laugardagur, ágúst 28, 2010

Björn Afzelius - Till min kära Live Hovdala Slott

Horft heim innan af Holtum

Ég var að koma heim frá Svíþjóð en þar er ég búinn að vera á árlegum fundi hagdeilda norrænu sveitarfélagasambandanna. Fundurinn var haldinn´rétt fyrir utan Stokkhólm eða nánar tiltekið út í Lidingö. Á þessaru eyju er Lidingöloppet haldið en það er víðavangshlaup sem í taka þátt yfir 30.000 manns. Umhverfið á Lidingö er mjög fallegt á daginn en ekki er það síðra þegar fer að kvölda. Við sigldum í gær eftirmiddag yfir til Nacka sem er nágrannasveitarfélag Lidingö og borðuðum þar kvöldmat. Siglingin heim í sólssetrinu var afar falleg þegar bæði sólsetrið skartaði sínu fegursta og tunglið skein allt hvað af tók. Því miður var myndavélin ekki með. Það var sérstaklega gaman að vera í Svíþjóð þessa daga því það eru nú akkúrat 30 ár síðan ég flutti til Svíþjóðar seint í ágúst 1980 og settist á skólabekk í Ultuna sem er rétt fyrir utan Uppsali. Það var tilviljun ein sem réði því að það gerðist eins og svo margt annað. Árið áður hafi ég verið suður á Hvanneyri á aldarafmæli skólans þegar ég rak augun í auglýsingu í Þjóðviljanum um ferð til Kúbu á vegum Brigada Nordica sem var samstarf vináttufélaga Kúbu við norðurlöndin. Mig var farið að langa til að gera eitthvað annað svo ég sótti um að fara í þessa ferð svona til að gera eitthvað. Fleiri sóttu um en gátu komist með og ég var einn af þeim heppnu. Mánuðurinn sem við vorum á Kúbu um áramótin 1979/1980 með nær 200 öðrum norðurlandabúum gleymist ekki. Þarna kynntist maður mörgum nýjum andlitum. Fyrst og fremst héldum við íslendingarnir sjó með Finnunum eins og oftar enda þótt maður eignaðist góða félaga bæði meðal Norðmanna og Svía. Það var erfiðara að umgangast Danina vegna þess að maður skildi þá ekki!! Það hefur sem betur fer breyst. Upp úr þessu ævintýri fór að gerjast hugmyndin að rífa sig upp og fara í frekara nám og Svíþjóð varð að endingu ofan á. Þar var ég síðan í þrjá fína vetur. Þótt ég hafi síðan dvalið öllu lengur í Danmörku og Danmörk sé fínt land þá liggur Svíþjóð mér alltaf nær. Líklega vegna þess að þar náði ég fótfestu á erlendri grund og sænskan er fyrsta erlenda málið sem ég náði almennilegum tökum á. Það að hafa dvalist erlendis um nokkurra ára skeið, kynnst öðrum þjóðum, öðrum hugsanahætti og lært önnur tungumál er líklega sú eftirtekja sem endist best eftir þessi ár.

Samkvæmt því sem komið hefur fram í fréttum þá held ég að staðan í máli Ólafs Skúlasonar sé kristaltær. Kirkjan verður að afhelga kallinn. Hvernig sem það er gert veit ég ekki. Hún hlýtur allavega að geta gefið það formlega út að hann hafi verið þess óverðugur að hafa verið kosinn biskup eins og hún taldi hann verðugan til þess hér í denn tíð. Kaþólska kirkjan gefur út fordæmingar. Ekki veit ég hvort sú lútherska hafi slík tæki handbær en það mætti athuga það. Forsetaembættið verður að skrá formlega í sína prótókolla að kallinn hafi verið þess óverðugur að fá alla þá krossa sem hengdir voru á hann og afturkalla þannig formlega þann heiður sem honum var sýndur. Síðan verður að halda mjög vel upp á málverkið af kallinum og hafa það í forsæti á fundum kirkjuþings, á fundum kirkjuráðs og síðan í húsi kirkjunnar milli funda. Þess skal þó gætt að það sé ætíð hengt upp á hvolfi til að minna nærstadda á hvar þeir enda sem haga sér eins og kallinn.

Það gengur á ýmsu hjá hlaupurunum sem ætluðu að hlaupa lengri og skemmri leiðir umhverfis Mont Blanc um helgina. Beljandi ofankoma hefur sett allt úr skorðum. lengsta og næstlegsta hlaupinu hefur verið aflýst. Stysta hlaupið var blásið af á km 81. Þó hefur það verið sett á aftur. Þrír íslendingar héldu af stað því betri er hálfur skaði en allur. Daníel Smári er á rjúkandi siglingu síðast þegar sást til hans. Það er svakalegt þegar svsona gerist, allur undirbúningur fer út um gluggann og neyðarplan A, B og C er sett í gang.

Ísland eignaðist þrjá norðurlandameistara á NM 19 ára og yngri á Akureyri í dag. Hulda (stangarstökk), Stefanía (400 m grind) og Arna Stefanía (400 m) stóðu efstar á palli. Hulda er í elsta árgangnum, Stefanía er 17 ára en Arna Stefanía er ekki nema sextán. Flott hjá þeim.

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Það er komminn tími til að biskupsmálin verði könnuð niður í kjölinn og afgreidd eins og hægt er að afgreiða þau héðan af. Kirkjan má ekki vera með neina hálfvelgju í viðbrögðum sínum ef hún vill halda haus. Það dugar ekki minna en formleg opinber afsökunarbeiðni án fyrirvara til kvennanna sem Ólafur Skúlason áreitti. Afsökunarbeiðni vegna ráðleysis og dugleysis kirkjunnar við að taka á svona málum. Frásögn prestsins sem setti bréf konunnar inn í dimmasta hornið á skápnum er dálítið ógnvekjandi. Hún virtist halda að málið hyrfi ef hún tæki fyrir augu og eyru. Þrátt fyrir það segist hún hafa heyrt högg úr skápnum. Vitaskuld hefur það verið dálítið mál vaða í biskupinn en það virðist þó formaður Prestafélagsins hafa gert á sínum tíma. Það er akkúrat maðurinn sem lýðurinn heimtar nú að verði hrakinn úr starfi. Svona er heimurinn skrítinn. Engu að síður verða prestar ekkert síður en aðrir að átta sig á því að ef svona eða álíka málum er sópað undir teppið þá hverfa þau ekki heldur koma yfirleitt fram öllu illvígari og erfiðari en fyrr. Íslensk mátæki segja dálítið mikið um þjóðarsálina fyrr og síðar. "Oft má satt kyrrt liggja" og "Frestur er á illu bestur" segja það sem segja þarf.

Ég minnist þess að þegar ég flutti til Svíþjóðar á sínum tíma fyrir um 30 árum síðan að þá var umræðan í fjölmiðlum um þessi kynferðisafbrotamál á allt öðrum nótum en maður þekkti hér að heiman. Hún var faktiskt ekki til. Maður spurði sig fyrst hvort að á Íslandi væri svona lítið og sætt samfélag en svona hlutir gerðust einungis úti í hinum stóra og ljóta heimi. Það var síðan eitthvað annað. Auðvitað er sami sori hér eins og allstaðar annarsstaðar.

Hin svokölluðu "Hagsmunasamtök heimilanna" hafa nú sett sér það markmið að hrekja efnahags- og viðskiptaráðherra úr embætti samkvæmt fréttum í kvöld. Allt er lapið upp ótuggið sem frá þessum samtökum kemur. Mér finnst vera kominn tími til að fréttamenn spyrji fyrir hvað þessi samtök standa frekar en að umgangast þau eins og heilaga kú. Hverjir mynda þau? Hverjir sitja í stjórn? Hverjir fjármagna starfsemi þeirra? Hvaðan kemur umboð þeirra? Þessi samtök eru ekki að berjast fyrir hagsmunum míns heimilis.

Það var fín umfjöllunin í Fréttablaðinu í morgun um járnhjónin í Kelduhverfinu og sigurvegarann í Reykjavíkurmaraþoninu. Megi gott á vita.

mánudagur, ágúst 23, 2010

The Rolling Stones - "Under My Thumb"

Rauðisandurinn á góðum degi

Einhvern tíma á áttunda áratugnum var auglýst menningaratriði á Listahátíð sem vakti mikla athygli og tilhlökkun hjá listunnendum hérlendis. Allsber japani átti að sýna listrænan dans í Lækjargötunni um hábjartan daginn. Það dreif að múg og margmenni þegar dagurinn rann upp til að sjá tilstandið. Það urðu síðan ekkert nema vonbrigði út úr öllu saman því japaninn mætti með grisju um tippið en var ber að öðru leyti. Þetta þóttu hálfgerð vörusvik það ég man best. Nú á laugardagsnóttina var lögreglunni tilkynnt um ósiðlegan dans einhverrar konu úti á götu í miðbænum. Þegar lögreglan mætti á staðinn þá mat hún stöðuna í skyndi þannig að ekki væri um að ræða atriði tengt menningarnótt. Því handtók hún konukindina í snatri og stakk henni í steininn. Það er spurning hvort japaninn hefði verið settur í steininn hér forðum daga ef hann hefði ekki mætt með grisju.

Nú stendur mikið til. Það á að kalla saman þjóðfund til að undirbúa stjórnlagaþing. Síðan á að kjósa til stjórnlagaþings sem á að sitja í tvo mánuði. Síðan á Alþingi að vega og meta útkomuna og láta reyna á hvort eitthvað vit sé í henni. Ég verð að segja að mér finnst þetta allt vera hinn undarlegasti prócess. Í háreystinni í byrjun árs 2009 fór einhver að gala um stjórnlagaþing eins og það væri lausn á öllum vandamálum íslendinga. Þetta át síðan hver eftir öðrum um hríð. Svo var haldinn svokallaður þjóðfundur í Laugardalshöll í fyrrahaust. Síðan hafa verið haldnir margir þjóðfundir um allt land, misfjölmennir að sögn. Það er eitt orð sem ég man eftir að hafi komið fyrir á þjóðfundinum hinum stóra. Það er orðið heiðarleiki. Að mínu mati þurfti ekki að kalla saman 1000 manns til að rifja upp að það orð fyndist í orðabókinni og hvað það þýddi. Svo geta menn velt fyrir sér hvort notkun þess eða skilningur á tilgangi þessa ágæta orðs hafi eitthvað vaxið á því ári sem liðið er. Mér finnast svona fundir bera dálítinn keim af vasagaldrinum sem maður lærði í æsku. Galdramaðurinn stakk spilastokk í vasann. Hann spurði síðan hvaða spil maður vildi fá eftir ákveðnu kerfi. Að lokum dró hann rétta spilið upp úr vasanum og maður stóð gapandi. Síðar lærðist að galdramaðurinn kíkti á neðsta spilið í stokknum áður en þau fóru í vasann og leiddi hinn síðan áfram með leiðandi spurningum þar til maður sputði um hið rétta spil.

Menn mega síðan t.d. eyða allt að tveimur milljónum í kosningabaráttu fyrir stjórnlagaþingið sem á síðan aðeins að sitja í tvo mánuði. Mér er sem ég sæi upplitið á fólki hér innan dyra ef ég tæki tvær milljónir af matarpeningunum til að heyja kosningabaráttu til setu á stjórnlagaþingi. Í fyrsta lagi á ég engar tvær milljónir handbærar. Í öðru lagi væri ég allsendis óviss um að ná tilætluðum árangri og í þriðja lagi er spurningin hvers vegna ég ætti ég að ætlast til að vera kosinn frekar en aðrir?

Ég sé ekki fram á annað en að flokksvélarnar setji mikinn kraft í að tryggja stöðu sína á þessu ágæta þingi. Hvað gerist ef ekki næst samkomulag um eitt eða neitt. Verða menn lokaðir inni með kabyssu og eldspýtur?

Formaður undirbúningsnefndar um stjórnlagaþings sagði aðspurð í fjölmiðlum að þessi aðferð hefði hvergi verið notuð í heiminum áður og það gerði þetta mun merkilegra en ella. Það setur að manni svolítinn hroll þegar þessi rök eru notuð. Stjórnarskráin er ekki til að leika sér með.

Fréttablaðið skilgreinir maraþonhlaup á Íslandi sem ekkiíþrótt en Mogginn gerði úrslitum Reykjavíkurmaraþons góð skil í íþróttakálfinum í morgun. Gott hjá þeim.

sunnudagur, ágúst 22, 2010

ACDC & The Rolling Stones - Rock Me Baby

Gjáin í Þjórsárdal

Nýlega fóru 17 íslendingar út til Kaupmannahafnar og tóku þátt í Ironman keppni. Árangurinn var mjög fínn og nokkrir meðal þeirra fremstu í sínum aldursflokkum. Á svipuðum tíma keppri Karen Axelsdóttir í ólympískri þríþraut á Breska meistaramótinu og varð þriðja. Reynt hefur verið að koma fréttum af þessu í íslenska fjölmiðla með litlum árangri. Þó hef ég heyrt að Stöð 2 hafi birt frétt af Ironmanmótinu nú í kvöld. Þakka það sem þakka ber. RUV birti eina örlitla frétt um keppnina þar sem mestu máli var eytt í að koma því að að sjórinn sem synt var í hefði verið mengaður vegna gríðarlegrar rigningar daginn áður.

Fyrir hálfum mánuði var leikinn úrslitaleikur í bikarkeppni í fótbolta. Blindfullt strákfífl var manað upp í að hlaupa strípaður inn á völlinn með logandi blys hvað hann og gerði. Nú vantaði ekki að fréttamenn tóku við sér. Sýnd var mynd af vitleysisgangnum í íþróttafréttatíma RUV. Birtar voru myndir og viðtöl við strákinn á veffjölmiðlum og í fylgikálfi Moggans var birt langt viðtal við hann þar sem fram kom að hann hafði gert þetta áður. Ef það er eitthvað sem svona athyglissjúklingar þrífast á þá er það athygli fjölmiðla. Með þessum viðbrögðum eru RUV og Mogginn að hvetja þá sem eru innréttaðir á svipaðan hátt til að fara að hlaupa inn á Laugardalsvöll eða aðra velli allsbera með logandi blys. Ofan á allt saman er talað um að sekta hann um 10-50 þúsund kall. Hann nær að safna þessum peningum með flöskusöfnun á einum degi. Í Danmörku hljóp svona rugludallur inn á Fælledparken á fótbobltaleik í fyrra. Danir tala ekki neinum silkihönskum á svona málum. Þar var ekki verið að tala um neina tíuþúsundkalla (íslenskar) í sekt. Sektin kom að öllum líkindum til að hlaupa á milljónum. Hér hvetja stærstu fjölmiðlarnir (sem vilja líka kalla sig þá virtustu) rugludallana til að hlaupa strípaða inn á knattspyrnuvelli með mikilli og jákvæðri umfjöllun um svona lagað. Það er eftir öðru.

Það má lesa í fréttum eftir nóttina að lögreglan hafi átt fullt í fangi með að halda aftur af bílstjórum sem gáfu skít í að götum hafði verið lokað fyrir bílaumferð í miðbænum heldur ruddust í gegn hvar sem möguleiki var á. Þeir nærstaddir sem voru með þokkalegri rænu dáðust oft að því hvað lögreglan hélt stillingu sinni í glímunni við örvitana. Þetta kemur mér ekki á óvart. Í fyrra þegar við vorum að loka götum um stuttan tíma vegna Ármannshlaupsins þá ruddist kerling á Range Rover í gegnum lokun á Sundlaugaveginum því hún gat troðið bílnum á milli keilanna. Annað hvort var hún blind og blint fólk á helst ekki að keyra bíla á götum úti. Hinn möguleikinn er líklegri að hún hafi verið að drepast svo úr frekju að henni hafi ekki dottið í hug að láta einhverja dela með plastkeilur koma í veg fyrir að hún færi þá leið sem hún ætlaði. Ég skal þó segja konunni það til hróss að hún sneri við eftir að ég var búinn að lesa henni pistilinn.

laugardagur, ágúst 21, 2010

The Rolling Stones, Happy

Þrír skólapiltar á Hvanneyri fyrir 35 árum. Ég, Siggi Steinþórs og Þórólfur Sveinsson

Það var fínn dagur á skráningarhátiðinni í gær. Ég kom með bækur í kassa og seldi þær í Asics básnum. Það gekk bara fínt og margar bækur skiptu um eiganda. Það sem var ekki síður gaman var að margir komu á tal við mig og þökkuðu fyrir bókarkornið. Hún hafði orðið þeim hvatning til að takast á við sjálfan sig þegar þeir lásu um hvernig hlutir gengu fyrir sig hjá mér í gegnum árin. Það er sko alveg á hreinu að að detta fáir alskapaðir ofurmaraþonhlauparar niður af himninum og fara að hlaupa. Þetta er puð og streð, sérstaklega framan af. Það sem mestu máli skiptir er hvað fólk vill sjálft.
Síðar um daginn var ég með fyrirlestur um ofurhlaup á þriðjuhæðinni. Salurinn var pakkfullur af áhugasömu fólki. Hvað vill maður hafa það betra?
Ég vaknaði svo kl. 3:00 í morgun og fór að gera klárt. Planið var að taka tvöfaldan hring eins og ég hef gert síðustu tvö árin. Þetta er fín áskorun því það er mikill munur að vera í fjöldanum á seinni hring. Ég lagði planið út með að vera svona 4:00 klst með hvorn hring. Sá fyrri gekk vel. Ég lagði af stað úr Lækjargötunnum kl. 4:30 og hélt sem leið á eftir maraþonbrautinni. Það var reyndar töluverður blástur úti á nesi og á Sæbrautinni en fínt veður þegar maður kominn inn fyrir Íslandsbanka og síðan allar götur út fyrir Suðurgötu. Ég skipti um bol og blússu við bílinn, birgði mig upp með orku og drykki og lagði svo í seinni hringinn. Reyndar gleymdi ég smá hlut í bílnum sem gerði það að verkum að það voru allir farnir af stað þegar ég fór gegnum markið. Það gekk allt vel þangað til komið var inn á Kringlumýrarbraut. Þá fóru að gera um sig krampar í kálfunum sem endurðu í þvílíkri hörku að ég þurfti að ganga alla leið inn að OLÍS sjoppunni. Þá gat ég farið að rúlla aftur. Því voru öll plön fokin út í veður og vind svo ég einbeitti mér að því að halda þeim dampi sem hægt var og njóta dagsins. Líklega hafði ég ekki drukkið nóg á fyrri hringnum og síðan getur verið að ég þurfi að borða steinefni nokkra daga fyrir svona hlaup. Ég hafði kókflösku í runna rétt fyrir neðan Rauðagerðið og það var mjög kærkomið að svolgra úr henni. Poweratið er ekki minn drykkur á seinni hring í svona hlaupi.
Ég skaust svo inn í sjoppuna úti á Nesi þegar þangað var komið og keypti mér aðra kók. Það hittist svo skemmtilega á að ég hitti gamla manninn í sjoppunni sem lánaði mér kókflöskuna í fyrra þegar ég var orðinn alveg orkulaus. Hann mundi vel eftir mér og það var gaman að geta þakkað honum fyrir greiðann. Hann var nefnilega farinn þegar ég kom og borgaði í fyrra. Nú var ég með pening svo það þurfti engin lánsviðskipti þetta árið.

Þótt svo að plan dagsins hefði runnið út í sandinn þá var ég bara nokkuð ánægður með margt. Fyrir utan krampana var allt í lagi. Lærin voru fín og enginn stirðleiki í þeim. Engir aðrir erfiðleikar birtust hvorki skafsár, blöðrur, fótaeymsli né annað. Það er fín tilfinnig að geta rúllað í gegnum svona hlaup án þess að það taki neitt sérstaklega í, jafnvel þótt æfingar hefi verið af skornum skammti í tvo mánuði.
Þegar ég kom í mark hitti ég tvo kunningja mína sem voru að ljúka sínu fyrsta þoni. Ég talaði svolítið um það í fyrirlestrinum í gær að hlauparar skyldu gæta þess að njóta upplifunarinnar að ljúka sínu fyrsta maraþoni. Það gerist nefnilega bara einu sinni á æfinni að fyrsta maraþonið er í höfn. Þeir höfðu farið inn eftir Lækjargötunni í morgun fyrir ræsingu, horft á markið og hugsað: "Ég SKAL hlaupa þarna í gegn eftir einhverja klukkutíma" Það var svo allur pakkinn þegar þeir komu á beinu brautina í hlaupalok og sáu markið. Fiðrildi í maganum og gæsahúð á bakinu. Betra getur það ekki verið. Um að gera að njóta svona stundar því hún verður ekki endurtekin. Tímarnir hjá mörgum voru mjög fínir. Björn Margeirsson vann góðan sigur og bætti sig, þrátt fyrir strekkinginn. Sama má segja um árangur Rannveigar Oddsdóttur sem hljóp undir þremur tímum. Þetta er frábært. Ég ætla ekki að tuða neitt á svona góðum degi en það bíður betri tíma en þó má benda á eitt. Íslandsmeistaramót í maraþoni var haldið í dag. Ég hef ekki heyrt minnst á úrslit þess í þessu samhengi. Á Ólympíuleikum er sigurvegari í maraþoni maður mótsins. Af hverju ekki að reyna að hefja íslandsmeistaramót í maraþoni á svolítið hærri stall en það er í dag? Bara smá ábending.

þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Mér finnst ekkert skrítið að það skuli hafa verið kölluð til lögregla við Héraðsdóm í dag. Þegar fólk af götunni er ítrekað búið að gera tilraun til að hleypa upp réttarhaldinu yfir skrílnum sem ruddist inn í Alþingishúsið í fyrra og slasaði þar fólk meðal annars þá er brugðist við því á viðeigandi hátt. Það er æpt í fjölmiðlum að einhver hafi séð lögregluna berja í bakið á einhverjum. Það átti að vera dæmi um ruddaskap löggunnar. Sér er nú hvað. Í öllum nálægum löndum væri svona mannsöfnuður hreinsaður burt með alvöru valdi og vatnsbyssum ef öðru væri ekki til að dreifa. Að reyna að hleypa upp réttarhaldi er tilraun til að vega að réttarríkinu. Fréttamenn voru samir við sig. Í hádegisfréttunum á RUV var skrílslátunum og öskrunum útvarpað eins og það ætti eitthvað erindi til okkar hinna. Nei, ég held ekki.

Dagskrá RUV er stundum kapituli út af fyrir sig. Ég hef gaman að fara á fótboltaleiki. Engu að síður er ég orðinn svo leiður á þessu endalausa blaðri um fótbolta í sjónvarpinu að ég er hættur að hlutsta á þessa svoköluðu spekinga. Það má of mikið af öllu gera. Í íþróttafréttum ríkisútvarpsins í kvöld voru þrjár íþróttafréttir. Þær voru allar um erlenda fótboltamenn. Það var ekki minnst orði á að í kvöld fór fram heil umferð í fyrstu deildinni í fótbolta. Það er grjóthörð barátta um hvaða lið munu ganga upp um deild í haust. Mér stendur slíkt fréttaefni nær en að einhver leikmaður Man. City hafi verið leigður til Cardiff. Það væri gaman að vita hvað þessi gríðarlega umgjörð um fótboltann í sumar hefur kostað RUV. Bæði umgjörðin um HM og endalaus umfjöllun um íslandsmótið í fótbolta (efstu deild). Á sama tíma þurfa aðrar íþróttir að kaupa sig inn í dagskrá RUV s.s. eins og eina alþjóðlega frjálsíþróttamótið innanhúss sem haldið er hérlendis. Menntamálaráðherra tók þau ósköp upp á ríkisstjórnarfundi að það þyrfti að hafa útsendingar frá HM í handbolta í ólæstri dagskrá. Það dugði ekki minna. Það verður sýnt frá bikarkeppni FRÍ, sem haldin var á síðustu helgi, kl. 13:00 á laugardaginn kemur í ríkissjónvarpinu. Bikarkeppni FRÍ er önnur stærsta frjálsíþróttakeppni ársins hérlendis. Hver horfir á sjónvarp kl. 13:00 á laugardögum á sumrin á vikugamlan viðburð?

Það var athyglisverður pistill sem Gísli Kristjánsson, fréttaritari RUV í Noregi, flutti í morgunútvarpinu í morgun. Hann sagði að áhugi norðmanna fyrir fótbolta og frjálsum færi stórlega minnkandi en áhugi fyrir hinu svokallaða jaðarsporti eða ofurþrautum af ýmsu tagi færi stórlega vaxandi. Þar væru hetjurnar. Hér er slóðin: http://dagskra.ruv.is/ras2/4520934/2010/08/17/
Pistillinn byrjar þegar bendillinn er fyrir neðan "R" í Rás 2. Ég á disk með þessum Månsen sem Gísli minnist á. Þar er sýnt frá því þegar hann fer út í óbyggðir í norður Skandinavíu seint í september og heldur þar úti í eitt ár. Diskurinn er mjög skemmtilegur, merkilegt nokk.

Nú á að leggja niður þáttinn "Orð skulu standa" á Rás 1. Ég hlusta stundum á hann en veit að það er hlustað mjög mikið á hann. Það er hættulegt ef framkvæmd niðurskurðar er handahófskennd. Niðurskurður hjá stofnun eins og RUV þarf að fara eftir ákveðinni strategíu. Fyrir hverju á RUV að standa og hverju ekki. Það þarf að forgangsraða og ákveða RUV ákveðinn sess í fjölmiðlaflórunni þegar ekki er til nóg af peningum. Er ekki nóg að hafa bara eina fréttastofu fyrir útvarp og sjónvarp? Loksins var hætt sl. vetur að hafa þulur í sjónvarpinu en þann spandals hef ég hvergi séð erlendis. Hættulegast er að skera flatt niður. Þá eyðileggst allt.

Í nálægum löndum hafa stjórnvöld orðið að bregðast við þaulskipulagðri og þjóðhættulegri glæpastarfsemi með öðrum aðferðum en áður dugðu. Ísland er ekki eyland. Við verðum að vinna eftir sömu nótum og nágrannalönd okkar.

Það var flottur hópur sem lauk Ironman í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Góðar bætingar litu dagsins ljós og allmargir nýliðar voru vígðir. Trausti, Stefán V. og Ásgeir, félagar mínir úr Grænlandsferðinni, voru allir þarna meðal þátttakenda. Ásgeir þurfti þvi miður að hætta vegna vandræða með hjólið en hann var t.d. innan við klukkutíma á sundsprettinum og fyrstur íslendinga. Trausti bætti sig og Stefán V. kláraði þrautina á góðum tíma. Nú hafa nær þrjátíu manns lokið Ironman hérlendis. Þetta harmonerar allt við það sem Gísli var að segja frá Osló. Við erum bara aðeins seinna á ferðinni en frændur vorir norðmenn.

sunnudagur, ágúst 15, 2010

The Rolling Stones Rip This Joint

Hluti hópsins við Háafoss

Ég hef gaman af að taka myndir. Ég tek myndir af ýmsu s.s. landslagi, íþróttaviðburðum, fólki og öðru sem vekur áhuga. Yfirleitt reynir maður að virða þau mörk sem falla undir almennt velsæmi þegar myndir eru teknar af fólki á almannafæri s.s að vera ekki að troða myndavélinni óþarflega nálægt fólki, enda hef ég aldrei lent í árekstri út af þessu. Ég tók t.d. mikið af myndum af mannlífinu á götum úti í Durban í vor. Ég tók reyndar margar myndanna frá mjöðm, þ.e. var ekki að miða myndavélinni beint framan í fólkið þvi ég vissi ekki hvernig brugðist yrði við ef eini hvíti maðurinn á svæðinu væri að ota myndavél að fólki. Ég varð hins vegar aldrei fyrir andúð eða áreiti af neinu tagi vegna þess. Hér fer maður stundum í bæinn að taka myndir á almannafæri án þess að það hafi haft neinar afleiðingar í för með sér. Hún var því ótrúleg sagan sem ég las fyrir helgina af stráknum sem fór niður á Laugaveg og tók þar einhverjar götu- og mannlífsmyndir. Þrjár aðvífandi stelpur héldu að þær hefðu lent inni á einni mynd hjá honum og heimtuðu að hann eyddi myndinni. Hann hafnaði því sem hann hafði fullan rétt á. Einhver orðræða um rétt til einkalífs hjá gangandi fólki á Laugaveginum er út í hött þegar ljósmyndainn er ekki nærgöngull eða dónalegur. Nú ber frásögnum ekki alveg saman en niðurstaðan varð sú að tveir aðvífandi karlar réðust á ljósmyndarann að áeggjan stelpnanna og sneru hann niður. Myndavélin var rifin af honum og myndinni eytt, að því talið var. Það tókst hins vegar ekki og myndin og frásögnin var sett á netið. Ég er hræddur um að það hefði þótt fréttamatur hér heima ef ég hefði komið frá Suður Afríku og sagt frá því að ég hefði verið snúinn niður á götu í Durban fyrir að taka myndir á almannafæri. Ég átti leið niður í bæ rétt fyrir helgina á fund. Þegar ég kem eftir Tryggvagötunni þá stendur þar maður á götuhorni og er að taka myndir í áttina til mín. Ég hugsa að nærstaddir hefðu rekið upp stór augu ef ég hefði rokið á manninn og heimtað að hann eyddi myndunum úr vélinni. En hann hefði ekki orðið við því þá hefði ég snúið hann niður og eytt myndinni sjálfur. Það hefðu allir sem séð hefðu svona atgang haldið að ég væri orðinn vitlaus. Það er vonandi að æsingalið sem hagar sér eins og fyrrgreindar manneskjur gerðu hugsi sitt ráð og hagi sér hér eftir eins og almennilegt fólk en ekki eins og bjánar.

Við hittumst félagarnir frá Framhaldsdeildinni á Hvanneyri austur í Gnúpverjahreppi í gær. Siggi og Bolette á Hæli tóku á móti okkur af miklum myndarskap. Það voru níu mættir af þeim ellefu sem útskrifuðust vorið 1975 eða fyrir 35 árum. Síðan komu eiginkonur flestra með þeim en það voru bara strákar í árgangnum okkar. Þorvaldur Árnason hafði ekki tök á að koma frá Svíþjóð og Sigurður Jarlsson átti ekki heimangengt enda að verða sextugur á næstu dögum. Þau Hælishjón sýndu okkur sveitina sína og fóru síðan með okkur upp í Þjórsárdal. Um kvöldið var haldinn mikill hátíðarkvöldverður á Hæli. Þar var glatt á hjalla og margar góðar minningar rifjaðar upp. Við höfum hist á fimm ára fresti frá því við áttum 20 ára útskriftarafmæli. Það er alltaf jafn gaman að hittast og sögurnar alltaf jafn skemmtilegar. Minningarnar frá Hvanneyri eru bæði margar og góðar enda vorum við þarna samtíða í fjóra vetur og sumir okkar í fimm. Það geriðst mikið á þessum árum þó svo að við hefðum verið parrakaðir dálítið inni á skólanum. Dætur þeirra Hælishjóna eru miklir tónsnillingar og spiluðu fyrir okkur af mikilli fingrafimi. Þær spila fyrst og fremst á þverflautu, fiðlu og píanó en kunna einnig ýmislegt annað fyrir sér.

miðvikudagur, ágúst 11, 2010

Tumbling Dice #1 -- The Rolling Stones -- Live 1972

Lokinhamrar í Arnarfirði

Meint náttúruvernd tekur á sig ýmsar myndir. Um daginn varð ég vitni að því að kona nokkur sagðist ekki skilja neitt í því að refurinn mætti ekki vera óáreittur á Þingvöllum. Ég gat ekki orða bundist og minnti á að refurinn þarf að éta eins og önnur dýr. Ef refurinn væri látinn óáreittur á Þingvallasvæðinu myndi honum fjölga með ótrúlegum hraða. Hann væri síðan eins og ryksuga í mófuglinum og mófuglsungunum á sumrin. Þá væri því jafnvægi sem á svæðinu væri nú raskað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Á greninu sem við sáum í Oddkelsstaðaveri voru cirka 10 vel stálpaðir gæsarungar. Það væri dálítill bunki af lóu- og spóaungum sem þyrfti að safna saman sem gæfi sama ætismagn og gæsarungarnir. Þarna var bara um að ræða eitt greni. Það er svo merkilegt að fólk sem telur sig hafa vit á hlutunum sér oft aðeins eina hlið á teningnum en gerir sér ekki grein fyrir heildarmyndinni. Í þessari orðræðu þá minntist ég á Hornstrandir og hvað hefur gerst þar eftir að refurinn var friðaður þar illu heilli. Mófuglinn væri algerlega horfinn. Nærstaddur maður heyrði á tal okkar og tók undir þetta. Hann hefði farið um Hornstrandir nýlega og varla séð einn einasta mófugl. Hann hafði hins vegar ekki sett það í sambandi við hinn gríðarlega fjölda refa á svæðinu en þarna laukst upp fyrir honum ljós og hann sá samhengið.

Það er erfitt að skilja launamálin hjá skilanefnd Glitnis. Tuttugu milljónir í laun á þremur mánuðum á mann. Þarna er taxtinn settur á 25.000 kall á tímann eða hvað veit ég og svo er tímaskráningarvélin botnstaðin. Eru þessar skilanefndir á einhverju tilverustigi fyrir utan og ofan allt og alla? Hvað segir Jóhanna yfir þessu?

Ég sá í dag á fótbolta.net að 31 leikmaður úr kvennaknattspyrnunni er að fara til Bandaríkjanna að spila fótbolta. Þær fá frí skólagjöld fyrir að leika með skólaliðum háskólanna. Þetta er virkilega flott. Þarna uppskera þær umbun erfiðisins auk þess að geta sinnt áhugamáli sínu. Þetta ætti að hvetja fleiri stelpur til að standa sig vel og leggja sig fram um að ná árangri. Það eru ekki bara strákar sem uppskera vel eftir að hafa lagt sig fram í íþróttum.

Árangur karlalandsliðsins í kvöld hlýtur að valda miklum vonbrigðum. Því miður held ég að tími Ólafs sem þjálfara sé liðinn hafi hann komið nokkurn tíma. Það er ekki að sjá að hann geti stillt strengi liðsins svo saman að árangurinn sé ásættanlegur. Í Liechtenstein búa 35.000 manns. Það er svona aðeins fleiri en búa í Kópavogi. Þeir eru í 150 sæti á heimslistanum. Ef mórallinn er þannig að menn haldi að þeir geti mætt í svona leiki og unnið þá með annarri löppinni þá er það misskilningur.

Ungu strákarnir stóðu sig aftur á móti virkilega vel þegar þeir skelltu jafnöldrum sínum frá Þýskalandi. Það er vonandi að þeir koðni ekki niður í meðalmennskuna þega rþeir fara að spila með A landsliðinu.

þriðjudagur, ágúst 10, 2010

Rolling Stones - Rocks Off

Páll Ásgeir stendur vaktina úti í Þjórsá

Ég er hættur að skila hvaða sess þessi svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna hafa skapað sér. Ég er ekki einn um þessa skoðun. Þarna eru einn eða tveir menn sem rekja mjög harðsvíraða hagsmunabaráttu fyrir eigin skinn. Það er allt í lagi og mjög eðlilegt að gera það en það er ekki jafn sjálfgefið að fjölmiðlafólk kokgleypi allt hrátt sem frá þeim kemur. Það er ekki nóg að það sé fullyrt út og suður um stöðu gengistryggðra lána og að það hafi engin áhrif fyrir skattgreiðendur enda þótt gengistryggð lán verði afskrifuð að miklu leyti heldur er einnig ráðist á fyrrverandi forstöðukonu ráðgjafastofu heimilanna og núverandi umboðsmann skuldara með dylgjum og rógburði. Sagt er að "Nokkur hópur fólks" hafði komið að tali við Hagsmunasamtök heimilanna að sögn þeirra og lýst yfir óánægju sinni með störf forstöðumannsins fyrrverandi. Engin dæmi voru nefnd, enginn kom fram undir nafni og ekkert tiltekið um hvað betur hefði mátt fara. Ef þetta er ekki persónulegur rógburður þá veit ég ekki hvar hann er að finna. Ég er mest hissa að fjölmiðlaliðið skuli birta svona lagað ótuggið og eins og það kom fyrir af skepnunni. Fjölmiðlafólk með sjálfsvirðingu hefði hent þessu beint í ruslið.

Ég man í þessu sambandi eftir atviki sem kom upp fyrir um tuttugu árum rúmum þegar ég sat í stjórn ákveðinna samtaka. Ósætti kom upp milli stjórnarformanns og starfandi framkvæmdastjóra annars vegar og eins stjórnarmanns hins vegar. Það jókst stig af stigi og varð mjög hatrammt. Það var ekki þyngra pundið í stjórnarmanninum en svo að hann lagði fram kæru á stjórnarformanninn til lögreglunnar þar sem hann var sakaður um fjárdrátt. Síðan var rúnturinn tekinn á alla fjölmiðla þar sem dreift var fréttatilkynningu um að stjórnarformaðurinn hefði verið kærður fyrir fjárdrátt. Það átti að níða æruna af honum í gegnum fjölmiðlana áður en lögreglan hefði haft möguleika á að skoða málið. Fjölmiðlafólk þess tíma var svo burðugt að það hentu allri þessum pappír í körfuna og lögreglan vísaði málinu frá við fyrstu skoðun. Í stað þess að æran hafði verið reitt af stjórnarformanninum sat stjórnarmaðurinn óheiðarlegi uppi með skömm og svívirðu fyrir framkomu sína í hugum allra sem málið þekktu. Nú er rógburði dreift athugasemdalaust að því virðist.

Í gær var kertafleyting á Tjörninni í minningu fjöldamorðanna í Nagasaki og Hirosima. Það eru liðin hátt í tuttugu ár síðan ég var síðast viðstaddur þennan atburð og geri ekki ráð fyrir að vera nærstaddur kertafleytinguna nokkurn tíma aftur. Það er gömul saga og ný að almenningur í stríðshrjáðum löndum fer alltaf verst út úr stríðsátökum. Sama hvaða land það er. Það var til dæmis sýnd mynd í sjónvarpinu í vetur þar sem því var lýst hvernig japanir fóru með íbúa kínverskrar borgar í seinni heimsstyrjöldinni. Mig minnir að það sé talið að þeir hafi drepið um 200 þúsund einstaklinga á meðan á hernáminu stóð fyrir utan allt annað. Það var ekki sérstaklega upplífgandi að sjá aldraða japanska hermenn lýsa því hálfglottandi hvernig þeir stóðu að hópnauðgunum á kínverskum stelpum á hernámstímanum. Það er engum kertum fleytt fyrir þetta fólk. Það er erfitt að segja til um hve margir tugir milljóna saklauss fólks hefur látið lífið vegna ógnarstjórnar kommúnista víða um heim. Ógnarstjórn Pol Pots í Kambódíu lét drepa um 2/5 hluta þjóðarinnar. Þar átti að innfæra kommúnismann tæran og hreinan eftir bókinni. Stalín lét drepa milljónir á milljónir ofan í stjórnartíð sinni. Það er hins vegar ekki fleytt kertum fyrir fórnarlömb Pol Pots eða önnur fórnarlömb kommúnismans. Það skiptir mig ekki máli þótt fólk komi saman og fleyti kertum ef því langar til þess. Mér finnst hins vegar skipta töluverðu máli að það sé horft á alla myndina en ekki einungis agnarlítinn hluta hennar.

Ég er farinn að hlaupa aftur á morgnana. Það er mjög gott. Júlí var heldur tíðindalítill enda ágætt að hvíla sig af og til. Nú er allt að fara í samt far aftur.

Fréttin í kvöld frá Djúpavogi um fóðurkálið sem óx upp af ætluðu grasfræi var smá fyndin. Á þeim tíma sem ég þekkti til í landbúnaði þá villtist enginn bóndi á grasfræi og fóðurkálsfræi. Grasfræ er aflangt og fislétt en fóðurkálsfræ var eins og hnöttóttar smákúlur. Á hinn bóginn afgreiddu fræsölufyrirtækin stundum sumarrepju í staðinn fyrir vetrarrepju. Þá sátu bændur uppi með fagurgula akra sem gáfu ekki sérstakt fóður.

mánudagur, ágúst 09, 2010

Fleetwood Mac - Man of the World

Fjallfoss í Dynjandi

Ég kaupi stundum slatta af DVD diskum þegar þeir eru til sölu á góðu verði. Síðan eru þeir geymdir óopnaðir oft í mara mánuði eða þangað til að tími og tilefni er til að horfa á þá. Stundum eru þeir ekkert sérstakir þegar til kemur en oftar eru þeir betur keyotir en ekki. Ég keypti mér fyrir nokkrum misserum disk um Peter Green, forsprakka og stofnanda hljómsveitarinnar Fleetwood Mac. Ég þekkti ekkert til hans en Fleetwood Mac gerði meðal annars lögin Albatros og Black Magic Women þekkt í lok sjöunda áratugarins. Svo spiluðu þeir einnig lagið Man of the World sem ég mundi ekki eftir en það er alveg frábært. Diskurinn um Peter Green reyndist alveg magnaður. Það er mikið rætt við gömlu skarfana en þeir eru allir lifandi merkilegt nokk. Reyndar veit ég ekki um einn en hann var ekki meðal upprunalegra stofnenda. Kallarnir eru orðnir dálítið snáðir en sama er, það var fróðlegt og gaman að heyra þá segja frá. Fleetwood Mac starfaði í tæp þrjú ár. Í lok sjöunda áratugarins seldu þeir fleiri plötur en Bítlarnir og Rolling Stones - samanlagt. Þeir eru ein af stærstu hljómsveitum sögunnar en þó hefur farið minna fyrir þeim en mörgum öðrum. Peter Green var mjög merkilegur tónlistarmaður. Hann var gítarsnillingur par exellence. Hann leysti Eric Clapton af hjá John Mayall á sínum tíma. hann samdi þessi mögnuðu lög sem ég minntist á áðan. Meðal flestar hljómsveitir á þessum tíma spiluðu rock and roll og léttpopp og fóru svo út í sýrurokk þá spiluðu Fleetwood Mac rokkaðan blues og gerðu það frábærlega. Sýran kom reyndar mikið við sögu hjá FM. Peter Green og einn gítarleikarinn lentu í slagtogi við sýrugengi í Munchen og biðu þess aldrei bætur að sögn hinna hljómsveitarmeðlimanna. Hljómsveitin leystist upp og Peter varð að utangarðsmanni árum saman. Hann lenti inni á geðsjúkrahúsum og fór alveg niður á botninn. Á níunda áratugnum fór að rofa til og hann er aftur farinn að spila og skapa. Hann virkaði í jafnvægi í myndinni og er hættur lyfjaáti að sögn. Á disknum var farið vel yfir sögu magnaðrar hljómsveitar sem engin hætta er á að gleymist.

Borgarstjórinn fór uppáklæddur í fararbroddi fyrir gleðigöngunni í gær. Ef hann hefur gaman af þessu þá er það bara fínt. Mér dettur hins vegar í hug hvað hefði verið sagt, ef borgarstjórinn, sem mátti þola hróp og öskur af pöllum ráðhússins þegar hann tók við embættinu á sínum tíma, hefði dressað sig upp og staðið keikur á pallunum á fyrsta bíl í þessari göngu þegar hann gegndi embætti.

Þegar ekið er um öræfin þá líða sumsstaðar klukkutímar án þess að það sjáist stingandi strá. Landið er dautt. Enginn gróður, engir fuglar, engin dýr, ekkert líf. En svo getur sumt fólk rekið upp andköf af skelfingu við þessar aðstæður ef það sést grænn blettur. Lúpínan, hinn ógurlegi skaðvaldur, gæti verið kominn á kreik. Í augum ýmissa er hún óþjóðleg yfirgangssöm jurt og þar af leiðandi aðskotahlutur sem ætti að útrýma. Svo langt hefur ruglið gengið að það hefur verið lagt til af málsmetandi mönnum að hafinn verði eiturefnahernaður á hálendinu til að útrýma lúpínunni. Nú er komin umræða í gang um að það eigi að útrýma henni niður að 400 metra hæð. Það má vel vera að lúpína henti ekki allstaðar en víða á hálendinu er hún frábær viðbót í afar fátæklega flóru. Hreinn lífgjafi fyrir dautt land. Lúpínan hefur verið til hérlendis í ca 100 ár. Það væri fróðlegt að gera úttekt á elstu svæðunum til að skoða hvaða þróun hefur þar átt sér stað. Hver er jarðvegsmyndun á þessum stöðum? Hvað með annan gróður? Hvað með fuglalíf? Hvers er að vænta þegar lúpínan hefur unnið sitt verk í 50-100 ár. Það væri vitlegra en að leggja til að það verði farið með eiturefnahernað inná hálendið. Má ekki búast við að allur þessi litli gróður sem þar er verði drepinn við slíka aðgerð og grunnvatnið ofaníkaupið mengað.

Fór tvo hringi í gær eða 40 km. Hitti Jóa, Stebba og Sigurjón við brúna um kl. 8:00 og fórum góðan hring í fínu veðri.

Víkingur missti tvö stig í Víkinni í gær vegna mjög grófra dómaramistaka eins og sást í sjónvarpinu í gærkvöldi. Það er vonandi að þetta ráði ekki úrslitum þegar upp verður staðið í haust.

föstudagur, ágúst 06, 2010

The Rolling Stones - Yesterday's Paper

Byssurnar stóðu sig vel á landsmótinu

Við fórum samkvæmt venju á Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Það hefur verið fastur liður síðan við drifum okkur til Víkur í Myrdal hérna um árið. Landsmótið fór vel fram samkvæmt venju. Fullt af fólki í Borgarnesi, skipulag og framkvæmd fín, góður árangur hjá krökkunum og veðrið eins og best var á kosið. Maður hittir síðan alltaf töluvert af góðum kunningjum á þessum mótum eins og gengur. Við Sigrún renndum út á Akranes á laugardagskvöldið en þar var Raufarhafnarhittingur. Það er alltaf gaman að hitta fólk sem tengist staðnum og rifja upp góðar minningar frá Raufarhafnarárunum. Nú þarf ég að drífa mig norður næsta vor til að mynda fugla. Þetta gengur ekki lengur. Eins segja kunnugir að eftir að fækkaði á staðnum þá hafi þorrablótin aldrei verið fjölmennari.

Við vorum í bústað uppi í Munaðarnesi þessa viku. Á miðvikudaginn skruppum við norður yfir Holtavörðuheiði, renndum fyrir Vatnsnes og tókum hús á Þórði og Ellu á Grund í Vestur Hópi. Selakynningin í Vestur Hún hefur virkilega gert sig. Það eru þrír staðir þar sem aðallega er hægt að skoða seli á Vatnsnesinu. Á Svalbarði og Illugastöðum á nesinu að vestanverðu og við Sigríðarstaðaós rétt fyrir innan Hvítserk. Á öllum þessum stöðum var töluverður fjöldi fólks að skoða seli. Vissulega er betra að hafa þokkalegan kíki með en sama er. Selirnir sjást vel á skerjunum skammt undan landi þar sem þeir flatmaga og spóka sig. Selirnir eru þannig að auka umferð ferðamanna verulega í gegnum Hvammstanga og þarna fyrir Vatnsnesið. Það er hins vegar búið að loka fyrir alla aðkomu að selalátrinu í Hindisvík. Þar er eitthvað fýludæmi í gangi. Ég þarf að fara þarna aftur fyrir nesið til að taka myndir. Það er ómögulegt að sinna því af einhverju gagni þegar fleira fólk er í bílnum.

Fréttir fóru nokkuð fyrir ofan garð og neðan þessa viku. Vitanlega náðu stærstu tíðindin til manns en annars var það í lágmarki. Það er nokkuð merkilegt að Icesafe virðist komið eitthvað aftarlega í röðina þessar vikurnar eins og það lá allt undir að klára það dæmi fyrr í vetur. eitthvað er öðruvísi en það ætti að vera í því spili öllu saman.

Mogginn fjallaði nokkuð á dögunum um þann órétt sem það fólk er beitt sem fær greiðslur frá Tryggingastofnun þegar verðbætur eru reiknaðar því sem tekjur. Þetta er ekkert nema mjög brútal eignaupptaka. Það er eins og það sé glæpsamlegt ef fólk hefur verið fyrirhyggjusamt og á einhverja aura í banka. Þá er ég ekki að taka um stóreignir heldur eignir sem samsvara því að fólk hafi náð að leggja fyrir svo sem 10-15 þúsund kall á mánuði að jafnaði yfir starfsæfina. Sér eru nú hver ósköpin.

Listi yfir þá sem greiða auðlegðarskatt var nýlega til umræðu í fjölmiðlum. Mér fannst dapurlegt að heyra hve fáir eiga eignir sem einhverju nemur. Nú eru allur loftbóluauðurinn horfinn út í veður og vind.

Ég hljóp ekkert yfir helgina. það er svona að þegar ýmsu öðru er að sinna þá vilja hlaupin detta upp fyrir. þaðe r svo sem allt ímlagi líka af og til. Ég tók mér síðan tak í byrjun nýrrar viku og tók góðan spotta upp í áttina að Bifröst á hverjum morgni. maður er svona þrjá morgna að komast almennilega í gang eftir að hafa verið rólegur um tíma. Það er ekki seinna vænna en að fara að gera eitthvað. Reykjavíkurmaraþonið bíður.