Það var góð ferð vestur um helgina. Vorum komin vestur á Sand upp úr kl. 10 á föstudagskvöldið. Inga systir og Bragi voru rétt á undan okkur. Daginn eftir va rhafist handa um að mála húsið að utan eins og ætlað var. Það gekk mjög vel enda margar hendur á lofti. Smá dropar komu um hádegið en annars var veðrið hið besta. Við vorum langt komin á laugardaginn enda haldið á fram a kvöld. Við fórum í miðdagskaffi í Franska veitingahúsið hans Kjartans úti í Kirkjuhvammi. Það var mikill renningur af fólki þann tíma meðan við stoppuðum og er ljóst að ferðafólk jafnt og heimafólk kann vel að meta þetta framtak. Í þessu húsi var oft drukkið kaffi af gestum og gangandi hér áður hjá Jónu þótt það hafi verið undir öðrum formerkjum en nú. Það er engu að síður vel við hæfi að gestum sé sinnt af natni í Kirkjuhvammi. Hitti nokkra kunnuga og meðal annars Sigga Sig. í Sigurðarhúsi á Patró. Hef ekki séð hann í yfir tuttugu ár. Hann vann við vélaviðgerðir í gömlum skúr inni við Mikladalsá og bjargaði iðulega málunum þegar allt var komið í öngstræti. Hann er fæddur árið 1920 og er því langt genginn í nírætt en ansi kvikur og lítur vel út. Hann sagðist fara af og til í skúrinn eitthvað að bjástra þó það væri farið að minnka. Á sunnudaginn þegar við keyrðum fram hjá var töluvert af fólki í Kirkjuhvammi og krakkarnir að sulla í flæðinni fyrir neðan veginn. Flottur staður.
Við lukum við að mála fyrir hádegi á sunnudaginn og leit bæjargreyið betur út en áður. Það er margt handtakið sem eftir er sem miklu máli skiptir að það sé farið að þoka málum.
Við komum við á Siglunesi á leiðinni suður. Það er ysta jörðin á Barðaströndinni en er nú í eyði eins og margir fleiri þarna. Þar bjó Gummi á Nesi, einhleypur maður sem kom alltaf yfir á Sand í göngunum á haustin. Á Nesi var sól og blíða og fallegt útsýni inn eftir Ströndinni. Þarf að ganga fyrir Sigluneshlíðar einhven tíman og fara fyrir Stálið og síðan út Skorarhlíðar. Stórbrotin leið og áhugaverð.
Það var gaman að róla austur sýsluna í góðu veðri en eins og yfirleitt vantar mann alltaf tíma til að fara útúrkróka. Það er t.d. langt síðan ég hef komið út á Múlanes. Ég hef heldur aldrei komið niður í Kvígindisfjörð.
Komum aðeins við á Hvanneyri og tókum hús á Hauki bróður og Ingu. Nauðsynlegt að taka sólarhæðina í ýmsum málum.
Nú er farið að styttast í Grænlandsförina. Hitti Vilborgu frænku í gær en hún lánaði mér jöklagræjur. Vilborg vinnur hjá Ferðafélaginu og hefur virkilega fundið réttu fjölina í útivist, fjallgöngum og öllu því sem þessum málum tengist. Hún var nýkomin úr 24 tinda göngu í Eyjafirðinum sem tók um 20 tíma. Hún sagði að þeir Akureyringar væru dálítið fríkostugir að hvetja óvant göngufólk í þennan túr, hann væri það erfiður að fólk þyrfit að vera vel undir búið.
Það var ekkert hlaupið fyrir vestan en fór út í gærkvöld og fór Kársnesshringinn með fimm brekkusprettum. Góður túr. Kom inn um eitt leitið. Þarf líklega að taka Esjuna og svo fer maður að telja niður fyrir Laugaveginn.
þriðjudagur, júlí 10, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Gulli minn, það eru sko réttu genin í stelpunni - henni Vilborgu Örnu, enda heldur hún tryggð við Rauðasand sbr. Ungfrú Rauðisandur.is ferðin sem er á vef fi.is ;-) Gaman að sjá að fólk eigi þess kost að njóta veitinga í Kirkjuhvammi - Jóna frænka og allt Kirkjuhvammsslegtið okkar kann því örugglega vel, er sannfærð að andi þeirra er á sveimi í kaffikönnunum þar.
Kv.
Sólveig frænka.
Gaman að sjá Máberg ný málað þarf að fara að skreppa á sandinn.
ha ha hvenær veit ég ekki hrædd um að lokað verði í Kirkjuhvammi en gaman væri að drekka þar kaffi orðið dálítið langt síðan það gerðist síðast
Kveðjur Erla frænka
Skrifa ummæli