Við fórum samkvæmt venju á Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Það hefur verið fastur liður síðan við drifum okkur til Víkur í Myrdal hérna um árið. Landsmótið fór vel fram samkvæmt venju. Fullt af fólki í Borgarnesi, skipulag og framkvæmd fín, góður árangur hjá krökkunum og veðrið eins og best var á kosið. Maður hittir síðan alltaf töluvert af góðum kunningjum á þessum mótum eins og gengur. Við Sigrún renndum út á Akranes á laugardagskvöldið en þar var Raufarhafnarhittingur. Það er alltaf gaman að hitta fólk sem tengist staðnum og rifja upp góðar minningar frá Raufarhafnarárunum. Nú þarf ég að drífa mig norður næsta vor til að mynda fugla. Þetta gengur ekki lengur. Eins segja kunnugir að eftir að fækkaði á staðnum þá hafi þorrablótin aldrei verið fjölmennari.
Við vorum í bústað uppi í Munaðarnesi þessa viku. Á miðvikudaginn skruppum við norður yfir Holtavörðuheiði, renndum fyrir Vatnsnes og tókum hús á Þórði og Ellu á Grund í Vestur Hópi. Selakynningin í Vestur Hún hefur virkilega gert sig. Það eru þrír staðir þar sem aðallega er hægt að skoða seli á Vatnsnesinu. Á Svalbarði og Illugastöðum á nesinu að vestanverðu og við Sigríðarstaðaós rétt fyrir innan Hvítserk. Á öllum þessum stöðum var töluverður fjöldi fólks að skoða seli. Vissulega er betra að hafa þokkalegan kíki með en sama er. Selirnir sjást vel á skerjunum skammt undan landi þar sem þeir flatmaga og spóka sig. Selirnir eru þannig að auka umferð ferðamanna verulega í gegnum Hvammstanga og þarna fyrir Vatnsnesið. Það er hins vegar búið að loka fyrir alla aðkomu að selalátrinu í Hindisvík. Þar er eitthvað fýludæmi í gangi. Ég þarf að fara þarna aftur fyrir nesið til að taka myndir. Það er ómögulegt að sinna því af einhverju gagni þegar fleira fólk er í bílnum.
Fréttir fóru nokkuð fyrir ofan garð og neðan þessa viku. Vitanlega náðu stærstu tíðindin til manns en annars var það í lágmarki. Það er nokkuð merkilegt að Icesafe virðist komið eitthvað aftarlega í röðina þessar vikurnar eins og það lá allt undir að klára það dæmi fyrr í vetur. eitthvað er öðruvísi en það ætti að vera í því spili öllu saman.
Mogginn fjallaði nokkuð á dögunum um þann órétt sem það fólk er beitt sem fær greiðslur frá Tryggingastofnun þegar verðbætur eru reiknaðar því sem tekjur. Þetta er ekkert nema mjög brútal eignaupptaka. Það er eins og það sé glæpsamlegt ef fólk hefur verið fyrirhyggjusamt og á einhverja aura í banka. Þá er ég ekki að taka um stóreignir heldur eignir sem samsvara því að fólk hafi náð að leggja fyrir svo sem 10-15 þúsund kall á mánuði að jafnaði yfir starfsæfina. Sér eru nú hver ósköpin.
Listi yfir þá sem greiða auðlegðarskatt var nýlega til umræðu í fjölmiðlum. Mér fannst dapurlegt að heyra hve fáir eiga eignir sem einhverju nemur. Nú eru allur loftbóluauðurinn horfinn út í veður og vind.
Ég hljóp ekkert yfir helgina. það er svona að þegar ýmsu öðru er að sinna þá vilja hlaupin detta upp fyrir. þaðe r svo sem allt ímlagi líka af og til. Ég tók mér síðan tak í byrjun nýrrar viku og tók góðan spotta upp í áttina að Bifröst á hverjum morgni. maður er svona þrjá morgna að komast almennilega í gang eftir að hafa verið rólegur um tíma. Það er ekki seinna vænna en að fara að gera eitthvað. Reykjavíkurmaraþonið bíður.
föstudagur, ágúst 06, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli