Meint náttúruvernd tekur á sig ýmsar myndir. Um daginn varð ég vitni að því að kona nokkur sagðist ekki skilja neitt í því að refurinn mætti ekki vera óáreittur á Þingvöllum. Ég gat ekki orða bundist og minnti á að refurinn þarf að éta eins og önnur dýr. Ef refurinn væri látinn óáreittur á Þingvallasvæðinu myndi honum fjölga með ótrúlegum hraða. Hann væri síðan eins og ryksuga í mófuglinum og mófuglsungunum á sumrin. Þá væri því jafnvægi sem á svæðinu væri nú raskað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Á greninu sem við sáum í Oddkelsstaðaveri voru cirka 10 vel stálpaðir gæsarungar. Það væri dálítill bunki af lóu- og spóaungum sem þyrfti að safna saman sem gæfi sama ætismagn og gæsarungarnir. Þarna var bara um að ræða eitt greni. Það er svo merkilegt að fólk sem telur sig hafa vit á hlutunum sér oft aðeins eina hlið á teningnum en gerir sér ekki grein fyrir heildarmyndinni. Í þessari orðræðu þá minntist ég á Hornstrandir og hvað hefur gerst þar eftir að refurinn var friðaður þar illu heilli. Mófuglinn væri algerlega horfinn. Nærstaddur maður heyrði á tal okkar og tók undir þetta. Hann hefði farið um Hornstrandir nýlega og varla séð einn einasta mófugl. Hann hafði hins vegar ekki sett það í sambandi við hinn gríðarlega fjölda refa á svæðinu en þarna laukst upp fyrir honum ljós og hann sá samhengið.
Það er erfitt að skilja launamálin hjá skilanefnd Glitnis. Tuttugu milljónir í laun á þremur mánuðum á mann. Þarna er taxtinn settur á 25.000 kall á tímann eða hvað veit ég og svo er tímaskráningarvélin botnstaðin. Eru þessar skilanefndir á einhverju tilverustigi fyrir utan og ofan allt og alla? Hvað segir Jóhanna yfir þessu?
Ég sá í dag á fótbolta.net að 31 leikmaður úr kvennaknattspyrnunni er að fara til Bandaríkjanna að spila fótbolta. Þær fá frí skólagjöld fyrir að leika með skólaliðum háskólanna. Þetta er virkilega flott. Þarna uppskera þær umbun erfiðisins auk þess að geta sinnt áhugamáli sínu. Þetta ætti að hvetja fleiri stelpur til að standa sig vel og leggja sig fram um að ná árangri. Það eru ekki bara strákar sem uppskera vel eftir að hafa lagt sig fram í íþróttum.
Árangur karlalandsliðsins í kvöld hlýtur að valda miklum vonbrigðum. Því miður held ég að tími Ólafs sem þjálfara sé liðinn hafi hann komið nokkurn tíma. Það er ekki að sjá að hann geti stillt strengi liðsins svo saman að árangurinn sé ásættanlegur. Í Liechtenstein búa 35.000 manns. Það er svona aðeins fleiri en búa í Kópavogi. Þeir eru í 150 sæti á heimslistanum. Ef mórallinn er þannig að menn haldi að þeir geti mætt í svona leiki og unnið þá með annarri löppinni þá er það misskilningur.
Ungu strákarnir stóðu sig aftur á móti virkilega vel þegar þeir skelltu jafnöldrum sínum frá Þýskalandi. Það er vonandi að þeir koðni ekki niður í meðalmennskuna þega rþeir fara að spila með A landsliðinu.
miðvikudagur, ágúst 11, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli