sunnudagur, ágúst 15, 2010

Ég hef gaman af að taka myndir. Ég tek myndir af ýmsu s.s. landslagi, íþróttaviðburðum, fólki og öðru sem vekur áhuga. Yfirleitt reynir maður að virða þau mörk sem falla undir almennt velsæmi þegar myndir eru teknar af fólki á almannafæri s.s að vera ekki að troða myndavélinni óþarflega nálægt fólki, enda hef ég aldrei lent í árekstri út af þessu. Ég tók t.d. mikið af myndum af mannlífinu á götum úti í Durban í vor. Ég tók reyndar margar myndanna frá mjöðm, þ.e. var ekki að miða myndavélinni beint framan í fólkið þvi ég vissi ekki hvernig brugðist yrði við ef eini hvíti maðurinn á svæðinu væri að ota myndavél að fólki. Ég varð hins vegar aldrei fyrir andúð eða áreiti af neinu tagi vegna þess. Hér fer maður stundum í bæinn að taka myndir á almannafæri án þess að það hafi haft neinar afleiðingar í för með sér. Hún var því ótrúleg sagan sem ég las fyrir helgina af stráknum sem fór niður á Laugaveg og tók þar einhverjar götu- og mannlífsmyndir. Þrjár aðvífandi stelpur héldu að þær hefðu lent inni á einni mynd hjá honum og heimtuðu að hann eyddi myndinni. Hann hafnaði því sem hann hafði fullan rétt á. Einhver orðræða um rétt til einkalífs hjá gangandi fólki á Laugaveginum er út í hött þegar ljósmyndainn er ekki nærgöngull eða dónalegur. Nú ber frásögnum ekki alveg saman en niðurstaðan varð sú að tveir aðvífandi karlar réðust á ljósmyndarann að áeggjan stelpnanna og sneru hann niður. Myndavélin var rifin af honum og myndinni eytt, að því talið var. Það tókst hins vegar ekki og myndin og frásögnin var sett á netið. Ég er hræddur um að það hefði þótt fréttamatur hér heima ef ég hefði komið frá Suður Afríku og sagt frá því að ég hefði verið snúinn niður á götu í Durban fyrir að taka myndir á almannafæri. Ég átti leið niður í bæ rétt fyrir helgina á fund. Þegar ég kem eftir Tryggvagötunni þá stendur þar maður á götuhorni og er að taka myndir í áttina til mín. Ég hugsa að nærstaddir hefðu rekið upp stór augu ef ég hefði rokið á manninn og heimtað að hann eyddi myndunum úr vélinni. En hann hefði ekki orðið við því þá hefði ég snúið hann niður og eytt myndinni sjálfur. Það hefðu allir sem séð hefðu svona atgang haldið að ég væri orðinn vitlaus. Það er vonandi að æsingalið sem hagar sér eins og fyrrgreindar manneskjur gerðu hugsi sitt ráð og hagi sér hér eftir eins og almennilegt fólk en ekki eins og bjánar.

Við hittumst félagarnir frá Framhaldsdeildinni á Hvanneyri austur í Gnúpverjahreppi í gær. Siggi og Bolette á Hæli tóku á móti okkur af miklum myndarskap. Það voru níu mættir af þeim ellefu sem útskrifuðust vorið 1975 eða fyrir 35 árum. Síðan komu eiginkonur flestra með þeim en það voru bara strákar í árgangnum okkar. Þorvaldur Árnason hafði ekki tök á að koma frá Svíþjóð og Sigurður Jarlsson átti ekki heimangengt enda að verða sextugur á næstu dögum. Þau Hælishjón sýndu okkur sveitina sína og fóru síðan með okkur upp í Þjórsárdal. Um kvöldið var haldinn mikill hátíðarkvöldverður á Hæli. Þar var glatt á hjalla og margar góðar minningar rifjaðar upp. Við höfum hist á fimm ára fresti frá því við áttum 20 ára útskriftarafmæli. Það er alltaf jafn gaman að hittast og sögurnar alltaf jafn skemmtilegar. Minningarnar frá Hvanneyri eru bæði margar og góðar enda vorum við þarna samtíða í fjóra vetur og sumir okkar í fimm. Það geriðst mikið á þessum árum þó svo að við hefðum verið parrakaðir dálítið inni á skólanum. Dætur þeirra Hælishjóna eru miklir tónsnillingar og spiluðu fyrir okkur af mikilli fingrafimi. Þær spila fyrst og fremst á þverflautu, fiðlu og píanó en kunna einnig ýmislegt annað fyrir sér.

Engin ummæli: