miðvikudagur, september 21, 2005

Renndi yfir blöð helgarinnar í morgun. Á forsíðu Fréttablaðsins á laugardaginn var mynd af þremur manneskjum sem mér fannst ég kannast við. Við nánari íhugun sá ég greinilega ákveðna samsvörun úr Njálu. Sá sem var lengst til hægri er greinilega Gunnar á Hlíðarenda. Sítt, flaxandi ljóst hár og þokkalegt skegg og hæfilega töffaralegur svarar til þeirrar myndar sem maður gerir sér af Gunnari. Kvennagull og nokkuð kærulaus. Í miðjunni er Njáll. Alvörugefinn, hvöss augu og snyrtilegt hár bendir til þess að hér sé á ferðinni hugsandi maður sem nágrönnunum finnst gott að sækja ráð til. Lengst til vinstri er Hallgerður Langbrók. Það fer ekki á milli mála. Sítt ljóst hár, hvikul augu og ótraustur munnsvipur gerir það að verkum að manni finnst Hallgerður vera ljóslifandi komin. Þarna er sem sagt þríeykið úr Njálu komið í boði VR. Hvar skyldu Bergþóra og Skarphéðinn vera?

Baugsmálinu var vísað frá dómi í dag. Á hvað skyldi það vita? Er málatilbúnaðurinn ekki betri eftir þriggja ára rannsóknir og undirbúning? Ég er hræddur að það myndi eitthvað gerast hjá fyrirtækjum á verðbréfaþingi ef frammistaða starfsmanna væri í þessum dúr. Fróðlegt verður að sjá hvernig Hæstiréttur tekur á málinu.

Í fylgiblaði Moggans á sunnudaginn er talað við tvær manneskjur sem eru sammála um að það sé ekki heppilegt að ungt fólk sem hefur hug á frama í stjórnmálum alist upp innan stjórnmálaflokkanna. Nú eru vafalaust til tvær hliðar á þessari umræðu en skyldi sú tilviljun skipta máli í afstöðu þeirra að bæði hafa ekki unnið innan stjórnmálaflokka nema um mjög skamma hríð. Ætli væri ekki alveg eins hægt að finna fólk sem teldi það alveg nauðsynlegt fyrir fólk sem hyggur á stjórnmálaþátttöku að vera virkt innan stjónmálaflokkanna frá unga aldri? Ég skil ekki alveg hvaða tilgangi svona málflutningur þjónar.

Engin ummæli: