Nýlega fóru 17 íslendingar út til Kaupmannahafnar og tóku þátt í Ironman keppni. Árangurinn var mjög fínn og nokkrir meðal þeirra fremstu í sínum aldursflokkum. Á svipuðum tíma keppri Karen Axelsdóttir í ólympískri þríþraut á Breska meistaramótinu og varð þriðja. Reynt hefur verið að koma fréttum af þessu í íslenska fjölmiðla með litlum árangri. Þó hef ég heyrt að Stöð 2 hafi birt frétt af Ironmanmótinu nú í kvöld. Þakka það sem þakka ber. RUV birti eina örlitla frétt um keppnina þar sem mestu máli var eytt í að koma því að að sjórinn sem synt var í hefði verið mengaður vegna gríðarlegrar rigningar daginn áður.
Fyrir hálfum mánuði var leikinn úrslitaleikur í bikarkeppni í fótbolta. Blindfullt strákfífl var manað upp í að hlaupa strípaður inn á völlinn með logandi blys hvað hann og gerði. Nú vantaði ekki að fréttamenn tóku við sér. Sýnd var mynd af vitleysisgangnum í íþróttafréttatíma RUV. Birtar voru myndir og viðtöl við strákinn á veffjölmiðlum og í fylgikálfi Moggans var birt langt viðtal við hann þar sem fram kom að hann hafði gert þetta áður. Ef það er eitthvað sem svona athyglissjúklingar þrífast á þá er það athygli fjölmiðla. Með þessum viðbrögðum eru RUV og Mogginn að hvetja þá sem eru innréttaðir á svipaðan hátt til að fara að hlaupa inn á Laugardalsvöll eða aðra velli allsbera með logandi blys. Ofan á allt saman er talað um að sekta hann um 10-50 þúsund kall. Hann nær að safna þessum peningum með flöskusöfnun á einum degi. Í Danmörku hljóp svona rugludallur inn á Fælledparken á fótbobltaleik í fyrra. Danir tala ekki neinum silkihönskum á svona málum. Þar var ekki verið að tala um neina tíuþúsundkalla (íslenskar) í sekt. Sektin kom að öllum líkindum til að hlaupa á milljónum. Hér hvetja stærstu fjölmiðlarnir (sem vilja líka kalla sig þá virtustu) rugludallana til að hlaupa strípaða inn á knattspyrnuvelli með mikilli og jákvæðri umfjöllun um svona lagað. Það er eftir öðru.
Það má lesa í fréttum eftir nóttina að lögreglan hafi átt fullt í fangi með að halda aftur af bílstjórum sem gáfu skít í að götum hafði verið lokað fyrir bílaumferð í miðbænum heldur ruddust í gegn hvar sem möguleiki var á. Þeir nærstaddir sem voru með þokkalegri rænu dáðust oft að því hvað lögreglan hélt stillingu sinni í glímunni við örvitana. Þetta kemur mér ekki á óvart. Í fyrra þegar við vorum að loka götum um stuttan tíma vegna Ármannshlaupsins þá ruddist kerling á Range Rover í gegnum lokun á Sundlaugaveginum því hún gat troðið bílnum á milli keilanna. Annað hvort var hún blind og blint fólk á helst ekki að keyra bíla á götum úti. Hinn möguleikinn er líklegri að hún hafi verið að drepast svo úr frekju að henni hafi ekki dottið í hug að láta einhverja dela með plastkeilur koma í veg fyrir að hún færi þá leið sem hún ætlaði. Ég skal þó segja konunni það til hróss að hún sneri við eftir að ég var búinn að lesa henni pistilinn.
sunnudagur, ágúst 22, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli