föstudagur, september 02, 2011

Það var Merkigilsferð um síðustu helgi. Félagi Jói hefur síðustu fjögur ár staðið fyrir helgarferð norður í Merkigil í Austurdal í Skagafirði síðustu helgina í ágúst. Þar bjó Monika Helgadóttir með dæturnar sjö (og einn son) á síðustu öld. Hún giftist að Merkigili um 1925 og bjó þar fram á árið 1988 þear hún lést, 87 ára að aldri. Árið 1974 réðst Helgi Jónsson frá Herríðarhóli á Rangárvöllum til hennar sem vinnumaður og bjó hann á jörðinni fram til dauðadags í janúar 1997, þegar hann hrapaði til dauðs niður í Merkigilið.
Ég fór norður með Jóa og félögum í hitteðfyrra, hafði ekki tök á að fara í fyrra, en tók því fagnandi þegar Jói lét vita af því að fyrir höndum væri ferð norður í Merkigil. Vitaskuld er upplifunin alltaf mest að koma á þessan stað í fyrsta sinn. Þarna áttar maður sig svo vel áþví við hvaða aðstæður fók bjó við fyrr á árum. Einangrun bæjarins var ekki rofin fyrr en árið 1961 þegar áin var brúuð. Fram að því þurfti að sækja alla aðdrætti yfir gljúfrið sem liggur í fárra kílómetra fjarlægð til norðurs frá bænum. Íbúðarhúsið á Merkigili er ekkert venjulegt íbúðarhús á einhverri venjulegri jörð. Það er tvílyft með kjallara undir því að hluta til. Það er rúmgott bæði á jarðhæð og á lofthæðinni. Það sem gerir húsið sérstakt að dvelja í er að þarna fær maður tilfinningu fyrir því erfiði sem Monika og dæturnar þurftu að leggja á sig til að geta haldið heimili þarna. Allt efni í húsið (sement, járn, timbur, steypustyrktarjárn, gler, eldavél, baðkar, hurðir og annað sem nöfnum tjáir að nefna var flutt yfir gilið á hestum. Það var þvílíkt erfiði að hestarnir þoldu einungis tvær ferðir á dag. Möl og sandi sem þurfti í steypu og pússningu var mokað upp í poka hér og þar meðfram árfarveginum og flutt heim á hestum. Þannig mætti áfram telja. Sökum þessarar sögu er mun áhrifameira að dvelja í þessu húsi heldur en í einhverju öðru venjulegu húsi.
Við komum norður á föstudgaskvöldið. Ég var ekki kominn fyrr en langt gengið í eitt um nóttina þvþi ég sat ársþing samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um daginn og var seinn fyrir. Við gegnum út að gilinu um morguninn í góðu veðri, tókum myndir og spjölluðum. Við þekktumst ekki allir áður en það skiptir ekki máli því við svona aðstæður hristast menn fljótt saman. Síðdegis fórum við inn að Ábæ og fórum síðan á kláfnum yfir að Skatastöðum þar sem Flúðasiglingar leggja upp í siglingar niður Jökulsá eystri. Um kvöldið borðuðum við sannkallaðan hátíðakvöldverð sem félagarnir hristu fram úr erminni á augabragði og drukkum göfug vín með. Við vorum snemma uppi á sunnudagsmorgun og vorum komnir af stað upp úr kl. sjö þvi við ætluðum að fara út í Drangey og þurftum því að vera komnir tímanlega norður að Reykjalaug á Reykjaströnd fyrir utan Sauðárkrók. Við lögðum af stað í góðviðri en smá rigningu. Þegar við komum út fyrir Sauðárkrók reif hann sig upp með suðvestan spænu. Við hittum þá sem eru í forsvari fyrir Drangeyjarferðum út við Reykjalaugina. Þá kom í ljós að við Viggó, sonur Jóns Drangeyjarjarls, höfðum setið hlið við hlið á fundinum í Reykjaskóla á föstudeginum. Þeir feðgar sögðu að í þessari átt og í svona hvössu væri ófært út í eyna því rokið stæði upp í víkina þar sem væri lent. Þó við kæmumst út væri ekki öruggt að það væri hægt að sækja okkur aftur. Því var hætt við allar Drangeyjarferðir að sinni og ekið sem leið lá suður. Fínni helgi var lokið og maður er strax farinn að vona að síðasta helgi í ágúst verði laus að ári.

Engin ummæli: