mánudagur, ágúst 23, 2010

Einhvern tíma á áttunda áratugnum var auglýst menningaratriði á Listahátíð sem vakti mikla athygli og tilhlökkun hjá listunnendum hérlendis. Allsber japani átti að sýna listrænan dans í Lækjargötunni um hábjartan daginn. Það dreif að múg og margmenni þegar dagurinn rann upp til að sjá tilstandið. Það urðu síðan ekkert nema vonbrigði út úr öllu saman því japaninn mætti með grisju um tippið en var ber að öðru leyti. Þetta þóttu hálfgerð vörusvik það ég man best. Nú á laugardagsnóttina var lögreglunni tilkynnt um ósiðlegan dans einhverrar konu úti á götu í miðbænum. Þegar lögreglan mætti á staðinn þá mat hún stöðuna í skyndi þannig að ekki væri um að ræða atriði tengt menningarnótt. Því handtók hún konukindina í snatri og stakk henni í steininn. Það er spurning hvort japaninn hefði verið settur í steininn hér forðum daga ef hann hefði ekki mætt með grisju.

Nú stendur mikið til. Það á að kalla saman þjóðfund til að undirbúa stjórnlagaþing. Síðan á að kjósa til stjórnlagaþings sem á að sitja í tvo mánuði. Síðan á Alþingi að vega og meta útkomuna og láta reyna á hvort eitthvað vit sé í henni. Ég verð að segja að mér finnst þetta allt vera hinn undarlegasti prócess. Í háreystinni í byrjun árs 2009 fór einhver að gala um stjórnlagaþing eins og það væri lausn á öllum vandamálum íslendinga. Þetta át síðan hver eftir öðrum um hríð. Svo var haldinn svokallaður þjóðfundur í Laugardalshöll í fyrrahaust. Síðan hafa verið haldnir margir þjóðfundir um allt land, misfjölmennir að sögn. Það er eitt orð sem ég man eftir að hafi komið fyrir á þjóðfundinum hinum stóra. Það er orðið heiðarleiki. Að mínu mati þurfti ekki að kalla saman 1000 manns til að rifja upp að það orð fyndist í orðabókinni og hvað það þýddi. Svo geta menn velt fyrir sér hvort notkun þess eða skilningur á tilgangi þessa ágæta orðs hafi eitthvað vaxið á því ári sem liðið er. Mér finnast svona fundir bera dálítinn keim af vasagaldrinum sem maður lærði í æsku. Galdramaðurinn stakk spilastokk í vasann. Hann spurði síðan hvaða spil maður vildi fá eftir ákveðnu kerfi. Að lokum dró hann rétta spilið upp úr vasanum og maður stóð gapandi. Síðar lærðist að galdramaðurinn kíkti á neðsta spilið í stokknum áður en þau fóru í vasann og leiddi hinn síðan áfram með leiðandi spurningum þar til maður sputði um hið rétta spil.

Menn mega síðan t.d. eyða allt að tveimur milljónum í kosningabaráttu fyrir stjórnlagaþingið sem á síðan aðeins að sitja í tvo mánuði. Mér er sem ég sæi upplitið á fólki hér innan dyra ef ég tæki tvær milljónir af matarpeningunum til að heyja kosningabaráttu til setu á stjórnlagaþingi. Í fyrsta lagi á ég engar tvær milljónir handbærar. Í öðru lagi væri ég allsendis óviss um að ná tilætluðum árangri og í þriðja lagi er spurningin hvers vegna ég ætti ég að ætlast til að vera kosinn frekar en aðrir?

Ég sé ekki fram á annað en að flokksvélarnar setji mikinn kraft í að tryggja stöðu sína á þessu ágæta þingi. Hvað gerist ef ekki næst samkomulag um eitt eða neitt. Verða menn lokaðir inni með kabyssu og eldspýtur?

Formaður undirbúningsnefndar um stjórnlagaþings sagði aðspurð í fjölmiðlum að þessi aðferð hefði hvergi verið notuð í heiminum áður og það gerði þetta mun merkilegra en ella. Það setur að manni svolítinn hroll þegar þessi rök eru notuð. Stjórnarskráin er ekki til að leika sér með.

Fréttablaðið skilgreinir maraþonhlaup á Íslandi sem ekkiíþrótt en Mogginn gerði úrslitum Reykjavíkurmaraþons góð skil í íþróttakálfinum í morgun. Gott hjá þeim.

1 ummæli:

Máni Atlason sagði...

Ég hef því miður ekki séð orð eins og hófsemi og ráðdeild koma út úr þessum þjóðfundum öllum. Það má velta fyrir sér hvort eitthvað hafi breyst.