laugardagur, september 24, 2011

Nú hef ég ekkert vit á fornleifum eða verndun fornminja. Það er eins gott að það komi fram í upphafi. Samt er eitt og annað sem vefst fyrir mér sem venjulegum manni sem les fréttir og fylgist með umræðunni í samfélaginu. Nú stendur yfir mikil umræða um byggingu svokallaðar Þorláksbúðar austur í Skálholti. Hin upprunalega Þorláksbúð var byggð 1527 eftir að kirkjan þar brann. Hún var að sögn notuð sem bráðabirgðaskýli fyrir eitt og annað og fékk svo loks nafnið Þorláksbúð. Samkvæmt fréttum er verið að reisa nýtt hús í mynd þess forna á gamla grunninum. Þarna er sem sagt verið að búa til fornminjar eða eftirlikingar af þeim. Gott og vel, það er bara allt í lagi ef einhver hefur áhuga á slíku.
Þegar hornhúsið á Lækjargötu og Austurstræti brann fyrir nokkrum árum töldu þeir sem vit höfðu á málinu að þarna hefðu mikil menningarverðmæti farið í súginn þegar gamla húsið brann. Það var reyndar heldur óhrálegur timburhjallur. Ákveðið var að húsið skyldi endurgert í sinni upprunalegu mynd. Svo var reist fínt hús sem líktist því gamla harla lítið en er í einhversskonar gömlum timburhúsastíl. Það fer ágætlega þarna á horninu og nýtist vonandi sem best. Þar er í sjálfu sér búið að búa til fornminjar eða byggja nýtt hús sem á að líta út eins og gamalt. Bara fínt.
Mér var sýnd gömul verbúð vestur á Látrum í sumar. Hún var þeirrar tegundar að hún var það breið að hún var með tvo mæniása. Það var sjaldgæft að verbúðir voru svo stórar. Veður og vindar hafa farið ómjúkum höndum um búðina gegnum árin. Fyrir þremur eða fjórum árum féll hún. Heimamenn höfðu hug á að leita að fjármagni til að endurgera búðina í sinni upprunalegu mynd en þá kom babb í bátinn. Menn að sunnan komu með gult merki á hæl sem stungið var í vegginn. Á merkinu stendur: Friðlýst. Þar sem þetta merki stendur á veggnum þá má ekki hreifa við einu eða neinu heldur eiga náttúruöflin að sjá um varðveislu búðarinnar inn í óráðna framtíð. Náttúran á að hafa sinn gang segja mennirnir að sunnan. Nú hélt ég að eldurinn væri hluti af náttúruöflunum þegar gamalt hús brennur í miðborg Reykjavíkur. Nei, þá þykir öllum sjálfsagt mál að byggja nýtt fornhús. Það má byggja ofan á og jarða gamlan húsgrunn austur í Skálholti með nýfornminjum. En það má ekki hreyfa við gömlu hrundu húsi vestur á Látrum og endurgera það í sinni upprunalegu mynd til að gefa komandi kynslóðum innsýn í hvernig stórar sjóbúðir voru settar upp snemma á síðustu öld. Rústin er friðlýst og friðlýst þýðir "Bannað að snerta". Í þessu dæmi er eitthvað sem ekki gengur upp.

Ég fór í bíó á þriðjudaginn og sá heimildarmyndina Jón og Séra Jón sem fjallar um Jón Ísleifsson, fyrrverandi prest í Árnesi í Trékyllisvík á Ströndum. Myndatökumaður hefur greinilega náð góðu sambandi við Jón og hefur komist mjög nálægt honum. Það má segja myndatökumanninum til mikils hróss að hann sést aldrei og heyrist aldrei í honum. Hann er laus við þann algenga óvana íslenskra þáttagerðarmanna að vera sífellt að troða sjálfum sér í mynd eða máli inn í þáttinn. Sem dæmi um það má nefna Ísþjóðina þar sem þáttagerðarmaðurinn er sífellt í mynd eða að koma spuringum sínum inn í þáttinn þrátt fyrir að það bæti hann ekkert. Ég mæli með myndinni um Jón. Hann er sérstakur og er vel að það skuli einhverjum hafa dottið í hug að kaman væri að gera mynd um kallinn. Það er svona svipað og þegar Friðrik Þór fór norður til Skagastrandar og tók hina óborganlegu mynd Kúrekar Norðursins um fyrstu kántríhátíðina á Skagaströnd. Myndin um Jón endar á því þegar prestur hefur hlaðið langan Landrover með dóti sínu og lætur úr hlaði, alfarinn eftir nokkur átök..

Engin ummæli: