laugardagur, ágúst 28, 2010

Ég var að koma heim frá Svíþjóð en þar er ég búinn að vera á árlegum fundi hagdeilda norrænu sveitarfélagasambandanna. Fundurinn var haldinn´rétt fyrir utan Stokkhólm eða nánar tiltekið út í Lidingö. Á þessaru eyju er Lidingöloppet haldið en það er víðavangshlaup sem í taka þátt yfir 30.000 manns. Umhverfið á Lidingö er mjög fallegt á daginn en ekki er það síðra þegar fer að kvölda. Við sigldum í gær eftirmiddag yfir til Nacka sem er nágrannasveitarfélag Lidingö og borðuðum þar kvöldmat. Siglingin heim í sólssetrinu var afar falleg þegar bæði sólsetrið skartaði sínu fegursta og tunglið skein allt hvað af tók. Því miður var myndavélin ekki með. Það var sérstaklega gaman að vera í Svíþjóð þessa daga því það eru nú akkúrat 30 ár síðan ég flutti til Svíþjóðar seint í ágúst 1980 og settist á skólabekk í Ultuna sem er rétt fyrir utan Uppsali. Það var tilviljun ein sem réði því að það gerðist eins og svo margt annað. Árið áður hafi ég verið suður á Hvanneyri á aldarafmæli skólans þegar ég rak augun í auglýsingu í Þjóðviljanum um ferð til Kúbu á vegum Brigada Nordica sem var samstarf vináttufélaga Kúbu við norðurlöndin. Mig var farið að langa til að gera eitthvað annað svo ég sótti um að fara í þessa ferð svona til að gera eitthvað. Fleiri sóttu um en gátu komist með og ég var einn af þeim heppnu. Mánuðurinn sem við vorum á Kúbu um áramótin 1979/1980 með nær 200 öðrum norðurlandabúum gleymist ekki. Þarna kynntist maður mörgum nýjum andlitum. Fyrst og fremst héldum við íslendingarnir sjó með Finnunum eins og oftar enda þótt maður eignaðist góða félaga bæði meðal Norðmanna og Svía. Það var erfiðara að umgangast Danina vegna þess að maður skildi þá ekki!! Það hefur sem betur fer breyst. Upp úr þessu ævintýri fór að gerjast hugmyndin að rífa sig upp og fara í frekara nám og Svíþjóð varð að endingu ofan á. Þar var ég síðan í þrjá fína vetur. Þótt ég hafi síðan dvalið öllu lengur í Danmörku og Danmörk sé fínt land þá liggur Svíþjóð mér alltaf nær. Líklega vegna þess að þar náði ég fótfestu á erlendri grund og sænskan er fyrsta erlenda málið sem ég náði almennilegum tökum á. Það að hafa dvalist erlendis um nokkurra ára skeið, kynnst öðrum þjóðum, öðrum hugsanahætti og lært önnur tungumál er líklega sú eftirtekja sem endist best eftir þessi ár.

Samkvæmt því sem komið hefur fram í fréttum þá held ég að staðan í máli Ólafs Skúlasonar sé kristaltær. Kirkjan verður að afhelga kallinn. Hvernig sem það er gert veit ég ekki. Hún hlýtur allavega að geta gefið það formlega út að hann hafi verið þess óverðugur að hafa verið kosinn biskup eins og hún taldi hann verðugan til þess hér í denn tíð. Kaþólska kirkjan gefur út fordæmingar. Ekki veit ég hvort sú lútherska hafi slík tæki handbær en það mætti athuga það. Forsetaembættið verður að skrá formlega í sína prótókolla að kallinn hafi verið þess óverðugur að fá alla þá krossa sem hengdir voru á hann og afturkalla þannig formlega þann heiður sem honum var sýndur. Síðan verður að halda mjög vel upp á málverkið af kallinum og hafa það í forsæti á fundum kirkjuþings, á fundum kirkjuráðs og síðan í húsi kirkjunnar milli funda. Þess skal þó gætt að það sé ætíð hengt upp á hvolfi til að minna nærstadda á hvar þeir enda sem haga sér eins og kallinn.

Það gengur á ýmsu hjá hlaupurunum sem ætluðu að hlaupa lengri og skemmri leiðir umhverfis Mont Blanc um helgina. Beljandi ofankoma hefur sett allt úr skorðum. lengsta og næstlegsta hlaupinu hefur verið aflýst. Stysta hlaupið var blásið af á km 81. Þó hefur það verið sett á aftur. Þrír íslendingar héldu af stað því betri er hálfur skaði en allur. Daníel Smári er á rjúkandi siglingu síðast þegar sást til hans. Það er svakalegt þegar svsona gerist, allur undirbúningur fer út um gluggann og neyðarplan A, B og C er sett í gang.

Ísland eignaðist þrjá norðurlandameistara á NM 19 ára og yngri á Akureyri í dag. Hulda (stangarstökk), Stefanía (400 m grind) og Arna Stefanía (400 m) stóðu efstar á palli. Hulda er í elsta árgangnum, Stefanía er 17 ára en Arna Stefanía er ekki nema sextán. Flott hjá þeim.

Engin ummæli: