sunnudagur, september 18, 2011

Það var athyglisvert viðtal á Sprengisadi í morgun við mann nokkurn sem heitir Erlendur Halldórsson að því mig minnir. Hann hefur unnið í tengslum við erlend verkefni á undanförnum 30 árum og þekkir því vel til veðra og vinda á Evrusvæðinu. Hann var mjög gagnrýninn á myntsamstarf ESB sem slíkt. Hann sagði að evran hefði verið stofnsett í upphafi vegna þess að stjórnmálamenn hefðu séð haft þá skoðun að ein mynt væri betri fyrir Evrópu en margar myntir. Ákvörðunin hefði verið keyrð í gegn af stjórnmálamönnum þrátt fyrir varnaðarorð fjölmargra hagfræðinga og fræðimanna. Þeir sögðu að hagkerfi Evrópskra landa væru alltof ólík til að þau gætu unnið eftir einu myntkerfi. Miklu nær hefði verið að þau lönd sem hefðu haft tiltölulega lík haglkerfi s.s. Þýskaland, Frakkland, Holland og Austurríki hefðu tekið sig saman um eina mynt í stað þess að þenja Evruna út um allar koppagrundir með að að sjónarmiði að stórt væri betra en smátt. Erlendur fullyrti einnig að efnahagsvandræði Spáns og Írland væru tilkomin vegna aðildar þeirra að myntsamstarfi ESB. Hin gríðarlega skuldsetning þessara landa væri m.a. tilkomin vegna oftrausts á myntsamstarfið og auðvelds aðgengis að fjármagni. Vandamál Grikklands er af öðrum toga. Finnar öfunda Svía nú af því að hafa sína eigin mynt sem gerir alla efnahagsstjórnun auðveldari.

Mér fannst þetta viðtal áhugavert vegna þess að hérlendis litast umræðan um aðildarumsókn af því að þeir sem ráða ferðinni hafa tekið afstöðu vegna þess að þeir hafa séð ljósið. Efnisleg umræða um kosti og galla myntsamstarfsins er fyrirferðarlítil. Hvernig væri staðan hérlendis í dag ef Ísland væri aðilar að myntsamstarfi Evrópu. Í mínum huga er niðurstaðan ljós á sumum sviðum. Atvinnuleysi væri t.d. miklu meira. Kaupmáttur væri síst meiri. Það er bara eins og staðan er innan Evrópusambandsins. Auðvitað er áhugavert að fylgjast með því sem er að gerast á þessum vettvangi á komandi misserum. Það verður að teljast hæpið að evran verði í óbreyttri mynd eftir allan þennan darraðadans.

Ég fór á bretti í World Class í morgun í fyrsta sinn í ár. Ég fæ frípláss hjá þeim út nóvember a.m.k. Það er fínt að fara að keyra sig í gang á nýjan leik.

2 ummæli:

Grímur Sæmundsson sagði...

Það er rétt að það vöruðu einhverjir hagfræðingar við því að jaðarsvæði Evrópu gætu sviðið fyrir að tekin yrði upp sameiginleg mynt en þeir voru fleiri sem útmáluðu kostina við sameiginlega mynt. Stemmingin var bara svona á þessum árum. Það var nefnilega stutt síðan að menn fengu að kynnast því hvernig spekúlantar gátu farið með “örmyntir” eins og breska sterlingspundið!

Norðmenn eru í stökustu vandræðum með krónuna sína. Hún er á floti eins og sú íslenska var og einasta tækið sem Seðlabankinn vill beita eru stýrivextir. Í þeim óróa sem nú ríkir er litið á Noreg sem örugga höfn til að parkera verðmætum. Það streyma peningar inn í landið. Seðlabankinn reynir að róa á móti með því að lækka stýrivexti en allt kemur fyrir ekki (þeir eru núna 2,25% og verða væntanlega lækkaðir í morgun). Þessir lágu stýrivextir valda síðan gífurlegri þenslu sem við innflytjendurnir, sem ætlum að flytja heim aftur, njótum góðs af en þeir sem eru að skuldsetja sig núna verða ekki í góðum málum eftir 5-10 ár. Svisslendingar voru í svipaðri stöðu en eru búnir að grípa til sértækra aðgerða til að stoppa fjárstreymið inn í landið og það eykur enn á þrýstinginn á Norsku krónuna. Peningar sem streyma inn leita jú aftur út þegar síst skyldi eins og við þekkjum svo mæta vel heima á Fróni. Norðmennirnir eru sem sagt að glíma við svipað vandamál og við glímdum við 2006 - 8. Þeir eru með sjálfstæðan gjaldmiðil sem spekúlantarnir telja sig geta grætt á og peningarnir streyma inn í landið. Innlendur iðnaður lognast út af en innflutningur eykst upp úr öllu valdi vegna þess að gengið hækkar. Fólkinu í landinu finnst það vera óheyrilega ríkt og það skuldsetur sig upp í rjáfur. Seðlabankastjórinn veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann er nýbyrjaður blessaður kallinn. Bara búinn að vera í djobbinu í hálft ár eða svo.

Það eru ekki alltaf jólin þó að maður sé með sjálfstæðan gjaldmiðil og það þarf ekki að fara út fyrir landsteinana til að finna fyrir því að hagstjórnin kemur mismunandi niður á atvinnugreinum og landshlutum. 2007 var mjög erfitt ár fyrir íslenskan útflutning en að sama skapi blómstraði verslun og þjónusta sem aldrei fyrr. Landshlutar þar sem hefðbundnir atvinnuvegir höfðu mikið vægi sviðu en höfuðborgarsvæðið bólgnaði.

2007 átti ég hús sem ég hefði getað fengið 3 milljónir norskar fyrir. Nú færi það líklega á um eina milljón norskar. Sumpart vegna þess að það hefur lækkað í verði en mest vegna þess að gengið hefur breyst. Ég keypti það á 12 millur 2004 og hæst fór verðið í um 30 millur. Nú færi að líklega á um 20 millur. Þetta eru helvíti hressilegar sveiflur á svona stuttum tíma og ég er sannfærður um að þær megi að mestu leiti rekja til gengissveifla. Bæði á norsku og íslensku krónunni. Kaupmátturinn, stemmingin og væntingarnar stýrast nefnilega líka af genginu.

Í sumum kreðsum er talað um að vandinn felist í að gjaldmiðlarnir séu hættir að endurspegla framleiðsluna eða verðmætaaukninguna í hverju hagkerfi fyrir sig. Nú séu gjaldmiðlarnir fyrst og fremst orðnir að tæki fyrir spekúlanta og það fari eftir stemningunni í kauphöllinni hvort myntir hækki eða lækki. Þetta hefur oft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir raunhagkerfið. Eitt dæmi er um þetta er þegar tilkynnt var um 30% samdrátt í kvótanum heima. Krónan styrktist (ef ég man rétt) um 3% þann dag og öll hlutabréf stigu í verði. En hinsvegar voru margir sem gáfust upp á útgerð á þessum árum.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil Grímur. Alltaf áhugavert að fá upplýsandi innlegg.