mánudagur, júlí 26, 2010

Það var safnast saman við húsnæði FÍ í Mörkinni á þriðjudagsmorguninn var rétt fyrir kl. 8:00. Þar voru samankomnir 29 væntanlegir göngugarpar og tveir fararstjórar, þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Gísli Már Gíslason. Þau eru bæði starfandi sem prófessorar við HÍ og eru mestu Þjórsárverasérfræðingar landsins og þótt víðar væri leitað. Þótt gaman væri að koma í Þjórsárver eins og marga aðra staði þá var væntanleg fararstjórn þeirra það sem fyrst og fremst dró mig með í ferðina. Við ókum sem leið lá upp að Hrauneyjum en þar voru mættir nokkrir starfsmenn á vaði. Meðal þeirra voru hjónin Páll Ásgeir og Rósa. Hlutverk þerra var að koma okkur yfir Þjórsá við Kvíslarveitu svo ferðin gæti hafist. Nokkuð bras var hjá björgunarsveit Árborgar að koma gúmmíbátnum inneftir m.a. vegna þess að lega fór í kerrunni. Þá var bátnum bara dengt upp á þakið á einum jeppanum. Hópurinn var svo ferjaður yfir fyrri kvíslina á Þjórsá með því að draga hann fram og aftur yfir ána á streng. Tæpum kílómeter vestar var önnur kvísl sem var óvæð. Björgunarsveitarmenn færðust undan því að bera bátinn fram og til baka milli kvíslanna svo það varð úr að hópurinn gekk upp með kvíslinni og fór á jökli fyrir upptök árinnar. Þar ofarlega var á vegi okkar fyrsta ársprænan sem þurfti að vaða yfir en alls urðu þær 27 áður en yfir lauk. Jökulár eru ískaldar eins og þeir þekkja sem reynt hafa þær á tánum. Flestir voru með vaðsokka en ekki allir en allt gekk þetta upp. Pokarnir eru þungir í upphafi ferðar og sigu töluvert í. Maður er yfirleitt með of mikið með sér en það er betra að hafa aðeins meir en að vanta hlutina þegar á hólminn er komið. Þegar að jöklinum kom sukku fremstu menn upp á legg í drullu. Það tók dálítinn tíma að koma hópnum yfir svaðið með því að bera grjót undir hann en allt fór það vel að lokum. Reyndar rann ein kona á ísnum og blóðgaði sig á augabrún en það var minna en leit út fyrir í upphafi. Gangan yfir jökulinn gekk vel. Á leiðinni voru nokkrir svelgir sem þurfti að vara sig á því þeir sleppa ekki svo gjarna því sem í þeim lendir. Þegar komið var niður af jöklinum þurfti að vaða yfir aðra jökulá sem var heldur stærri. Hún var virkilega köld og voru ýmsar tær orðnar kaldar og sárar þegar yfir var komið. Þaðan var stutt í tjaldstæðið undir Arnarfelli hinu mikla en þar ætluðum við að hafast við í tvær nætur. Það er alltaf góð tilfinning að skríða inn í tjaldið eftir stífa göngu með þungan poka og hita sér eitthvað að borða. Svo var fljótlega farið að sofa. Það var bjart um nóttina en nokkuð kalt. Ég þurfti að bæta á mig fötum um nóttina og náði að sofa sæmilega. Morguninn eftir var haldið á Arnarfell hið mikla sem gnæfði yfir tjaldstaðnum. Það er rúmlega 1100 metra hátt og rís um 500 metra yfir Þjórsárverum. Það var farið rólega upp og Gísli og Þóra skýrðu út allt smátt og stórt sem á vegi okkar varð, hvort sem um var að ræða blóm, grös, skordýr eða fjallahringinn. Ég held að það sem þau vita ekki um Þjórsárver sé ekki þess virði að vita það. Uppi á Arnarfelli var útsýnið eins og best var hægt að hugsa sér, fjallahringurinn blasti við okkur allann hringinn, sólin skein og blæjalogn var. Betra gat það ekki verið. Síðan gengum við niður bratta skriðu vestan megin á fellinu og þokuðum okkur svo smám saman til tjaldanna aftur. Um nóttina fór að rigna upp úr miðnætti. Það var ekkert tilhlökkunarefni að eiga von á að þurfa að ganga til Nautöldu í rigningu en þangað var ferðinni heitið daginn eftir. Það er um 18 km leið. Það stóðst hins vegar á endum að þegar við fórum á fætur hætti að rigna og dagurinn var þurr og hlýr. Við gengum sem leið lá niður eyrarnar í áttina að Múlunum svokölluðu sem eru fremstu jökulgarðarnir í þessum hluta veranna. Þeir eru úr jarðvegi og hafa rúllast eða spýst upp við framhlaup jökulsins. Nú fórum við að kynnast alvöru jökulám. Þær breiddu úr sér þarna á eyrunum og tók töluverðan tíma að finna væða leið yfir þær. Það tókst þó allt á endanum en það var ný upplifun fyrir marga að sullast yfir breiðar og beljandi jökulár. Við gengum eftir Múlunum, skoðuðum rústir og líklegt byrgi Fjalla Eyvindar. Þarna hittum við hóp vísindamanna sem voru nýkomnnir á staðinn. Verkefni þeirra var m.a. að greina uppruna og tilurð jökulgarðanna. Áfram var haldið og stoppað við stóra gæsarétt sem var á hól skammt frá Hjartafelli. Þessar gæsaréttir eru ævafornar en þær voru notaðar til að reka í ófleygar gæsir og síðan var þeim slátrað. Þetta eru mannvirki frá miðöldum því engar heimildir eru til um notkun þeirra. Trú ýmissa er að Fjalla Eyvindur hafi hresst upp á þær tvær sem sjást best þegar hann dvaldi þarna fyrir um 270 árum síðan. Skammt fyrir vestan gæsaréttina var enn ein jökuláin sem virtist meinleysisleg en reyndist vera sú versta í ferðinni. Allt gekk þó vel og við komumst í tjaldstað við Nautöldu um kl. 20:00. Daginn eftir var hlýtt og logn. Þá gengum við upp á Ólafsfell og inn eftir því inn að jkullóni sem einu sinni var. Fyrir 10 árum var þarna stórt lón sem hljóp á nokkurra ára fresti. Nú hefur jökullinn lést svo að það kemur smá hlaup í ána einu sinni á ári. Líklega stóð það yfir akkúrat núna. Við fórum nokkur niður að stórum íshelli sem við sáum á jöklinum. Rétt í þann mund sem við komum að honum þá hrundi niður gríðarstór fylla úr loftinu. Það er betra að vera ekkert að reka nefið þar innfyrir. Á leiðinni til baka stoppuðum við hjá heitri uppsprettu sem spratt upp vestan undir Ólafsfellinu. Vatnið er 62°C þar sem það sprettur fram. Því er veitt í smá poll gerðum af mannahöndum þar sem hægt er að baða sig. Ekki leist öllum á það í upphafi en þar lauk að flestir ef ekki allir fóru í bað og þótti það afar hressandi.
Daginn eftir átti að ganga á Nautöldu og fara niður í verin. Dagurinn heilsaði fagur og bjartur og var þannig að á betra var ekki kosið. Hitinn var vel yfir 20°C, logn og sólskin. Betra gerist það ekki. Hópurinn fór hægt yfir og naut dagsins. Nú voru þau Þóra og Gísli á heimavelli. Það var vaðið út í tjarnir og smádýr skoðuð sem maður hefði ekki veitt minnstu athygli við að strika framhjá. Ítarlega var farið yfir gróðurfarið og fuglar sem urðu á vegi okkar greindir þannig að það varð ekkert útundan. Að lokum var samnkallað höfuðból heimsótt en það er tófugreni sem er neðarlega í verunum. Við sáum enga hreyfingu á því úr fjarlægð en þegar nær var komið stökk steggurinn undan runna skammt frá. Í greninu urruðu yrðlingarnir innan dyra. Á því lá síðan slatti af gæsaungum. Við róluðum síðan til baka í góða veðrinu. Þegar heim í tjaldstað var komið fóru margir í þrifabað í læknum fyrir neðan tjaldstaðinn. Vatnið þar er ekki yfir 4°C en þegar lofthiti er um 20°C þá er margt hægt.
Síðasta daginn var síðan gengið í Setrið í góðvirði, logni og hlýju. Þangað komum við um kl. 14:00 og þurftum að bíða í smá stund eftir rútunni en svo var haldið til byggða.

Í Þjórsárverin koma afar fáir á hverju ári. Það er erfitt að komast þangað, þau eru erfið yfirferðar og því eru þau fáfarin. Það voru því hrein forréttindi að fá tækifæri til að ferðast þarna um í góðvirði og blíðu með mestu Þjórsárverasérfræðingum landsins, þeim Þóru Ellen og Gísla Má. Öllu var gaumur gefinn hvort það voru stærstu jöklar landsins úti við sjóndeildarhring, örnefni fjallahringsins, minnsta blóm landsins eða lirfur og krabbadýr í tjörnum. Virkjanafyrirætlanir fyrr og síðar sem hefðu haft áhrif á verin voru skýrðar nákvæmlega út þannig að það var ekkert sem stóð út undan. Þetta var frábær ferð og eiga þeir þakkir skyldar sem gerðu hana mögulega svo og ber að þakka góðum ferðafélögum sem skiptir ekki litlu máli að hafa nálægt sér í svona túrum.

3 ummæli:

Kristín Jónsdóttir sagði...

Fín úttekt á ferðinni Gunnlaugur. Ég tek undir þetta allt saman og þakka samfylgdina og enn og aftur björgunina í miðri Miklukvísl.

Unknown sagði...

Kærar þakkir Gunnlaugur fyrir þessa góðu úttekt sem þú hefur verið snöggur að skrá. Þú ert greinilega röskur við fleira en að vaða jökulár. Bestu þakkir fyrir samfylgdina og hjálpina. Sigrún H

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta ágætu ferðafélagar. Það var nú það minnsta sem hægt var að gera að forða "Parísardömunni" frá því að rassblotna í Miklukvíslinni!!
Myndirnar eru komnar inná myndasíðuna.
Mbk

Gunnl.