fimmtudagur, september 22, 2005

Það setti að mér hroll í morgun þegar ég renndi yfir Moggann. Í gær hafði verið samþykkt tillaga vinnuhóps um tónlistar- og ráðstefnuhús við Hafnarbakkann. 12 milljarða skulu herlegheitin kosta. Ég sé ekki annað en allt tiltækt fólk sem getur gert bygginguna sem íburðarmesta og glæsilegasta sé dregið á vettvang til að leggja hönd á plóginn. Ég vona að gæðin standi undir væntingum enda er það ekkert mál eþgar nógir peningar eru til staðar en 12 milljarðar. Mogginn tekur heljarstökk af kæti og leggur alla forsíðuna undir fréttina sem jafnast á við heimsstyrjöld eða gríðarlega náttúruhamfarir. Leiðarinn er ekkert nema jákvæðar útlistanir á herlegheitunum. Svo langt er gengið þar að hann jafnar þessu mannvirki á við óperuhúsið í Sidney. Minna má það ekki vera. Samkvæmt því sem ég hef heyrt er húsið byggt í einkaframkvæmd (ok með það) og ríki og borg komi til með að borga 600 milljónir á ári í 35 ár. Í upphafi var farið af stað með kostnaðaramma upp á 8,5 milljarða en tillagan sem valin var kostar 12 milljarða og hún var bara valin si svona. Enda þótt árlegt framlag Austurbakka hækki ekki þá get ég ekki annað meint en að úr því teygist þá í annan endann þannig að vitaskuld borgar verkkaupi brúsann. 600 milljónir x 35 eru yfir tuttugu milljarðar ef ég reikna ekki skakkt.

Að byggja hús í einkaframkvæmd og greiða árlegt framlag til verktaka (eiganda hússins) er í eðlis sínu ekkert öðruvísi en að taka lán og greiða það upp á sama tíma. Hvoru tveggja eru skuldbindandi samningar nema einkaframkvæmdasamningurinn er miklu fastbundnari en bankalán. Sá er munurinn að í lok uppgreiðslutíma lánsins þá á lántakandi húsið en í lok samningstíma getur verkkaupi (leigutaki) átt rétt á að kaupa húsið. Jákvæðar hliðar þessa fyrirkomulags eru hins vegar þær að með árlegum fastbundnum greiðslum sem ekki er hægt að hnika þá verður viðhaldi hússin sinnt eins og þarf að gera. Hvorki ríki né sveitarfélög hafa á undanförnum áratugum almennt sinnt viðhaldi húsa eins og þarf að gera sem oft hefur leitt af sér meiri viðhaldskostnað en ella. Má nefna Þjóðminjasafnið sem gott dæmi um afleiðingu þessarar stefnu.

12 milljarðar í stofnkostnað. Það eru gríðarlegir fjármunir. Ég var í Helsingfors um daginn. Þar hljóp ég fram hjá Síbelíusarhúsinu og Óperuhúsinu. Hvorutveggja húsin eru fallegar byggingar enda finnar frægir fyrir góðan arkitektúr (annað en má segja um íslenska arkitekta upp til hópa). Þessi hús voru ekkert yfirþyrmandi í útliti heldur glæsileg hús í ákveðnu látleysi. Óperan finnska kostaði 12 milljarða íslenskra króna og var mjög umdeild vegna kostnaðar. Finnar eru milli 5 og 6 milljónir talsins. Segir það okkur ekki eitthvað um stærðargráðu á kostnaði við þessa byggingu sem fyrirhugað er að reisa á Austurbakka. Danska ríkið og Kaupmannahafnarborg forgangsröðuðu ráðstöfun fjármuna á þann veg að bygging nýs óperuhúss var látið bíða. Þar kom að gamli eigandi Mærsk Air byggði það fyrir eigin konto. Gott hjá honum en það segir svolítið um kostnaðinn.

Í allri umfjöllun Moggans var mjög lítið fjallað um kostnað við bygginguna og ekkert um rekstur hennar. Það er gagnrýnivert að fá ofbirtu í augun af aðdáun á svona byggingu og gleyma alveg að fjalla um hvað hún kostar. Ég er ekkert að efa að húsið verði glæsilegt. Þó nú væri fyrir alla þessa peninga. Ég get hinsvegar ómögulega fallið í stafi af aðdáun eingöngu vegna þess. Samkvæmt þeim myndum sem ég hef séð finnst mér tillaga Klasa vera fallegri og stílfegurri en sú sem valin var. Það er svo sem ekki að marka því ekki hef ég séð nánari útlistun en þetta er fyrsta tilfinning. Hvað skyldi kosta að gera klárt fyrir byggingu hússins með uppkaupum á húsum, sjávarfyllingum og annað sem til þarf? Vitaskuld þykir mörgum það vera útnesjalegt að vera að tala um kostnað þegar listageirinn er í hátíðarskapi yfir að sjá langþráðan draum rætast. Það má hins vegar ekki gleymast að þessir peningar eru teknir úr vörum skattborgara og því er það er réttur þeirra að hafa skoðun á þessu máli, jafnvel þótt þær þyki bjálfalegar.

Í forystugrein Moggans er gerður samanburður við óperuhúsið í Sidney. Það er mjög flott eftir myndum að dæma. Það er hins vegar ekki sjálfgert að menn nái álíka árangri eins og Ástralir enda þótt hvergi sé til sparað. Sérstaklega skyldi smáþjóð varast að vera að sperra sig til að ná þangað sem fæstir hinna stóru hafa náð.

Það setur ætíð að mér hroll þegar maður fær orðaleppa framan í sig eins og: "Höll tónlistarinnar verði hús fólksins" og "Hlýlega vafinn í straumanna arm" Þegar svona orðaval er á ferðinni er hætta á ferðum.

P.S. Eru listdansarar ekki búnir að vera í mótmæladansi fyrir utan menntamálaráðuneytið allan þennan mánuð vegna fyrirhugaðrar lokunar lisdansskóla ríkisins sökum fjárskorts?

Engin ummæli: