Við Jói renndum hringinn vestur á Snæfellsnes á laugardaginn í fínu en nokkuð köldu veðri. Við lögðum snemma upp og vorum komnir af stað um korter fyrir 6:00. Þegar við vorum á leið út úr bænum þá sáum við gosmökkinn úr Eyjafjallajökli stíga himinhátt upp fyrir Hellisheiðina. Við vorum fyrst og fremst að snudda í fuglum fyrir vestan. Við vorum greinilega helst til snemma því það var vetrarlegt á nesinu, frost en sólríkt. Grundarfjörður skar sig dálítið úr því það var gríðarlegt líf í sjónum. Fuglaflekkir út um allt og tvær hnísur að svamla rétt fyrir utan bryggjuna. Við fórum svo yfir Fróðárheiðina og róluðum til baka í góðu veðri og fínu útsýni. Á leiðinni suður skruppum við upp að Gerðhömrum. Þangað hafði ég aldrei komið áður og í raun ekki tekið eftir klettunum fyrr.
Hamfararnir fyrir austan eru miklar en þó má segja að í raun hefur landið sloppið eins vel og hægt er að hugsa sér fyrst fór að gjósa í jöklinum á annað borð. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir stöðu fólksins sem hefur mátt þola gosmökkinn yfir sér undanfarna daga. Maður getur hins vegar ímyndað sér hvernig ástandið hefði verið ef mökkinn hefði lagt langs eftir Suðurlandsundirlendi ef vindáttin hefði legið þannig. Það hefði verið ægilegt og skaðinn miklu meiri. Nú er sagt frá því í fréttum að einn bóndi undir Eyjafjöllunum ætli að bregða búi og þykir fjölmiðlafólki það mikil tíðindi. Það er ekki nýtt að gos hafa valdið miklum búsifjum í landbúnaði hérlendis. Búseta á stórum svæðum hefur lagt algerlega af vegna afleiðnga gosa. Má nefna Þjórsárdalinn og ýmsar sveitir í Skaftafellssýslu sem ég kann ekki að telja upp. Þorvaldur jarðfræðingur minnti á það í Kastljósinu í kvöld að gömul öskulög væru sumsstaðar á annan metra að þykkt. Þá hefur sitthvað gengið á.
Það er eins og forsetinn missi stundum fattninguna þegar hann kemst í tæri við hljóðnema. Ummæli hans um yfirvofandi Kötlugos eru óskiljanleg í ljósi aðstæðna. Við megum síst við þvi að forsvarsmenn landsins fari að reka einhvern hræðsluáróður um yfirvofandi goshættu sem mögulega kannski einhverntíma kann hugsanlega að eiga sér stað. Viðtalið við hann í síðdegisútvarpinu var ekki síður undarlegt þegar hann taldi það skyldu íslendigna að vara aðra við því sem hugsanlega mögulega gæti gerst. Er ekki rétt að vinda sér strax í Skaftárelda, frostaveturinn mikla 1918 og Tyrkjaránið? Ástæðulaus hræðsluáróður er eitthvað sem menn þurfa ekki á að halda sem stendur.
Ég hvíldi mig alveg á hlaupum á helginni. Það er nauðsynlegt að taka smáhvíld einstaka sinnum til að halda hungrinu. Þetta er fyrsta fríhelgin frá áramótum.
þriðjudagur, apríl 20, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll frændi og gleðilegt sumar.
Sammála þér það á ekki að leyfa Bessastaða karlinin að tjá sig við sona tækifæri,hann er ekki í lagi
Skrifa ummæli