laugardagur, september 10, 2011

Ég fór til Vestmannaeyja í gær og kom aftur seinnipartinn í dag. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fer einu sinni á ári út fyrir borgina með stjórnarfund og sviðsstjórarnir fylgja með. Nú voru það Vestmannaeyjar sól og blíðu. Að afloknum stjórnarfundi þá var farið í heimsókn á bæjarskrifstofurnar hvar Elliði bæjarstjóri og hans fólk tók á móti okkur af myndarskap.

Hann átti vart orð yfir að lýsa þeim umskiptum sem hafa orðið í Eyjum með tilkomu Landeyjarhafnar og breyttri siglingaleið. Það sem af er árinu hefur um 100.000 farþegum fleira komið til Eyja en þegar siglt var upp á gamla móðinn. Það sést líka í bænum, bæði á fjölda ferðamanna og fjölda verslana, matsölustaða og veitingahúsa.

Síðan skoðuðum við Vinnslustöðina. Það er gríðarlega öflugt matvælaframleiðslufyrirtæki sem er gaman að heimsækja. Í Vinnslustöðinni var verið að slíta humar, frysta makríl og salta stórþorsk. Fjöldi launaseðla í einum mánuði í ár hafði farið upp í 500. Vinnslustöðin veltir 80 milljónum EYRO á ári. Fyrir einungis átta árum seldu þeir allar afurðir sínar í gegnum SÍF en nú er þetta orðið markaðsdrifið fyrirtæki sem annast sölu sinna afurða sjálft. Þeir vinna afurðir fyrst og fremst af eigin skipum sem fiska kvótann eftir því sem þörf markaðarins er. Þeir sögðust ekki vilja fisk af strandveiðibátum til vinnslu, fyrst og fremst vegna þess að gæðin væru ekki nægjanlega mikil. Það er von að það sé brugðist við þegar forsvarsmenn fyrirtækja af þessum klassa sjá bátnum ruggað að misvitrum stjórnmálamönnum sem virðast ekki alltaf skilja samhengi hlutanna. Það ætti að vera hverjum manni ljóst að varanlegar breytingar í umhverfi fyrirtækja af þessum toga verður að vanda þannig að skaðinn af breytingunum verði ekki stærri en ábatinn. Það sem er sorglegast af öllu í umræðu liðinna mánuða og missera um sjávarútvegesmál er að Vinnslustöðin og önnur álíka fyrirætki sem hafa verið í veiðum og vinnslu sjávarafurða um áratuga skeið og ætla að vera það áfram er hallmælt sem Svarta Pétrunum í kerfinu í illsku út í þá sem eru búinir að selja sig út og horfnir. Reyndar er mörgum þeirra sem eru búnir að selja sig út úr kerfinu tvisvar eða þrisvar afhentur veiðiréttur á silfurfati fyrir ekki neitt í formi strandveiðiheimilda á sama tíma og þeir sem eru í kerfinu allt árið verða að kaupa kvótann ef þeir vilja styrkja stöðu sína. Þetta er náttúruleg ekki í lagi.

Af skoðunarferðinni um Vinnslustöðina var farið í siglingu kringum Heimaey. Hún tók góðan klukkutíma á alvöru hraðbát. Veðrið var orðið afargott, rjómablíða og bjart svo þetta var virkilega fínn túr. Um vköldið borðuðum við í Vinaminni, nýju veitingahúsi sem hefur sérhæft sig í að halda minningu gossins og þeirra breytinga sem það hafi á lofti. Áður en matur var borinn á borð þá sagði veitingakonan frá kvöldinu fyrir gosið og upplifuninni um nóttina þegar gosið hófst. Það var mjög áhrifaríkt. Mér er þessi tími í fersku minni því ég kom út í Eyjar viku af gosi og var þar í nokkra daga ásamt fleiri Hvanneyringum við að hreinsa vikur af húsþökum, sem fóru svo öll undir hraun um einum og hálfum mánuði síðar. Að afloknum mjög fínum kvöldverði þá sungu veitingahjónin fyrir okkur af stakri snilld. Þarna var svo setið og spjallað áfram en ég fór síðan snemma að sofa.

Vestmannahlaupið var í dag og það var tilvalið að taka þátt í því. Þátttakan fór fram út björtustu vonum heimamanna en um 280 manns tóku þátt í þessu fyrsta formlega götuhlaupi í Vestmannaeyjum í sól og blíðu. Ég hef ekki hlaupið neit að ráði síðan í Belfast upp úr miðjum júlí svo ég var ekki til neinna afreka. Brautin var skemmtileg en hunderfið. Það er bara svoleiðis. Það er engin braut eins og ekkert lögmál að þær eigi að vera marflatar. Fyrstu 6-7 km voru ekkert nema brekkur upp og niður en um 100 km hæðarmunur er á brautinni. Ég lauk hlaupinu á um 48 mín sem var bara eins og innistæða er fyrir. Þórólfur sigraði 10 km á rúmum 37 mín en Kári Steinn sigraði 1/2 maraþonið á 1.12 sem er frábær tími á erfiðri braut. Það er verðugt verkefni fyrir hlaupara komandi ára að slá þessi brautarmet. Gaman verður að fylgjast með Kára Stein í Berlín eftir um 1/2 mánuð.

Ég sé í fréttum að innanríkisráðherra hefur tekið ákvörðun um að stika framtíðarlandleiðina vestur á suðurfirði Vestfjarða yfir hálsana. Það er að mínu viti landversti valkosturinn. Hann er eitthvað að tala um jarðgöng í þessu sambandi en það veit það hver maður sem vill vita að það verða ekki boruð göng í gegnum þessa hálsa á næstu 10 árum að minnsta kosti. Vaðlaheiðargöng eru í undirbúningi, það er pressað á Oddskarðsgöng og göng úr Seyðisfirði suður á við. Síðan eru Vopnfirðingar miklir áhugamenn um jarðgöng yfir á Hérað og svo er byrjað að tala um nauðsyn á göngum úr Siglufirði yfir í Fljót eins og allir vissu að myndu koma samtímis upp í umræðuna eftir að Héðinsfjarðargöngum lyki. Ég hef ekki séð þetta kjarr í Teigsskógi en get ekki ímyndað mér að það sé slíkt djásn að við því megi ekki á nokkurn hátt hrófla. Besta lausnin er vafalaust tenging af Melanesinu yfir á Reykjanes við að Árbæ og slá þannig tvær eða þrjár flugur í einu höggi, tengja veginn á láglendi, opna fyrir möguleika á sjávarfallavirkjun og jafnvel fiskeldi inni í Þorskafirðinum. Nei, versti kosturinn er valinn. Hvað á það fólk að hugsa og segja sem málið varðar?

Engin ummæli: