu að síður að taka. Ef áhætta er ekki tekin þá vinnst ekki sigur.
Ég kom til Rönne á miðvikudagskvöldið með ferjunni og gekk upp að Galökken. Þá voru sex daga hlaupararnir inni á sínum fjórða degi. Ég hitti Eiolf félaga minn frá Noregi fljótt úti við brautina. Hann var slitinn og þreyttur. Hann hafði lagt steinhart út í upphafi og hvíldi sig varla í fyrstu 40 klst. Þá var hann einfaldlega orðinn of þreyttur til að ná dampi aftur. Nú voru öll markmið hlaupsins komin út í veður og vind og hann ætlaði sér bara að ljúka tímanum. Það var ekki sérstaklega skemmtileg framtíðarsýn fyrir næstu daga að hanga með án þess að stefna að ákveðnu markmiði. Veðrið hafði verið gott það sem af var, ekkert hafði rignt en verið heldur kalt yfir næturnar.
Ég skrapp út í búð morguninn eftir og keypti mér snarl og drykki sem ég þurfti að nota. Hlaupið hófst síðan kl. 12:00. Ég hitti Kim og hann var kátur að sjá mig. Það höfðu einhverjir hætt við þátttöku á síðustu stundu. Það voru rúmlega 10 keppendur sem stóðu á strikinu á hádegi þegar 48 klst hlaupararnir voru ræstir. Besti 48 tíma hlaupari Dana, Lars Skytte Cristiansen, var að keppa í sex daga hlaupinu. Hann er nýbúinn að setja danskt met í 48 klst hlaupi þegar hann hljóp rúmlega 370 km á 48 klst. Til samanburðar hljóp ég 333 km í fyrra. Ég þekkti lítið til hlauparanna sem voru í 48 tíma hlaupinu. Ég sá þó að einn þeirra hafði hlaupið 230 km í 24 tíma hlaupi sem er fínn árangur og mun betra en ég hafði náð.
Ég hafði sett mér það markmið að ljúka um 190 km á fyrri sólarhringnum. Þá væri ég í þokkalegum málum inn á þann seinni. Í fyrra pressaði ég mig upp í 200 km eftir 24 tíma og það hafði í för með sér að ég þurfti að taka hátt í klukkutíma að koma fótunum í gang aftur. Ég ætlaði ekki að gera slík mistök aftur.
Það var vel staðið að upplýsingagjöf hjá Kim fyrir hlauparana. Keppendur voru með chips og hlupu yfir mottur. Upplýsingarnar fóru síðan beint inn á tölvu sem varpaði stöðunni upp á tjald. Þannig sást það stöðugt sem var að gerast í hverju hlaupi fyrir sig á hverjum hring. Hópurinn skiptist fljótt upp. Það voru þrír danir sem voru á álíka hraða og ég og einn aðeins á undan fyrstu klukkutímana. Það var fínt því það er alltaf skemmtilegra að vera í góðri keppni. Á hinn bóginn skera síðustu 12 klukkutímarnir í svona hlaupi um úrslitin meðal jafnra hlaupara. Því skipti mig engu máli hvað aðrir voru að gera, ég hélt mig við mitt plan.
Það var heitt og ég svitnaði mikið og drakk því mikið. Reyndar mjög mikið. Ég tók mikið af steinefnatöflum því það veitti ekki af. Saltið fór fljótlega að safnast upp í haugum utan á manni. Ég hafði lagt upp með að nærast á Herbalife próteindrykknum. Það hafði gefist vel hingað til og engin ástæða til að breyta því sem vel hefur gengið.
Ég lagði út með svipað plan og fyrri ár. Fyrstu þrjá klukkutímana hljóp ég án þess að ganga. Síðan hóf ég að ganga smá spotta á hverjum hring, alltaf sama spottann. Ég lauk við um 59 km á fyrstu sex klst og það tók mig rúmar 11 klst að hlaupa fyrstu 100 km. Þegar líða fór á kvöldið sá ég að það var ekki allt eins og það átti að vera. Vökvinn var byrjaður að safnast upp í líkamanum. Hendurnar voru orðnar þrútnar og fæturnir vafalaust eins. Bjúgmyndun er dæmi um að það er ekki allt sem skyldi. Maginn er þá orðinn svo yfirfullur af vökva að frárennsliskerfið hefur ekki undan. Þá byrjar einnig að myndast ólyst á vökva og líkaminn nýtir ekki það sem drukkið er. Herbalifið var orðið vemmilegt og ég gat varla drukkið neitt af því sem boðið var upp á að neinu marki. Þegar maður drakk þá virtist vökvinn renna beint út í gegnum svita. Á einum tímapunkti þá fór steinefnafreyðitafla út í HO3 orkudrykkinn. Það reyndist vond blanda því hún kom af stað ólgu í maganum sem var ekki til bóta ofan á allt annað.
Það gekk hins vegar vel með hlaupið. Ég hélt fyrirfram ákveðinni áætlun. Þegar leið á kvöldið fór ég að síga fram úr dönunum. Fyrst náði ég tveggja km forystu á þann fyrsta, síðan fjögurra og svo átta km forystu um nokkurn tíma. Það sagði hins vegar ekkert því þeir gátu hafa stoppað til að gera eitthvað sem ég ætti eftir að gera. En um miðnættið gerðist greinilega eitthvað. Bilið jókst upp í 13 km, svo 18 og síðan var bilið orðið yfir 20 km. Það hafði greinilega eitthvað gerst hjá þeim öllum. Um þetta leyti hreyfðust þeir ekki í einhverja klukkutíma. Sumir dananna eru reyndar ekki í þessu af fullri alvöru. Þeir setjast niður, spjalla saman, einhverjir þurfa að fá sér að reykja og enn aðrir fá sér blund. Svo gátu blöðrur, hásinareymsl og magavandræði haft sín áhrif. Þegar leið á nóttina sá ég að ég þurfti að gera eitthvað í magaveseninu. Um morguninn var eldaður hafragrautur fyrir keppendur. Ég bað um disk og borðaði hann í rólegheitum meðan ég gekk. Ég fann strax að hann gerði maganum gott. Ég bað því um annan og síðan enn annan. Það lágu fjórir þegar ég var orðinn góður og mér leið miklu betur.
Eins og áður sagði þá stefndi ég að 190 km eftir fyrri sólarhringinn. Þegar leið á morguninn sá ég að ég myndi fara yfir 200 km mörkin án þess að hafa neitt fyrir því. Draumamarkmið 24 tíma hlaupara er að sprengja 200 km múrinn og það veitist mörgum erfitt. Því gat ég ekki verið annað en ánægður með að rúlla í gegnum það án fyrirhafnar og í raun án þess að hafa ætlað mér það.
Pressan hafði sinnt hlaupinu vel fram að þessu. Það lágu frammi blöð í þjónustutjaldinu með myndum og viðtölum við ýmsa hlaupara s.s. Lars Skytte og stúlku frá Ástralíu sem er mjög góður sex daga hlaupari. Sjónvarpsmenn frá Radio Bornholm komu um hádegið að taka myndir af hlaupurunum. Mér til undrunar þá reyndist einn þeirra vera íslenskur. Hann hafði unnið á RUV en flust til Borgundarhólms fyrir einum 12 árum. Hann kvaðst mjög ánægður með að búa þar. Hann sagðist koma daginn eftir, taka myndir og viðtal sem hann myndi senda heim til RUV. Það kæmi síðan í ljós hvort það yrði notað!!
Hlaupið hélt síðan áfram en maginn var ekki í lagi. Ég átti erfitt með að drekka og eins var erfitt að borða orkugel og annað sem þörf var á. Það ætlaði allt að koma upp aftur. Bananar voru heldur ekki lystugasti matur sem fannst en með því að tyggja þá með vatni þá tókst að renna þeim niður. Maður píndi sig til að innbyrða eins og hægt var því það er ekkert um annað að ræða. Það verður að vera orka til staðar. Ég borðaði vel af hádegismatnum en það var enginn sérstakur kostur. Einhversskonar vorrúllur með grænmetisjukki. Það var þó betra en ekkert. Ég var hættur að nota Herbalifedrykkina því það var bara ekki að gera sig að innbyrða drykki. Bjúgsöfnunum heldur jókst svo það var að safnast upp ákveðinn vítahringur. Ég þurfti þó aldrei að æla svo þetta var ekki mjög slæmt en sama var, það myndi greinilega taka sinn tíma að já jafnvægi aftur. Ég losaði upp reimarnar á skónum til að víkka þá til að minnka hættuna á blöðrum þegar fæturnir þrútnuðu svona mikið. Einnig plástraði ég mig eins og ég gat ef ég fann minnsta vott um að það væri að koma blaðra.
Fyrri sólarhringurinn í 48 tíma hlaupi líður yfirleitt hratt. Sá seinni er aftur á móti lengi að líða. Þá eru allir orðnir þreyttir, vandamálin fara að skjóta upp kollinum og það sem framundan er virðist heil eilífð. Ekki bætir úr skák að sjá 24 tíma hlauparara geysast áfram létta í spori en þeir voru ræstir kl. 12:00 næst síðasta daginn.
Ég var hættur að hugsa um danina. Sá sem hafði verið harðastur hafði greinilega hætt en hinir þokuðust áfram, greinilega með sprungið á flestum dekkjum eftir hraðanum að dæma. Nú var markmiðið einungis að fara lengra en í fyrra. Þó var ég ekki viss um aðþað myndi takast ef ég myndi ekki koma maganum og orkubúskapnum í lag aftur. Það er einnig töluverður munur á að vera í harðri keppni allan tímann eins og í fyrra eða að vera einn á báti eins og nú. Þá koma hugsanir upp hvort eigi ekki bara að taka þetta rólega og sigra bara örugglega og vera annars ekkert að æsa sig. Á hinn bóginn fanns mér það heldur aumingjalegt. Ég vildi fara yfir 300 km markið og ég vildi helst fara lengra en í fyrra. Því var ekkert annað að gera en að þrælast áfram.
Tíminn leið og hringirnir mjökuðust inn. Þó gekk það hægar en ég hefði viljað af því ég var ekki nógu orkumikill. Í kvöldmatinn var borið fram kjúklingabringa og hrísgrjón. Ég borðaði eins og ég gat og fann að ég var allur að koma til. Vandamálið var að hrísgrjón eru ekki beint orkufæði. Ég borðaði þó tvöfaldan skammt en gat ekki snert Herbalifið enn. Það er svolítið merkilegt að upplifa hvað gerist þegar myrkrið skellur á og maður hefur ekki sofið í góðan sólarhring. Fyrri nóttin leið hjá án nokkurra vandræða hvað svefn varðaði en það var heldur verra seinni nóttina. Það er orðið dimmt um kl. 22:00 og fljótlega kemur í ljós að það gerist eithvað í hausnum. Svefninn sækir fast að. Dýna sem lá á jörðinni í þjónustutjaldinu öðlaðist skyndilega gríðarlegt aðdráttarafl en ég hafði ekki einu sinni veitt henni athygli áður. Ég lét undan freistingunni um miðnættið og lagði mig á hana í smástund. Vitaskuld var það ómögulegt að sofna og það var svo sem ágætt að hafa það á hreinu. Maður gat þá hætt að hugsa um það. Það var verra með orkuna. Ég var orðinn orkulaus og í raun sársvangur. Maginn var greinilega farinn að jafna sig og kallaði á mat. Þegar ég spurði eftir mat í tjaldinu þá var ekki um auðugan garð að gresja á því ágæta fólki sem þar var að vinna. Pakkasúpa og hvítasta rúnnstykki sem hægt er að finna er ekki beint undirstöðufæða. Ég setti í mig nokkra diska af súpunni og reyndi að smyrja einhverju súkkulaðiáleggi á rúnnstykkið en það kom fyrir ekki, jafnvel þótt áleggið væri jafnþykkt rúnnstykkinu. Hvítt brauð er bara ekki matur.
Mér leist satt að segja ekki allt of vel á stöðuna. Ég hafði ekki haft neitt plan B í matarmálum. Ég settist niður og dundaði eitthvað við fæturna og hef greinilega verið orðinn eitthvað tuskulegur því Eiolf hinn norski félagi minn spurði hvort ekki væri allt í lagi. Ég sagði eins og satt var að ég væri bara að drepast úr hungri. Það var þá ekki spurning að hann bauð mér undireins að fá eins og ég vildi af öllum þeim mat sem hann hafði hjá sér í gististaðnum. Hann hafði komið vel útbúinn fyrir sex daga hlaupið. Hann sagðist t.d. eiga „turmat“ sem er útilegumatur sem leystur er upp í heitu vatni. Það er vandi vel boðnu að neita þegar slíkt er í boði. Ann, kona Eiolfs, sem var nærstödd, hellti upp á eina pakningu í snatri og ég fór að tína matinn í mig eins og hitinn leyfði. Það leið ekki á löngu að ég fann muninn við að fá almennilegt að borða. Orkan streymdi um skrokkinn og eins hresstist hausinn allur við. Ég borðaði matinn í nokkrum skömmtum til að ofgera maganum ekki en hófst þegar handa við að tína inn kílómetra úti á stígnum eins og fært var. Ég var kominn upp í um 250 km framan af nóttunni svo það var ekki til setunnar boðið. Ég gekk rösklega og halaði inn svona fimm til sex km á klukkutíma yfir nóttina. Ég var ekki tilbúinn í að fara að hlaupa enn. Svo voru fæturnir orðnir aumir og það kallar ekki á hlaup, sérstaklega þegar ásigkomulagið var ekki eins og best var á kosið.
Það fer að birta um 3:00 um nóttina. Þá vaknar fuglalífið allt í einu og gengur mikið á eftir að það hefur ekki heyrst kvint í þeim í nokkra klukkutíma á meðan dimmt er. Ég fór yfir 290 km markið þegar klukkan var langt gengin í fimm um morguninn. Fyrir 48 tíma hlaupara eru 300 km draumamarkið svo það var allt í lagi með að ég myndi ná því. Samt var ég ekki sáttur. Með áframhaldandi hraða þá myndi ég kannski komast yfir vegalengdina sem ég náði í fyrra. Ég hafði sett markið hærra. Ég fór þá að reyna að hlaupa. Fyrstu skrefin voru svolítið stirð en síðan fór allt að rúlla. Það var ekkert mál að skokka létt áfram. Sársaukinn í fótunum var ekkert verri við að hlaupa en ganga. Mér leið vel og orkan var öll komin til. Því hljóp ég bara áfram og hringirnir liðu fljótar hjá en áður. Á sjötta tímanum fór ég yfir 300 km markið og nú fór ég að reikna. Ef ég færi 303 km fyrir kl. sex þá myndi ég örugglega ná 30 km á síðustu sex klukkutímunum. Það virðist ekki vera hátt markmið að öllu jöfnu en þegar 300 km sitja í fótunum þá er ekkert öruggt. Með því að hlaupa sjö hringi hverjum klukkutíma þá myndi ég örugglega ná yfir árangurinn í fyrra og jafnvel ná uppundir 340 km. Ég hljóp því og reiknaði og reiknaði og hljóp. Fljótlega sá ég að það var ekkert mál að hlaupa sjö hringi á klukkutíma svo þeir urðu fljótlega átta. Þá endurskipulagði ég áætlunina. Myndi ég jafnvel ná að kitla norska landsmeti Eiolfs sem er 345 km. Það væri þá fallega gert þar sem hann bjargaði mér út úr hungrinu. Þær hugsanir viku þó fljótlega fyrir metnaðinum. Ég borðaði tvö hafragrautsdiska um morguninn. Nú var ekki verið að viðhafa neina sérstaka borðsiði heldur setti ég vel að mjólk út á og drakk síðan allt af diskbarminum. Það sparaði tíma. Um átta leytið ákvað ég að slá í mig einum Herbalife hristing. Nú reyndist allt eins og átti að vera. Ég fann hvernig líkaminn fylltist af orku og var tilbúinn í allt. Það var svo merkilegt að þegar ég fór að hlaupa þá hurfu öll eymsli fljótlega úr fótunum. Það var einfaldlega ekkert að. Ég hljóp því bara eins og ég gat. Á þessum tíma eru flestir keppendur hættir að hlaupa sem neinu nam heldur gengu áfram misjafnlega á sig komnir. Blöðrur, skafsár og þreyta voru farin að setja svip sinn á hópinn. Ég fann fljótt að átta hringir á klukkutíma voru ekkert mál svo þeim fjölgaði í rúmlega níu. Það þykir kannski ekki sérstaklega hratt að halda sex mínútna tempói á km að öllum jafnaði en eftir 300 km þá er það bara ágætt. Þegar leið á morguninn sá ég norska metið myndi falla auðveldlega og þá setti ég nýtt markmið. Ég ætlaði að ná yfir 350 km. Mér komu í hugann það sem sögumaður í myndinni 300 Spartverjar sagði þegar hann var að lýsa herleiðangri þeirra: „Við gengum og við gengum“. Ég hljóp og ég hljóp. Tíminn leið undarlega hratt þegar ekkert var annað að gera en að telja hringi. Síðustu klukkutímarnir í svona hlaupum er yfirleitt sá hluti hlaupsins sem ætlar aldrei að líða. Þá er þreyta og sársauki farinn að taka yfirhöndina. Það var því undarleg upplifun að geta hlaupið og hlaupið í þessum hluta hlaupsins án þess að mæðast, þreytast eða svitna úr hófi eftir að hafa þó stritað í nær tvo sólarhringa. Tíminn leið mjög hratt. Ég fór yfir norska metið rétt fyrir kl. 11:00 og náði 350 km takmarkinu um kl. 11:30. Þá hægði ég á mér og spjallaði aðeins við sjónvarpsmennina frá TV2. Ég var ánægður með niðurstöðuna og sérstaklega lokasprettinn. Ég lauk 50 km á fimm og hálfum tíma frá því kl. 6:00 um morguninn. Það gerir maraþonhraða á eitthað nálægt 4:30 ef ég reikna ekki mjög vitlaust. Ég lauk svo einum hring undir kl. 12:00 til að njóta stundarinnar. Þá hafa áhorfendur safnast saman við markið og fagna keppendum þegar þeir ljúka við erfiði undanfarna sólarhringa. Það er toppurinn að setjast niður við brautina þegar lúðurinn gellur, spjalla við nærstadda og bíða eftir að Kim og hans fólk komi með mælingarhjólið og einn bjór. Betra gerist það ekki.
Ég var miklu betur á mig kominn við hlaupalok en í fyrra. Skrokkurinn var í góðu jafnvægi og fæturnir ekki aumir utan það sem eðlilegt er. Í fyrra hægði ég meir á mér undir lok hlaupsins en nú og hugsaði þá fyrst og fremst um að halda forustunni. Þó að ég hafi lent í vandræðum með magann þá gekk annað yfirleitt vel. Blöðrur voru ekki til sérstaks ama þó að vitaskuld stungu nokkrar upp kollinum. Það bara tilheyrir. Asics skórnir komu vel út, bæði Nimbus og Kajano. Síðan slapp ég alveg við klofsæri sem hefur alltaf verið við leiðinda hingað til í svona löngum hlaupum. Ég þakka það Sinkpastanu. Ég bar vel á mig í upphafi hlaupsins og þurfti varla að gá að því síðan. Ég er síðan búinn að finna út að með því að fara í nærbuxurnar öfugar þá eru minni líkur á að saumarnir nuddi. Það er mikill munur að sleppa við klofsærið. Vaselínið er hálfgerð falslausn á svona löngum tíma. Svitinn leysir það upp svo það verður lítil vörn í því.
Alls hljóp ég um 352 km. Það er mun betri en ég átti von á fyrirfram. Ef allt hefði gengið að óskum hefði ég að líkindum einnig slegið sænska metið sem er 360 km. Það er enginn annar en Rune Larsson sem á það. Til samanburðar er norska metið 343 km, danska metið 372 og finnska metið um 380 km.
föstudagur, júní 25, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Glæsilegt Gunnlaugur - til hamingju!
Innilega til hamingju með árangurinn. Virkilega skemmtileg lesning og ótrúlegt hvað þú náðir góðum hraða síðustu tímana.
Mjög skemmtileg frásögn - ótrúlegt að þú hafir haldið út þennan erfiða kafla en að uppskera svona vel eftir það hlýtur að hafa verið alveg frábært! Innilega til hamingju með árangurinn! Kv. Halla Þorvaldsd.
Skrifa ummæli