sunnudagur, apríl 11, 2010

Það var flottur árangur hjá maraþonhlaupurum í dag eins og búast mátti við ef ekkert óvænt kæmi upp á. Í París fór Biggi fór á rúmum 2.35, Þorlákur á rúmum 2,45 og þrír aðrir undir 3 klst. Sibba hljóp á 3,07 og Margrét á 3,10. Sibba vann afrek dagsins þar sem hún var í 32 sæti af öllum konum og önnur í sínum aldursflokki. Það er flott gert. Skyldi það hljóta náð fyrir boltamafíunni í fjölmilunum. Gott að sjá að Þorlákur er að ná sínu fyrra rennsli en hann er búinn að vera meiddur um hríð. Í Parísarmaraþoni taka þátt um 40.000 manns en það er eitt af stærstu hlaupum í heiminum. Í Rotterdam náðist fjórði besti árangur frá upphafi (2,04) og Guðmundur Sigurðsson hljóp á 2,42 í sínu öðru maraþoni. Það er gaman að það er að koma upp hópur hörkugóðra hlaupara sem gera ekkert annað en að bæta hvern annan upp og hvetja aðra til dáða. Svo fara þau að hlaupa 100 km. Það kemur ekkert annað til greina.

Í Bergen var haldið 100 km hlaup á helginni. Helgi Hafsås vann það á 7,17 og var hann um 30 mínútum á undan næsta manni.

Sextugur svíi, Björn Suneson, er lagður af stað hlaupandi þvert yfir Bandaríkin. Hann ýtir farangrinum á undan sér í kerru og gistir á leiðinni á mótelum. Hann leggur af stað frá Wasington state og ætlar að enda í Savannah í Georgíu, dálítið fyrir norðan Florida. Alls eru þetta um 5200 km. Þetta er í annað sinn sem hann leggur í svona túr en árið 2007 hljóp hann frá Oregon sem leið lá austur af til Virginíu. Slóðin á síðuna hans er www.suneson.se. Það verður spennandi að fylgjast með svona ævintýri.

Björgunarsveitir eru að sækja nokkra ferðamenn upp á Fimmvörðuháls í vitlausu veðri. Þeir eru í skála og hafa nógan mat um hríð. Af hverju er verið að steðja uppeftir og sækja þá áður en nokkuð er að? Myndi maður sjálfur æða upp á reginfjöll um hávetur í Noregi, Svíþjóð eða annarstaðar þar sem maður er ókunnugur án þess að spyrja lögregluna eða einhverja kunnuga um veðurútlit áður en lagt væri af stað? Myndi maður æða upp á reginfjöll að vetrarlagi erlendis ef maður ætti von á því að fá feitan reikning ef að maður þurfti aðstoð við að komast til byggða? Ég held ekki. Björgunarsveitirnar hérlendis eru að skapa sér sjálfar mikið óþarfa erfiði, fyrirhöfn og kostnað með því verklagi sem þær hafa komið á. Grænlendingar eru fyrir löngu búnir að læra það að skylda alla sem fara á jökulinn til að kaupa sér tryggingar ef skyldi þurfa að bjarga þeim til byggða.

Íþróttafréttir á Stöð 2 í kvöld hófust á því að fréttamaðurinn sagði hálfmóður af spenningi að það hefði verið svo mikið um að vera að á helginni að fjórar, fimm fréttir gætu allar verið fyrsta frétt. Svo hóft lesturinn á stærstu íþróttafrétt helgarinnar skyldi maður halda: "Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á í seinni hluta framlengingar þegar Tottenham tapaði fyrir Portsmouth..........." Það var sem sagt stærsta fréttin að óskabarn íþróttafréttamanna hefði fengið að koma inn á í síðari hluta framlengingar. Að íslenskur keppandi í fimleikum hefði orðið norðurlandameistari á helginni var svo ómerkilegt að það var ekki einu sinni minnst á það á Stöð 2.

Nú er búuið að leggja línuna. Það á að terrorisera fréttamenn með lögsóknum og lagatæknum fyrir að segja fréttir af vinnubrögðum snillinganna í aðdraganda hrunsins og misserin eftir það. Það á að láta fréttamenn leggja afkomu fjölskyldunnar og heimili sitt undir ef þeir birta lýsingar á þeim fjármálalegu hryðjuverkum sem viðgengust hérlendis í aðdraganda hrunsins. Svo er verið að tala um frjálsa fjölmiðlun. Hvað skyldi formaður blaðamannafélagsins segja við þessu?

3 ummæli:

Kransi sagði...

Manni kemur nú helst til hugar Forrest Gump þegar þú minnist á þennan Svía í Bandaríkjunum;)

Kv.
Davíð Rósenkrans

Hákon Hrafn sagði...

Svar við spurningu þinni: NEI

Máni Atlason sagði...

Það er alltaf gaman að lesa fréttir af hlaupurum hér hjá þér.