fimmtudagur, september 01, 2011

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skrifar prýðilega grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann fjallar um hið fyrirhugaða hátæknisjúkrahús. Hann fjallar þar á einfaldan hátt um þau pótemkímtjöld sem hafa verið dregin upp í kringum þetta fyrirbæri. Það eru ekki til neinir peningar til eins eða neins á Íslandi í dag. Skorið er grimmt niður í heilbreigðisgeiranum og segja þeir sem til þekkja að þar sé komið langt fram fyrir eðlileg mörk. Læknar streyma úr landi til lengri eða skemmri dvalar. Vinnufélagi minn var fyrir skömmu í Lundi þar sem stjúpsonur hans er í framhaldsnámi í læknisfræði eins og fjölmargir aðrir íslenskir læknar. Enginn ætlar að koma heim að námi loknu í ástandið eins og það er. Þegar ég bjó úti í Uppsölum fyrir rúmum 30 árum var þar fjöldi lækna. Allir ætluðu að koma beint heim að námi loknu. Tímarnir eru breyttir hvað þetta varðar. Þegar yfirvofandi er lækaskortu í landinur þá er vaðið í að ráðstafa tugum milljarða í steinsteypu. Hvað kostar síðan að tækja nýja spitalann upp? Eru þeir peningar til? Byggingarformið er kapituli út af fyrir sig. Ég hef alltaf haldið að byggingarform spítala ætti að vera sem einfaldast, það sem mestu máli skipti hvað gerist inni í húsinu sem hýsir hann. Hinn nýji spítali virðist samanstanda af fjölmörgum húsum sem eru tengd saman á einn eða annan hátt. eitthvað kemur það til með að kosta og einhver tími fer í allar þessar milliferðir. Helsti kosturinn við bygginguna er sagður vera að það veitir byggingaiðnaðinum verkefni. Það er náttúrulega galin röksemd.
Umferðarmálin eru svo eitt enn. Það á að fjöldga starfsfólki á spítalanum um þriðjung frá því sem nú er. Verður til peningur til að borga því laun. Hann er ekki til í dag. Eðlilega óttast menn aukna umferð sem er nógu mikil í dag. Það segir sig sjálft að þegar svona fekna stórir vinnustaður er settur út undir jaðar á borginni með takmarkað aðgengi þá verður umferðin erfið ef ekki vandamál. Fyrst stefnt er að því að byggja sjúkrahúsið frá grunni ætti að velja því stað miðsvæðis og þar sem aðgengi er gott úr öllum áttum. Það þarf að hugsa til næstu 100 ára en ekki bara til næstu tveggja til þriggja ára. Í fréttum í kvöld kom fram að umferðarmálin yrðu leyst með bættum almenningssamgöngum og með því að kenna fólki að nota ekki einkabílinn. Þá veit maður það.

Almenningsíþróttadeild Víkings hélt fimm og tíu km hlaup í Fossvognum í kvöld. Það var fyrsta hlaup sem deildin heldur. Fyrirfram bjuggust þau við um 70-100 manns. Fljótlega kom í ljós að þau plön sprungu og ný voru sett. Þau sprungu líka og þegar yfir lauk tóku um 300 manns þátt í hlaupinu í ágætu veðri en smá vindi. Þetta sýnir bara hvað er að gerast í hlaupaheiminum. Heldur heimskuleg umfjöllun í Ríkissjónvarpinu nýlega um að vaxandi hlaupaáhugi væri nokkursskonar lífsgæðakapphlaup og að hlauparar myndu þurfa að láta skipta um liðkúlur í gríð og erg var út í hött. Æ fleiri skynja kosti hreifingar og útiveru fyrir utan þann ágæta félagsskap sem tengist hlaupunum.

Engin ummæli: