sunnudagur, september 18, 2011

Ég fór niður í FÍH salinn í kvöld. Þar var mættur Jón Kr. Ólafsson frá Bíldudal með sína árlegu hausttónleika ásamt vinum og vandamönnum. Jón er orðinn 71 árs en slær ekkert undan. Hann er alveg eins og hann hefur verið síðustu 30 árin og röddin er betri en nokkru sinni ef eitthvað er. Jón er sérstakur maður í þess orðs jákvæðu merkingu. Hann hefur haldið tryggð við sitt hemaþorp en er samt ekki síðri heimsborgari en margir þeirra sem víðar hafa farið. Jón er fínn. Tónleikarnir stóðu yfir í hátt á þrjá klukkutíma og hvergi slegið af. Þarna voru margir leiddir fram, klassískir söngvarar af ýmsum tegundum, Fjallabræður, dægurlagasöngvarar fornir og nýjir og síðan Bjarnason himself. "Er þetta ekki að verða búið Jón?" sagði Bjarnason þegar langt var liðið á tónleikana, "Ég er að verða of seinn að syngja í afmæli". Jóni brá ekki en sagði: "Hvurslagsfólk er þetta sem er á afmæli þegar klukkan orðin ellefu" Það er alltaf gaman að setjast niður kvöldstund og hlusta á vini Jóns Kr. syngja og skemmta sér og öðrum. Kallinn er engum líkur. Svo hittir maður alltaf einhverja kunnuga á svona samkomum sem er svona krydd á kökuna.

Ég er að verða góður í fætinum. Verkurinn minnkar dag frá degi. Ég reyni að teygja samviksusamlega og það hefur tvímælalaust áhrif. Þessi meiðsl eru ekkert annað en sjálfskaparvíti því ég hef verið of linur við að teygja á undanförnum misserum. Þetta er allt að koma og er í mikið góðu lagi.

Nú er farið að styttast í að Kári Steinn fari í sitt fullnaðarpróf. Berlínarmaraþonið er um næstu helgi. Það verður spennandi.

Engin ummæli: