mánudagur, apríl 26, 2010

Það var haldið 100 km hlaup í Kaupmannahöfn á helginni. Þar er hlaupið á 10 km hring sem er sléttur og býður upp á góða tíma. Það stóð líka ekki á dönum að spretta úr spori. Sigurvegarinn í karlaflokki setti danskt met í 100 km hlaupi en hann hljóp á 6.57. Hann lauk um 85 km á sex klst. Það gerir maraþontempó á um 3 klst. Alls hlupu fimm danir á undir 8 klst. Þetta er frábær árangur sem sýnir val hvað er að gerast í þessum málum hjá frændum okkar. Eftir mikla fjölgun góðra maraþonhlaupara hérlendis þá bíður maður bara eftir að þeir fari að reyna sig við 100 km. Það er um allmarka að ræða á þessum vettvangi en þetta er bara að taka skrefið.

Það er ekki hægt að segja annað en að hin pólitíska umræða hérlendis er á köflum ekkert annað en átakanleg. Útnesjamennskan er svo himinhrópandi að maður á varla orð yfir það. Þingmenn sem hafa þegið milljónir á milljónir ofan í styrki frá stórfyrirtækjum fyrir prófkjör sjá ekkert athugavert við það. Af hverju ætli fyrirtæki hafi verið að styrkja suma meir en aðra. Svarið er mjög einfalt. Vegna þess að þeir voru góð fjárfesting. Hafa menn aldrei heyrt máltækið: "Æ sér gjöf til gjalda."

Svo kunna menn ekki einu sinni að segja af sér. Það er búið að þróa nýja aðferð hérlendis þegar þingmenn lenda í klípu. Þeir stíga til hliðar um stundarsakir í þeirri von að einhver nefnd komist að því að þeir hafi ekki brotið neitt af sér. Það væri gaman að sjá hvaðan fyrirmyndin að þessari aðferðafræði er fengin. Bjarni Harðarson Selfyssingur er einn fárra maðurinn sem hefur sagt heiðarlega af sér þegar honum varð á glappaskot. Að hans sögn vantaði ekki ráðleggingar reyndra manna um hvernig hann gæti staðið storminn af sér. Menn kunna þetta svo sem. Hann hefði t.d. getað stofnað eigin þingflokk og hangið á þinginu einn og áhrifalaus út kjörtímabilið í þeirri von að málið myndi gleymast. Bjarni sagði hins vegar hreinlega af sér, axlaði ábyrgð og er því nú allir vegir færir á hinu pólitíska sviði á meðan hinir sem þumbast við og þrjóskast fram í rauðan dauðann daga uppi sem nátttröll.

Síðan er mjög athyglisvert að fylgjast með umræðunni þegar verið er að fjalla um ábyrgð. Fyrst kemur einstaklingurinn, svo kemur flokkurinn og í þriðja sæti eru kjósendur flokksins. Hinir ræflarnir sem eru allir aðrir eru ekki nefndir.

Ég fæ ekki alveg séð að stofnfjáreigendur sparisjóðanna séu þeir sem mest þörf er á að hjálpa hér í þjóðfélaginu eins og maður heyrir sagt á Alþingi í dag. Þeir sem keyptu stofnfé í sparisjóðunum voru ósköp einfaldlega að fjárfesta í hlutabréfum sem er og verður alltaf áhættufjárfesting. Það skiptir engu máli þótt menn segi nú að þeir hafi verið að treysta fjárhagslega framtíð barnanna sinna. Það er bara fyrirsláttur eftirá. Að taka lán til að kaupa hlutabréf fyrir er síðan alveg sérstök glæframennska. Þumalfingurreglan er að maður á ekki að kaupa hlutabréf fyrir meira fé en maður er reiðubúinn að tapa. Þetta er bara lotterí. Sumir græða en aðrir og yfirleitt fleiri tapa.

Engin ummæli: