Það var fallegt veður þegar ég fór út í morgun. Sólin að koma upp, snjór yfir öllu og ekki eitt fótspor á gangstéttunum. Það var fínt að vera einn á ferli um stund og njóta góða veðursins. Maður hefði svo sem getað blótað því að það hefði snjóað og nú þyrfti að þrífa snjóinn af bílnum en það var ekki spurning hvað vóg þyngra.
Það var fínt að taka því svolítið rólega yfir páskana. Ég fann að ég þurfti á smá hvíld að halda. Því var ekkert hlaupið á föstudag og annan í páskum þrátt fyrir ágætt veður. Svo byrjaði rútinan aftur með endurnýjuðum krafti.
Ég fór í gær niður í Hafnarfjörð og fékk tvö skópör hjá Asics umboðinu (sem er reyndar Garðabæjarmegin við landamærin). Ég þarf að hafa tvö pör vel hlaupin til eftir tvo mánuði svo það hentar vel. Asics umboðið sýnir okkur mikinn rausnarskap með því að láta hópinn hafa bæði föt og skófatnað. Fötin hafa komið mjög vel út í vetur og nú ferð maður að hlaupa skóna til EAS umboðið lætur okkur síðan hafa orkugel, orkudrykkjarduft og fleira fyrir ákveðna gfjárhæð. Sá stuðningur er einnig mjög vel þeginn og rausnarlegur. Þagar maður fer með skóparið á tveimur mánuðum og notar töluvert af geli og orkudrykkjum þá skiptir svona lagað miklu máli.
Það var skemmtileg umfjöllun hjá Agli helgasyni í Kiljunni áðan um Guðrúnu frá Lundi. Guðrún var mjög sérstök kona. Hún hafði þessa óskaplegu þörf fyrir að koma sögum frá sér og skrifaði margar og þykkar bækur. Dalalíf, Tengdadóttirin og Ölduföll. Þessar sögur svalg maður í sig hér áður fyrr meir. Guðrún byrjaði að skrifa 59 ára gömul, erfiðiskona búsett á Sauðárkróki. Menningarelítan hér syðra leit alltaf niður á hana. Menningarelítan skrifaði móderniskar sögur sem tóku afstöðu á móti hernum svo dæmi sé tekið. Menningarelítan orti módernisk ljóð um hina innri togstreitu sem bjó með skáldinu. Það þótti mjög fínt og nútímalegt. Menningarelítan leit niður á venjulega konu að norðan sem skrifaði margar og þykkar bækur í raunsæisstíl um líf venjulegs fólks. Það pirraði þó menningarelítuna þó svolítið að Guðrún frá Lundi var alltaf útlánahæst í bókasöfnum landsins í áraraðir. Ég man eftir einni mynd frá einhverri bókmenntasamkomu þar sem Guðrún var þó boðið. Á samkomunni var veitt léttvín í þar til gerð glös. Það var haft á orði af þeim sem til þekktu að Guðrún hefði reyndar verið sú eina sem kunni að halda á rauðvínsglasi. Elítan sló krumlunni um belginn á glasinu á meðan Guðrún hélt um legginn tveim fingrum. Ég þarf að fara að endurnýja kynnin af Guðrúnu frá Lundi.
Það var mjög gaman að sjá eina virkilega góða heimildarmynd í sjónvarpinu á páskunum eftir að hafa séð tvær afburða lélegar. Myndin eftir Elínu Hirst um leitina að forfeðrum sínum í Vesturheimi var fín. Vel gerð, góður stígandi í henni og síðan mjög dramatískur og skemmtilegur endir þegar ættarmótið er haldið fyrir vestan. Það var merkilegt að heyra vestur íslendingana tala íslensku reiprennandi þrátt fyrir að hafa aldrei komið hingað til lands. Ég heyrði talað við einhvern sérfræðinginn nýlega um hvort pólverjar hefðu aðlagast samfélaginu hér. Sérfræðingurinn taldi að þeir hefðu aðlagast frekar illa og gott ef hún kenndi landsmönnum að einhverju leyti ekki um það. Það er vitaskuld málið að þjóðir samlagast yfirleitt ekki. Það ættu menn best að vita sem þekkja til íslendinga sem búa erlendis. Þeir rotta sig saman og mynda misstórar kóloníur, læra ekki mál heimamanna ótilneyddir o.s.frv. Kínverjar mydna t.d. China Town víða í borgum þar sem þeir búa utan föðurlandsins. Sumir fæðast í þessum borgarhlutum og koma aldrei í út fyrir hann æfina á enda.
miðvikudagur, apríl 07, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli