mánudagur, september 26, 2005

Tók daginn frekar snemma og hélt niður í Laugardal eftir að hafa keyrt Jóa og félaga hans til Hafnarfjarðar til að keppa í handbolta. Hitti Bryndísi, Helgu og Guðmann í sundlaugarhúsinu. Hópurinn var frekar fámennur þar sem margir úr Vinum Gullu eru að keppa í Berlín í dag. Bryndís var búin að stilla númer Huldar og Sibbu inn á gemsann hjá sér og var mjö0g spennt og þær stöllur báðar. Við vorum komin áleiðis út í Húsdýragarð þegar fyrsta bíbbið heyrðist. Í símanum stóð að Huld hefði lokið hlaupinu á 3.19.30. Frábært. Við fögnuðum öll yfir þessum góða árangri. Svo var haldið áfram og rétt inn við Glæsibæ heyrðist næsta bíbb. Sibba hafði lokið hlaupinu á 3.22.15. Glæsilegt hjá henni þar sem hún hafði haft frekar þröngan tíma til að æfa fyrir hlaupið.

Þetta er náttúrulega frábært að geta fengið úrslitin senda svona heim í hús til sín á sömu stundu og farið er yfir marklínuna. Ég skoðaði vef hlaupsins í kvöld. Fljótlega gafst ég upp á að finna alla íslendingana en nokkra sá eg sem hlupu á góðum tímum. Þarna sjá menn hvernig á að standa að svona hlaupi, árangur 40.000 manna kominn inn á netið samdægurs.

Við hlupum sem leið lá yfir í Fossvog og svo út í Nauthólsvík í frábæru haustveðri. Þar skildu leiðir, ég hljóp til baka þar sem ég var frekar tímabundinn en þau fóru yfir á Snorrabraut og þaðan til baka í laugarnar.

Baugsmálið heldur áfram. Ég sé eftir því sem sagt hefur verið ekki annað út úr því sem sagt hefur verið en að loks hafi Jónína fundið einhevrn sem vildi leggja henni og Sullenberg heilt í viðskiptum þeirra við Baugsfeðgan Eftir að hafa farið bónleið til búðar til Ingibjargar Sólrúnar, Stefáns Jóns og Sigmundar Rúnars þá vildi loks einhver hjálpa henni. Það er greinilegt eftir umræðunni að dæma að Baugsmiðlarnir vilja gera úr þessu eitt allsherjar Davíðssamsæri. Hallgrímur Helgason fór mikinn í Talstöðinni í dag og kallaði lygarar út í allar áttir en þó sérstaklega til Styrmis. Stundum verða menn ótrúverðugir ef þeir gusa of hátt í grunnu vatni.

Gaman verður að sjá hvort það fæst skýrt hvernig Baugsmiðlarnir komust í tölvupóst Jónínu. Hún fullyrti víst í fréttum að það hefði verið gert í gegnum Og Vodafón kerfið. Þeir harðneita öllu eðlilega. Það er náttúrulega stóralvarlegur hlutur ef menn geta farið í tölvugögn manna í gegnum inside kerfi ef einstaklingar eru í viðskiptum við eitt eða annað símafyrirtæki. Mér finnst að Ágúst Ólafur Ágústsson ætti að gefa þessum möguleika smá athygli en menn vilja eðlilega dreifa umræðunni um hvernig hægt var að stela tölvupóstum Jónínu. Öryggi tölvukerfa skiptir almenning og fyrirtækin í landinu miklu.

Engin ummæli: