laugardagur, júlí 28, 2007

Við Grænlandsfarar lentum á Reykjavíkurflugvelli um kl. 15.30 í gær eftir flugið frá Kulusuk. Við vorum fluttir með þyrlu frá danska herskipinu Ísbirninum sem statt var við Tassilaq. Áhafnarmeðlimir höfðu hjálpað heimamönnum á marga lund á meðan á keppninni stóð og haft af því mikla skemmtan eftir því sem þeir sögðu. Þyrla skipsins var notuð mikið við flutninga og fleira. Fjöldi liða í keppninni hafði aldrei verið meiri svo utanumhaldið var enn floknara og mikilvægara. Ástandið á skrokknum er fínt nema að ég hef aldrei haft svona mikinn bjúg í fótunum eftir langt álag. Líklega er það vegna þess hve maður drakk mikið og lengi og það tekur stund fyrir likamann að vinna sig í gegnum þetta.

Mig langar að draga saman i nokrum orðum þau atriði sem sitja efst í huga við heimkomuna og mér finnst skipta máli fyrir þá sem leggja í svona leiðangur á komandi árum. Ég veit ekkert um sjálfan mig hvað það snertir. Við komuna til Tassilaq um miðnættið þegar við rerum inn i höfnina fannst manni það ólýsanleg tilfinning að þurfa aldrei að róa þessum helvítis bát aftur. Daginn eftir vorum við farnir að tala um hvernig væri skynsamlegast að kaupa svona bát hingað til lands svo að keppnismenn komandi ára gætu æft sig á honum og verið betur undirbúnir i róðri en við vorum. Svona hefur svefninn góð áhrif á líkama og sál og læknar þreytu og pirring.

ATC keppnin á Grænlandi er ein af 10 erfiðistu keppnum af þessu tagi í heiminum. Hér er því engin skemmtiganga á ferðinni. Eins og einhver sagði á lokasamkomunni þá er maraþonhlaup héreftir "just a walk in the park" i samanburði við þetta verkefni. Svona er allt afstætt. ÁÐur en maður hljóp sitt fyrsta maraþon fyrir tæpum sjö árum fannst manni það vera endimörk þess sem hægt væri að treysta skrokknum til að takast á við. Nú er það bara peanuts.

Keppni eins og þessi er frábrugðin hefðbundnum ultrahlaupum um flesta hluti en þó er eitt atriði sem er afgerandi. Þetta er liðakeppni. Ekkert lið er sterkara en veikasti hlekkurinn. Í einstaklingskeppni verður maður algerlega að treysa á sjálfan sig og getur engum öðrum um kennt ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef einhver gleymir einhverju i svona liðakeppni getur það haft afgerandi áhrif á gengi hópsina. Því liggur það fyrir að það er gríðarlega mikilvægt að fara með góðum fyrirvara yfir öll þau atriði sem verða að vera klár til að draga úr líkum á því að eitthvað komi upp á í keppninni sjálfri sem hefði verið hægt að gera klárt áður en farið er af stað.

Að taka þátt í svona keppni er ekkert grín. Þetta er ekki karlagrobb sem sett er fram til að gera verkefnið mikilfenglegra en það er heldur bláköld staðreynd. Fólk hefur handleggsbrotnað og fótbrotnað í keppnum fyrri ára. Einn missti framan af fingri í þessari keppni þegar steinn datt á hann. A.m.k. tveir danir duttu i jökulsprungu i einu. Þeir kláruðu að bjarga sér úr því enda hörku þjálfaðir menn. Pétur Helga datt í sprungu upp að brjóstkassa. Það fór allt vel en tilfinningin var ekki góð sagði hann meðan hann hékk á höndunum og lappirnar sprikluðu í lausu lofti. Eftir á fórum við að hugsa um að enda þótt útbúnaðurinn hafi verið til staðar þá vissu flestir ekkert um hvernig ætti að bregðast við slíkum aðstæðum. Ef hann hefði farið niður þótt það hefði verið djúpt þá er ég ekki viss um að þau hefðu náð að draga hann upp. Ég hef tekið þátt í að draga mann úr jökulsprungu við þriðja mann og veit hve það er erfitt. Fyrst voru jummararnir, carabínurnar og spottinn einhversstaðar í bakpokanum undir matnum og fötunum. Svo fór ég að hugsa um hvernig ég myndi ná i það ef á þyrfti að halda. Eftir það dinglaði allt utan á beltinu þegar við vorum uppi á jöklum. Svona atriði sem viðrast ekki stór geta t.d. skipt máli þegar á hólminn er komið. Passa broddar á skó? Úr því verður ekki bætt þegar á hólminn er komið.

Tími og vegalengdir.

Í flestum hlaupum reynast þau keppandanum auðveldari eftir þvi sedm hægar er farið yfir. Svo er ekki með þessa keppni. Þá er ég fyrst og fremst að tala um síðasta legginn. Fyrstu þrír dagarnir eru bara létt upphitun. Besta liðið kláraði síðasta legginn á 26 - 27 tímum. Það er ekkert svakalega erfitt ef líkamleg hreysti og þekking gerir mönnum kleyft að fara svo hratt yfir. Þá fer liðið einungis í gegnum eina nótt. Lið sem fara hægar yfir og eru milli 40 og 50 tíma á ferðinni fara í gegnum tvær nætur. Það er mjög erfitt. Þá þarf að hugsa fyrir mat, fötum og öðru á allt annan hátt. Á svona langri leið fara hinir huglægu þættir að verða mikilvægari. Þola menn hvern annan á svona langri og erfiðri ferð þegar allir eru orðnir uppgefnir, þreyttir, fótsárir og matarlitlir ef ekki hungraðir. Meiri hætta er á slysum þegar fólk er orðið þreytt og athyglin farin að sljóvgast.

Rötun.

Rötunin er það sem ræður mestu á síðasta leggnum. Flestir eru að fara yfir land sem þeir þekkja ekkert. Röng ákvörðun um stefnu getur haft í för með sér margra klukkutíma seinkun vegna þess að víða er landið ófært yfirferðar. Hvalbökin sem við lentum í eru t.d. svo stór að þau eru ólýsanleg. Því er vönduð yfirlega yfir kortum og GPS tækjum lykilatriði. Það verða allir í hópnum að hafa GPS tæki og kunna að nota þau. Sú staða getur komið upp að tæki bili, batterí tæmast eða GPS maðurinn meiðst eða slasast. Það verða allir að geta bjargað sér til næsta punkts til að sækja hjálp ef sú staða kemur upp. Kortið sem keppnedur fá er ekki nákvæmt. Því er nauðsynlegt að hafa betra kort af svæðinu til að hafa hæðarlínur á hreinu þar sem um það er að ræða.

Matur.

Við margra daga erfiði þurfa menn mikið að borða. Maður er allt að því botnlaus. Ég hafði í upphafi nokkrar áhyggjur af matnum á síðasta leggnum og að mikilvægi hans yrði vanmetið. Ég veit að menn þurfa mikið að borða á langri leið undir miklu erfiði. Það kom í ljós að þessar áhyggjur mínar reyndust nokkuð á rökum reistar. Allt fór þó vel en það er auðsætt að mesti krafturinn fer úr mönnum ef maginn er farinn að kalla á mat og hungurtilfinningin farin að taka yfirhöndina. Fæturnir verða blýþungir og allt verður erfiðara. Ef blóðsykurinn lækkar fer athyglin að sljóvgast. Því er nauðsynlegt að skipuleggja matinn fyrir þennan legg mjög vel og fara yfir fyrirfram að allt sem á að vera með. Að mínu mati þarf lið sem er vel á annan sólarhring eða lengur á leiðinni að hafa með sér lítið gastæki til að geta hitað pakkasúpu eða eitthvað álíka. Það vita allir sem reynt hafa hvað heitur matur hleypir miklum krafti í þreytta líkama. Þar sem allir bakpokar voru úttroðnir þá þyrfti einn pokinn að vera aðeins stærri þannig að hann tæki bæði svona gastæki og eins línuna. Síðan getur liðið skipst á um að bera þennan poka.

Skófatnaður.

Skór og sokkar skipta miklu máli og geta í raun ráðið úrslitum. Skór sem eru gripgóðir, þola klettaklifur, skriður, sull í vatni og margra klukkustunda göngu í krapa á jöklum í allt að einn og hálfan til tvo sólarhringa samfleytt eru ekki auðfundnir. Salomon skórnir sem Pétur og Trausti pöntuðu frá Bandaríkjunum stóðu sig frábærlega. Þeir fara vel á fæti og drena sig fljótt. Það er hreinn dauði að fara i Goretex skóm í svona göngu. Þeir halda vatninu frá sér svo lengi sem það næst en ef það kemst inn eins og gerist þá fer það ekki út aftur. Fæturnir soðna mjög sljótt við slíkar aðstæður og blöðrurnar eru mættar. Ég nota alltaf Injiji sokka á svona löngum túrum en þeir eru eru bestu sokkar sem ég hef notað. Þeir draga t.d. mjög úr líkum á blöðrum við tærnar. Legghlífar eru nauðsynlegar. Víða er farið niður snarbrattar malarskriður og það er óþarfi að láta skóna fyllast af möl ef hægt er að koma í veg fyrir það á einfaldan hátt. Ég var með einföldu flíslegghlífarnar sem Bryndís Svavars. gaf mér áður en ég fór í WSER og þurfti aldrei að hella úr skó.

Samhæfing og fjölhæfni.

Til að lið í svona keppni hafi kynnst og þekki styrkleika og veikleika hvers annars þá þarf það helst að hafa æft sig saman áður, farið í gönguferð þar sem legið er úti í tjaldi, gengið á Hvannadalshnjúk sem lið eða gert eitthvað sem reynir svolítið á. Mörg liðin höfðu æft sig mánuðum saman fyrir þessa keppni. Við þekktumst mjög lítið innbyrðis áður en lagt var upp og við Stefán Viðar hittumst í fyrsta sinn á flugvellinum þegar við lögðum upp. Við vorum hins vegar fljótir að kynnast og nýttum styrkleika hvers fyrir sig og studdum hvern annan þar sem menn voru veikastir fyrir.

Fjölhæfni er vitaskuld nauðsynleg í svona keppni. Við vorum úthaldsgóðir upp brekkur og ágætir göngumenn en annað var lakara. Ég hafði aldrei t.d. hljólað torfærur áður. Því tók ég það á skynseminni og reyndi að forðast að slasa mig. Einungis Trausti hafði áður róið cano af þeirri tegund sem við notuðum. I bandaríska liðinu Explorer var m.a. fyrrverandi bandaríkjameistari í canoróðri!! Dönsku strákarnir sem unnu voru úr dönskum íþróttaháskóla, þrír nemendur og einn kennari. Þessi keppni var verkefni í skólanum sem tekin var ákvörðun um sl. haust og síðan hafði verið unnið markvisst að því sem verkefni í skólanum. Grænlensku liðin voru búin að æfa sig langtímum saman fyrir keppnina sáum við í blöðum sem við flettum. Þannig mætti áfram telja. Við Stefán komum inn í liðið með örstuttum fyrirvara og því sem næst undirbúningslaust. Því þarf helst að að taka ákvörðun á haustdögum um hvernig lið verður mannað í svona keppni til að það sé hægt að nýta veturinn og vorið til undirbúnings, bæði hvað varðar likamlegan styrk, tæknikunnáttu og samhæfingu. Góður undirbúningur gerir sjálfa keppnina skemmtilegri og minnkar líkur á því að óvæntir veikleikar komi upp og mistök gerist.

Stuðningsaðili.

Við kepptum undir nafninu Team Intersport Iceland. Mér fannst aðkoma fyrirtækisins Intersport vera afar áhugalaus og léttvæg. Fyrirtækið hafði greinilega afar lítinn áhuga á að leggja neitt af mörkum í þessu sambandi. Liðið var t.d. ekki í samstæðum blússum eða peysum sem voru merkt nafni liðsins eins og flest önnur lið voru í. Intersport setti það skilyrði að ef liðsmenn fengju merkta blússu þá yrðu þeir að kaupa buxur við blússuna. Ég vissi ekkert af þessum málum fyrr en til Grænlands var komið og efast reyndar um að ég hefði látið þvinga mig til slíkra buxnakaupa. Við fengum afslátt af því sem við keyptum hjá fyrirtækinu sem svaraði álagningunni. Það eina sem ég keypti í Intersport voru broddarnir. Annað var ekki til af því sem ég þurfti á að halda. Starfsmenn Intersport vísuðu manni á önnur fyrirtæki eða Internetið til að kaupa það sem vantaði. Skórnir sem okkur vantaði voru ekki til í þeim númerum sem við þurftum á að halda svo þeir Pétur og Trausti pöntuðu þá sjálfir frá Bandaríkjunum og fengu þá senda með hraðpósti. Áhugi fyrirtækisins til að bjarga málunum var ekki mikill.

Við vorum t.d. að velta fyrir okkur í keppninni hvað Intersport hefði getað gert skemmtilega hluti í kringum þessa keppni ef þeir hefðu haft nokkurn áhuga á þessu verkefni. Fyrirtækið hefði getað lagt í smá formlega kynningu á keppendum og keppninni og lagt áherslu á að vörur frá þeim væru valdar s.s. hlífðarfatnaður og skór vegna gæðanna. Mynd af liðinu hefði getað hangið uppi í búðinni með nafni fyrirtækisins á áberandi stað. Við hefðum getað tekið myndir af liðinu á góðum stað í keppninni þar sem t.d. skórnir hefðu komið fram á áberandi hátt. Síðan hefði eitt par getað verið til sýnis í versluninni þannig að þeir sem eru að velta fyrir sér skókaupum til erfiðra gönguferða, utanvegahlaupa eða annarra álíka hluta hefðu getað séð hvernig þeir hefðu þolað álagið. Keppendur hefðu síðan getað gefið skónum meðmæli í auglýsingu. Ég er hinsvegar ekki markaðsstjóri Intersport svo þetta er vafalaust bara bull. Þó er það eitt sem ég veit að gott umtal er fyrirtækjum betra en lakara umtal.

Á meðan alþjóðlega stórfyrirtækið Intersport fékk nafn sitt fellt inn í nafn liðsins fyrir ekki neitt þá hjálpaði Daníel Smári með sitt litla prívat fyrirtæki Afreksvörur í Ármúlanum okkur eins og hann gat án þess að fá nokkuð í staðinn. Hann gaf okkur húfur, hann lagði til laglega boli sem við fengum merkta með nöfnum og fána landsins og seldi okkur vörur með miklum afslætti. Ég vona að þeir sem lesi þetta láti Daníel Smára njóta þess í viðskiptum hvað hann gerði vel við okkur ef menn meta slíkt hugarfar einhvers.

Umfjöllun í fjölmiðlum.

Það var gaman að sjá hvað fjölmiðlar fjölluðu vel um keppnina og sýndu henni mikinn áhuga. Maður heyrir það að almenningur hafi haft nokkurn áhuga á þessu og fylgst vel með. Í kringum keppnina hafa ætíð verið ráðnir kvikmyndagerðarmenn og ljósmyndari. Þeir fylgdu keppendum gegnum keppnina gangandi, á svifdrekum og í þyrlu. Á lokasamkomunni voru sýndar myndir, bæði kyrrmyndir og stutt kvikmynd eins og tími hafði unnist til að gera klárt á þeim stutta tíma sem liðinn var. Myndefninð þarna er stórkostlegt og fagmenn koma því til skila á mjög skemmtilegan hátt. Það er því aðgengilegt mikið efni um þessa keppni. Strákarnir í Ace and Ace (bræður) sem önnuðust kvikmyndagerðina sögðu okkur að þeir hefðu látið ríkisjónvarpið fá demo af keppninni í fyrra. Þeir fengu engin viðbrögð til baka og voru nokkuð vonsviknir yfir þessu áhugaleysi ríkisfjölmiðilsins. Líklega hafa starfsmenn sjónvarpsins verið uppteknir við að klippa til myndir af strandblaki og ekki komist í að sinna þessu. Svona gengur þetta fyrir sig.

Mér finnst að íslendingum beri skylda (ekki nokkur skylda heldur alvöru skylda) til að horfa til með nágrönnum okkar í vestri og leggja þeim hendi eftir því sem föng eru á. Umfjöllun um svona keppni í ríkisfjölmiðli sem við erum þvinguð til að greiða kostnaðinn við hvort sem viljum það eða ekki á að sjá sóma sinn í að sinna því svolítið sem kemur frá grönnum okkar í vestri, sérstaklega þar sem íslendingar hafa tekið þátt í keppninni oftar en ekki. Í minningargreinum um Einar Odd í Mogganum í morgun er afstaða hans gagnvart grænlendingum eitt af því sem kemur þar fram. "Það eina sem skiptir máli í þessu öllu saman Lilja mín er að við hjálpum vinum okkar Grænlendingum". sagði hann við starfsmann alþjóðanefndar þingsins. Það er þrekvirki hjá forsvarsmönnum keppninnar i Tassilaq að hafa komið þessari keppni á alheimskortið. Framkvæmd hennar er gríðarlega umfangsmikil og í mörg horn að líta því ef eitthvað klikkar þá er hætt við að fjari undan henni. Það er ekki sjálfsagður hlutur að fólk frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Íslandi, Frakklandi, Danmörku, Hollandi, Noregi og Nýja Sjálandi leggi í mikinn kostnað og fyrirhöfn til að fara til þessa litla þorps á Grænlandi og etji þar kappi dögum saman í svona extrem atburði. Þetta minnir mig svolítið á uppbyggingu íshótelsins í Jykkisjervi norður í Lapplandi. Menn hafa vision, trúa á hana og taka réttar ákvarðanir og gefa sig ekki þrátt fyrir margháttaða erfiðleika af ýmsu tagi. Slíkir menn eru á réttri leið.

Ég get ekki sagt annað að lokum að maður er í forréttindahópi að hafa möguleika og getu til að takast á við svona verkefni og klára það, því dagatalið segir manni að maður flokkast víst ekki undir neitt unglamb leengur. Ég huga að meðalaldurinn hjá okkur hafi verið hæstur allra liða. Menn á þessum aldri eiga náttúrulega að vera komnir í golf eða bridge.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær frásögn og megi hún rata sem víðast.