laugardagur, apríl 10, 2010

Það var hlýtt í morgun þegar ég fór af stað á sjötta tímanum. 7°C voru á skiltinu við Elliðaárdalinn. Í fyrsta sinn í ár voru vettlingarnir skyldir eftir heima. Það var dálítill vindur og smá rigning öðru hverju en ekkert sem skipti máli. Hitti Stebba við Víkingsvöllinn á seinni hring og við fórum saman tæpa 20 km. Fínn morgun.

Á morgun hlaupa íslendingar maraþon bæði í París og Rotterdam. Þrír Asics meðlimir verða m.a. í Parísarmaraþoninu. Það verður gaman að sjá hvernig gengur og hvort uppskeran verður eins og til hefur verið sáð.

Það er umhugsunarvert ef satt er að frumvarp þess efnis að hægt sé að kyrrsetja eignir þeirra einstaklinga sem verða teknir til skattrannsóknar hafi verið að veltast í þinginu í einhver misseri. Ef satt er þá er það svipað og að segja að brennivínið muni hækka um 100% eftir mánuð. Allir sem málið varðar munu bregðast við eins og þeir hafa möguleika á.

Nýlega var skýrst frá því í fréttum að Kópavogsbær hefði keypt eignir íþróttaakademíunnar svokölluðu. Ég man ekki eftir að hafa heyrt það útlistað fyrr hvaða fyrirætlanir voru á prjónunum með uppbyggingu í Kórnum á vegum akademíunnar þar sem fótboltahúsið og úfullgerð sundlaug er til húsa. Þær voru álíka og upptökusvæðið væri milljón manna borg en ekki eitt eða tvö frekar lítil þorp. Mig undrar ekki að það tapist háar fjárhæðir á svona skýjaborgum. Vitleysunni sem fólki datt í hug virðast hafa verið lítil takmörk sett.

Það getur varla verið tragiskara en að forsetahjónin Pólsku, stjórnmálamenn og fjöldi æðstu embættismanna landsins farist á leið til minningarathafnar um fjöldamorðin í Katyn skóginum. Fjöldamorðin í Katynskóginum er einn af mörgum viðurstyggilegum atburðum sem morðhundurinn Stalín hefur á samviskunni. Í Katyn skðoginum voru drepnar þúsundir pólskra liðsforingja. Sagt er að þeir hafi verið nær 22.000 talsins. Sovésku böðlarnir notuðu þýskar byssur við ódæðisverkin og reyndu síðan að kenna þjóðverjum um morðin. Vegna þessa atburðar hefur ætíð síðan hvílt ákveðinn skuggi yfir samskiptum Pólverja og Rússa.

Ef digrar yfirlýsingar án innistæðu eru sendar út er hætt við að fljótlega verði hætt að taka mark á því sem sagt er. Hvaða merkingu hefur það þegar umhverfisráðherra segir að það verði að koma í veg fyrir að hraunið á Fimmvörðuhálsi verði eyðilagt áður en það kólnar? Eru líkur á að ferðamenn beri burt slík ókjör af volgum hraunmolum að hraunið hverfi? Er líklegt að stórvirkar vinnuvélar og miklir vörubílar hefjist handa við að keyra hrauninu burtu eða ryðja því niður í nærliggjandi gil? Er líklegt að umferð bifreiða verði svo mikil uppi á hrauninu að það verði slétt út? Spyr sá sem ekki veit enda hef ég ekki komið upp á Fimmvörðuháls síðan byrjaði að gjósa.

Nú er fátæktarumræðan byrjuð enn einu sinni. Ekki ætla ég mér þá dul að segja að fátækt sé ekki til staðar hérlendis. Vitaskuld er fátækt til staðar, hefur alltaf verið og mun alltaf finnast. Hún hefur vitaskuld aukist við vaxandi atvinnuleysi, aukna dýrtíð og minnkandi kaupmátt. Félagsfræðingur fullyrðir að fátækt sé meiri hér en á öðrum norðurlandanna. Ég hef engar staðreyndir í höndunum til að afsanna eða staðreyna slíkar fullyrðingar en hitt veit ég að maður hefur aldrei séð álika mikið af heimilisleysingjum á götum úti í Reykjavík eins og er dagleg sjón í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Betlarar eru algeng sjón á götum úti í norrænum stórborgum. Það bárust sögur frá Finnlandi í byrjun tíunda áratugarins um að að fyrrum velmegandi grósserar væru snapandi mat í ruslatunnum á götum úti. Ef þetta er einhver mælikvarði þá er ástandið heldur betra en hjá nágrönnum okkar.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki sammála þér með fátæktina Gunnlaugur. Ég hef sjálf lifað undir fátæktarmörkum og mín upplifun af því er sú að Íslendingar eru bara miklu einbeittari við að loka augunum fyrir fátækt en aðrar þjóðir.
Íslenskir fátæklingar liggja ekki svo úti á götum bæjarins, einfaldlega vegna þess að þar myndu þeir krókna. Við erum að tala um fólk sem vinnur fullan vinnudag, greiðir obbann af laununum sínum fyrir þak yfir höfuðið og sveltur.
Bibba

Börkur sagði...

Takk fyrir að minna á maraþonin, nú verður fylgst með.

Nafnlaus sagði...

Sæl Bibba. Ég ætla mér alls ekki að draga úr því að það sé mjög erfitt hjá mörgu fólki hérlendis í dag. Það liggur í hlutarins eðli. Við erum hins vegar svo vön því að það hefur verið til atvinna fyrir alla sem hafa getað unnið að viðbrigðin eru mikil. Vafalaust á kerfið einnig eftir að aðlaga sig þessu ástandi að hluta til. Það sem fær mig hins vegar til að drepa við fæti og hugsa mig um er þegar verið er að fullyrða að fátæktin sé mest hér af öllum Norðurlandanna. Ég ætla ekki að minnast á lönd sem liggja aðeins lengra í burtu s.s. Eystrasaltslöndin. Ég hef hvergi séð það nema í Finnlandi fyrir tæpum tuttugu árum að símanúmer félagsþjónustunnar var auglýst á ljósaskiltum úti á götum. Þá voru tæp 20% finna atvinnulausir. Í sumum héröðum inn til landsins var um helmingur íbúanna atvinnulaus. Sem betur fer er ástandið í Finnlandi ekki álíka nú og þá en það er verulega erfitt. Sama má segja um Svíþjóð og Danmörku. Þar er atvinnuleysið á svipuðu róli eða heldur meira en hér. Ætli sé ekki nær 14% atvinnuleysi á Írlandi. Íslendingar hafa síðan dálitla sérstöðu vegna þess að afleiðingar verðbólunnar og lífsgæðakapphlaupsins hafa sprungið framan í nokkurn hluta þjóðarinnar.
Kveðjur góðar og nú krossum við fingur fyrir þeim sem eru að hlaupa maraþon. Gunnl.

Nafnlaus sagði...

Ég held ekki að það sé hægt að bera saman Ísland og hin norðurlöndin. Hér loka menn augum fyrir fátækt og þær matargjafir sem eru til fátækra eru settar upp sem ölmusa af einkaframtaki.
Í Finnlandi byrjaði ríkið á að setja upp súpueldhús fyrir atvinnulausa í byrjun kreppunnar þar. Nb. fyrir atvinnulausa en ekki sem ölmusa fyrir fátæklinga. Sósíalinn í Danmörku og Svíþjóð hefur löngum verið þekktutur og notaður af íslenskum fátæklingum.

Nafnlaus sagði...

ohh... gleymdi að setja nafnið mitt undir :)
Bibba

Nafnlaus sagði...

Sæl aftur Bibba. Ég er sammál því að þessi samanburður er mjög erfiður. Það er kannski megininntakið í því sem ég var að hugsa. Við hér á skerinu höfum verið svo plöguð af velmegunarsyndrómum á undanförnum árum að viðrögðin við hinu gagnstæða eru eðlilega nokkuð fálmkennd. Ég ætla svo bara að segja að ég myndi hafa notað annað orð sem hið síðasta í því sem þú segir um sósíalinn i Danmörku og Svíþjóð og af hvaða ástæðum íslendingar hafa notað hann gegnum tíðina en af því ég reyni stundum að vera kurteis þá ætla ég að hafa það fyrir sjálfan mig hvaða orð það er.
Mbk

Gulli