þriðjudagur, september 27, 2005

Tók hefðbundinn hring í hverfinu í dag eftir vinnu. Góð hreyfing og nokkrir svitadropar féllu.

Dagurinn í dag er dagur sem verður minnst í sögunni, dagurinn sem Davíð Oddson hætti formlega í stjórnmálum. Hér á árum áður þótti mér ekki mikið til DO koma þar sem ég lagði mat á hann af mínum litla sjónarhól. Það var hefðbundið mat svokallaðra vinstrimanna hér á árum áður. Sú skoðun mín hefur breyst. Að mínu mati er hann einn merkasti stjórnmálamaður Íslands á seinni áratugum og jafnvel þótt lengra væri leitað. Ég vil taka það fram að ég þekki hann ekkert persónulega og hef aldrei tekið í hendina á honum. Þetta er rétt að komi fram á dögum hinna miklu samsæriskenninga.

Oft er það þegar DO ber á góma að menn einhenda sér í að leita að göllunum og því sem miður fer í fari hans. Frekur, einráður, skapbráður o.s.frv. Að mínu mati á að fyrst og fremst að horfa á kostina, þeir skipta meiru máli en gallarnir því þeir vega meir þegar upp er staðið. Því verður ekki á móti mælt að þjóðfélagið hefur gjörbreyst á þeim tíma sem DO hefur setið í stjórnarráðinu. Ekki vegna þess að hann hafi verið að stjórna öllu og öllum af miklum viturleika heldur vegna þess að hann hafði ákveðna framtíðarsýn (vision) í sinni stjórnmálastefnu og beitti kröftum sínum og áhrifum til að láta hana verða að veruleika. Það mættu fleiri taka eftir.

Skarpskyggni DO kom fram í viðtölum sem höfð voru við hann í dag þegar hann var inntur eftur Baugsmálinu. Að hans mati er það eina sem skiptir máli í þessu sambandi hver útkoman verður úr dómsmálinu. Vitaskuld er það rétt. Annað skiptir ekki máli því menn verða að treysta dómskerfinu í þessu máli eins og öðrum.

Sjaldan hafa menn skotið undan sér báðar lappirnar eins og Baugsmiðlar gerðu í gær þegar DV birti forsíðufrétt um meint forhold Styrmis og Jónínu Ben. Það breytti málinu í grunsvallaratriðum í huga margra. Skyndilega voru allir tölvupóstarnir sem höfðu farið á milli þeirra orðnir að koddahjali í stað þess að vera partur af margslunginni og mafíulyktandi samsærisatburðarás.

Í annan kant ofbauð fólki að DV skyldi ekki víla fyrir sér að slengja fram órökstuddum fullyrðingum og öllum óviðkomandi um einkalíf fólks. Þar átti að skjóta svo fast að ekki væri undan vikist eða upp staðið eftir það. Það er svo sem við öllu að búast úr þessari átt. Ág hef áður bent fólki á að fletta svokölluðum bókum eftir Mikael Torfason á bókasafni eða í verslunum. Ég ráðlegg engum að kaupa þær ólesnar. Hörðu spjöldin eru að mínu mati það eina sem gerir það að verkum að hægt er að kalla þennan samsetning bók.

Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á frammistöðu "fréttamanna" RÚV í þessu sambandi. Þeir brugðust ekki í þessu máli frekar en í svo mörgum öðrum. Alla helgina gerðu þeir ekki annað en að lesa upp úr Fréttablaðinu þegar fjallað var um Baugsmálið. Sjálfstæð greining virtist ekki vera fyrir hendi á neinn einasta hátt. Þó fór að örla á því í dag að sjálfstæð vinnubrögð væru viðhöfð í fréttamennskunni, líklega þegar ljóst var að það væri ekki óskeikult að elta Baugsmiðlana svo langt út í fenið að það vatnaði yfir nefið. Meir að segja var slökkt á farsímanum hjá Bónus Jóhannesi í Miðjarðarhafinu.

Styrmir var hrakinn svo út í horn að hann átti einskis úrkosta en að svara af fullri hörku. Í ljós hefur komið að hann átti eitt og annað uppi í erminni. Skyldi Baugsmenn vera farnir að sjá eftir að hafa egnt óbilgjarnan? Það versta við þetta mál allt saman er það að öllum líkindum er þetta scenario sett á svið til að hafa áhrif á vinnu og niðurstöðu Hæstaréttar. Keyra átti umræðuna um samsæri innstu manna í Sjálfstæðisflokknum svo hart fram að það yrði ekki tekið mark á niðurstöðu Hæstaréttar ef hann félli Baugsmönnum í óhag. Helst átti að hafa áhrif á dómarana sjálfa.

Fékk ábendingu í dag um að það væri erfitt að skrifa á comment í blogginu. Fór því inn í Settings og setti allar stillingar þannig að auðveldara á að vera að senda aths. inn á bloggið. Kemur í ljós hvort það hafi dugað.

Engin ummæli: