miðvikudagur, september 07, 2011

Ég skrapp austur á Hvolsvöll á sunnudaginn. Ísólfur Gylfi, sveitarstjóri þar í sveit, bað mig að koma austur og halda fyrirlestur um hvernig fólk ætti að bera sig að þegar það færi að hefja reglubundið skokk eða hlaup. Sveitarfélagið stendur fyrir heilsuviku nú í vikunni og opnaði meðal annars heilsustíg í því tilefni. Þar er hægt að gera margs konar æfingar, teygjur, hopp og fleira sem tilheyrir. Það var vel mætt á fyrirlesturinn og fólkið áhugasamt. Það er alltaf gaman að gefa eitthvað af sér inn í hlauparasamfélagið og vonandi að þetta verði einhverjum hvatning að taka sér tak. Auðvitað er það dálítið átak að hefja reglubundna hreyfingu en það breytist fljótt yfir í að tilfinningin vegna aukinna lífsgæða víkur fyrir öðru.
Á leiðinni heim skrapp ég inn á Hafnarfjarðarafleggjarann og kíkti til berja. Ég hafi aldrei svipast eftir berjum þarna áður en það var svona reitingur. Ég týndi tæp tvö kíló með puttunum á réttum klukkutíma af ágætum bláberjum. Nú eru ber notuð út á morgunskattinn.

Ég er að snúa mér af stað aftur. Tognunin aftan í hægra lærinu er að láta undan. Ég hleyp svona annan hvern dag og ætla að auka rólega við álagið jafnhliða því sem ég reyni að teygja vel. Þá mjakast þetta. World Class hefur brugðist vel við enn einn ganginn og ég fæ að fara þar inn og æfa mér að kostnaðarlausu fram á veturinn.

Engin ummæli: