Dagurinn í gær var tekinn heldur rólega. Reyndar fóru allir á fætur rétt eftir að menn náðu svefni því María og stöllur hennar í 4. fl. kvk hjá Víking voru að halda til Svíþjóðar til að taka átt í Gothia cup mótinu í Gautaborg. Það var mæting kl. 4.00 niður við Vík svo það þýddi ekki að vakna síðar en 3.30.
Hún er svolítið skrítin líkamsvekjaraklukkan. Þarna þurfti ég að vakna um kl. hálf fjögur tvær nætur í röð. Í bæði skiptin var ég glaðvaknaður svona 2 mínútur áður en vekjarinn hringdi. Það er einhver nemi til staðar sem erfitt er að útskýra hvernig virkar en hann fúnkerar. Stelpurnar voru glaðbeittar og spenntar enda að fara í sína fyrstu keppnisferð til útlanda. Maður hefði sjálfan sig séð í álíka sporum á þessum aldrei.
María keppti á meistaramóti unglinga 12 - 14 ára í Borgarnesi á laugardaginn og varð íslandsmeistari í langstökki. Vantaði 3 cm til að koma hælnum yfir 5 metra.
Fórum í mat til Siggu skálangömmu í gærkvöldi. Dóttir hennar og fjölskylda sem búa í Danmörku voru í heimsókn og tilvalið að safna stórfjölskyldunni saman. Skemmtilegt kvöld.
Ég hef fengið nokkur viðbrögð út af vangaveltum um mataræði fyrir Laugaveginn. Ég get ekki annað sagt en þetta upplegg sem ég nota passar mér vel, svo vel að ég hef ekki í hyggju að breyta því í löngum hlaupum sem eru yfir ca 5 klst. Mér finnst þetta vera nokkuð rökrétt. Sé Laugavegurinn tekinn sem dæmi þá er hann 6 - 8 klst erfiði fyrir venjulegt fólk. Margir hafa þess utan verið vakandi í allt að sex tíma áður en hlaupið byrjar. Á svo löngum vinnutíma og erfiðum þurfa menn að borða vel. Ef menn geta ekki borðað á meðan á áreynslunni stendur þá verða menn allavega að borða vel áður en erfiðið byrjar. Það dugar ekkert fransbrauð á löngum vinnudegi. Carbóloadhleðsla er sögð vera tvíeggjuð fyrir svona löng hlaup því hún getur sent röng skilaboð til líkamans svo önnur næringarupptaka verði minni. Það verður að stappa í sig staðgóðum létt meltanlegum mat í aðdraganda svona verkefna til að orkuinnistæðan sé næg. Síðan er hægt að skjóta í sig aukapústi með geli eða orkustöngum en það er bara krydd på kakan en ekki undirstaða eða það sem dregur vagninn. Mér finnst maður heyra of mikið talað um um orkuskort, magavandræði og annað sem dregur kraftinn úr fólki á síðasta hluta hlaupsins. Að mínu mati á að vera hægt að draga úr þessu með réttu mataræði áður en lagt er af stað. Ég var að tína í mig fiskibollur þar til einni og hálfri klst fyrir hlaup. Ég fann aldrei fyrir orkuskorti eða neinum óþægindum af öðru tagi. Eftir mitt fyrsta Laugavegshlaup þá þurfti maginn a.m.k. eina klst til að jafna sig eftir í mark var komið til að ég gæti farið að hugsa um mat, hvað þá að borða.
Það er gaman að velta vöngum yfir þessu, bera saman reynslusögur og læra hver af öðrum. Það er óþarfi að hver maður sé að baxa við að finna upp hjólið. Það er búið að því fyrir nokkuð löngu síðan.
Setti nokkrar myndir frá Laugaveginum inn á myndasíðuna. Sé að eftir Jökultungur var enginn tími til myndatöku fyrr en í mark var komið!!!
mánudagur, júlí 16, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Vildi bara endurtaka þakkir fyrir einstaklega góða samfylgd og gagnlegt spjall á Laugaveginum og eftir hann. Eins og fram á síðustu kílómetrunum er ég einn af þeim sem þarf að finna upp hjól eða fá lánað mót af því einhvers staðar. Ég hef mikla trú á „venjulegum algengum íslenskum sveitamat“ og er staðráðinn í að halla mér framvegis heldur að honum í drjúgum skömmtum, í stað þess að taka til við tilbúið fæði úr boxum og bréfum. Býst samt við að orkuleðja (öðru nafni gel) henti vel sem áfylling meðan á hlaupi stendur, enda auðétin. Um leið hygg ég að orkudrykkir verði óþarfir, en íslenskt fjallavatn þeim mun nauðsynlegra. Ég er líka dálítið spenntur fyrir því að hafa hreinan appelsínusafa í nesti eins og „endurance-maðurinn“ sem ég man ekki hvað heitir. Grunar að þetta allt saman gæti líka átt við styttri langhlaup. Kannski maður geri tilraunir fyrir Jökulsárhlaupið, þó að það sé nú bara þriggja tíma vinna.
Gangi þér og öllu liðinu annars allt í haginn í ATC. Þetta verður ævintýri og um að gera að hafa gaman af.
Mjög áhugaverður pistill um mataræðið, held ég prófi fiskbollur næsta ár og sjái hvort það kemur alveg í veg fyrir magavesen.
Kveðja,
Ásta
Skrifa ummæli