sunnudagur, september 11, 2005

Fór í morgun niður í Laugardal og hitti vini Gullu. Þar eru flestir á miklu róli að gera sig klára fyrir Berlínarþonið sem verður eftir hálfan mánuð. Annað hvort foru félagarnir að fara sinn síðasta langa túr eða byrjaðir á niðurtalningunni. Gaman verður að fylgjast með þeim mikla hóp sem fer þarna út því Berlínarbrautin er ein sú hraðasta sem um getur. Þar setti Sigurður P. sitt magnaða íslandsmet sem enn stendur og ætlar hann að hlaupa afmælishlaup í Berlín í tilefni þess (20 ára memorian). Það verða nú einhverjir röskir strákar að fara að taka þessi met sem þeir Sigurður P. á í maraþoni (tuttugu ára gamalt) og metið hans Sigfúsar í 10 km (sem er að verða 30 ára). Ég er frekar þungur eftir lágan prófíl í sumar en mér virðist sem stjórn FM ætli að flytja haustmaraþonið á sinn gamla stað og þannig verður ekki undan vikist að koma sér í eitthvað form fyrir það. Megi gott á vita.

Fékk fyrstu niðurstöður úr rannsókninni sem ég tók þátt í í tengslum við WS 100 í vor. Ég var í íbóprófen flokknum og tók sex töflur á leiðinni en svo var einnig samanburðarhópur sem tók engin lyf. Blóðprufa var tekin fyrir og eftir hlaup. Mér sýnist að fyrstu niðurstöður sýni að íbúprófen flokkurinn hafi komið verr úr. Það hafi verið meiri hætta á slæmum eftirköstum og ástand skrokksins verið verra en hjá þeim sem tóku engin lyf. Ég hef ekki náð að skoða þetta að fullu en fer betur yfir það eftir helgina.

Hlustaði á föstudagskvöldið á kastljósið í sjónvarpinu þar sem rætt var við þrjá einstaklinga. Oft er það nú svo að svona spjall er út og suður eins og gengur og situr ekki mikið eftir af því sem sagt er. Þó er það nú svo að þegar fólk í ábyrgarstöðum kemur í svona þætti þá gerir maður meira með það sem það segir en aðrir. Í þessum þætti var varaformaður VG. VG stefnir að því eins og aðrir stjórnmálaflokkar að komast í ríkisstjórn og hafa áhrif á stjónun landsins. Ég verð bara að segja það að það setur að manni ugg við tilhugsunina um að fólk eins og þessi varaformaður komist til valda. Mér fannst bullið í henni vera þannig allann þáttinn. Eina sem hún sagði og ég var sammála var þegar hún lýsti því yfir að hún hefði ekki mikla reynslu í pólitík og þekkti þess vegna ekki svo mikið til ákveðinna mála. Manni datt þá í hug spurningin hvers vegna varð hún þá varaformaður? Var enginn skárri til?. Hún fjasaði mikið um símasöluna og var náttúrulega alfarið á móti henni. Hún sagði að sala Símans hefði verið eins og einhver hefði tekið hrærivélina hennar og látið hana fá brauðrist í staðinn!!! Bíddu nú hæg. Tók einhver eitthvað frá henni? Er ekki síminn á heimili hennar ennþá? Ef maður notar heimilstækjafræðina til útskýringar þá er hrærivélin í fullum gangi og góðu ásigkomulagi hjá henni áfram en hún er búin að fá brauðrist til viðbótar sem hún átti ekki áður en vantaði sárlega. Þannig lítur það alla vega út í mínum huga.

Í mörgum þróunarríkjum Afríku var það útbreidd skoðun eftir að þau fengu sjálfstæði undan nýlenduherrunum að einstaklingarnir í landinu ættu hver sinn skerf persónulega af eigum ríkisins. Víða var síðan gengið í skrokk á ríkisfyrirtækjum og einstaklingarnir sóttu meintar eigur sínar og eyðilögðu þar með áður ágæt fyrirtæki. Mér hefur símaumræðan hjá ákveðnum hópum einkennst af þessu viðhorfi og þar með er þessi varaformaður talinn. Ýmsir sögðu fyrir sölu símans; "Ég persónulega á minn hluta í símanum af því hann er ríkisstofnun". Í mínum huga er þetta alrangt. Eigur þjóðríkisins eru ekki eigur einstaklinganna sem byggja þjóðríkið hverju sinni heldur ríkisins meðan það starfar. Með símasölunni er verið að losa gríðarlega fjármuni úr eignum ríkisins sem hægt er að nota til að greiða niður skuldir (mjög skynsamlegt), hraða framkvæmdum sem ella hefðu þurft að bíða og í þriðja lagi til að forða skattahækkunum eða leiða til skattalækkana.

Mér finnast stjórnmál snúast í höfuðdráttum um að sumir álíta sem svo að þeir hafi meira vit á því heldur en almenningur hvernig launum þeirra er varið á meðan aðrir líta svo á að einstaklingurinn sé best hæfur til að ráðstafa sínum peningum sjálfur. Annars vegar eru háskattaflokkar og hins vegar eru lágskattaflokkar. Þá er ég að ganga út frá skattheimtu sem er umfram það sem þarf til að reka þá grunnþjónustu (menntun, heilsugæslu, samgöngur og félagsþjónustu) sem er viðtekin almannaþjónusta hér og í okkar nágrannalöndum. Menn verða að átta sig á því að loforð stjórnmálamanna um aukna þjónustu ríkis eða sveitarfélaga (oft til handa þröngum hagsmunahópum) kalla á hækkun skatta hjá hinum almenna launþega, hvort heldur eru beinir eða óbeinir skattar. Það er nefnilega afar auðvelt að vera gjafmildur á annarra manna peninga.

Sveinn hélt upp á tvítugsafmæli sitt í gærkvöldi og bauð skólafélögum sínum og vinum til samsætis hér heima. Áætlaður hópur var í upphafi nokkuð stór eða um fjörutíu manns. Síðan gerist það að margir hringdu og spurðu hvort félagi eða vinur mætti koma með og Sveinn svaraði því vitaskuld játandi. Að sögn viðstaddra var húsið svo stappfullt á tímabili að beita þurfti lagni til að ganga um. Við komum heim tæplega tvö og þá voru krakkarnir að tínast út. Þó þau hafi verið að smakka bjór þá sást varla vín á nokkrum manni það maður sá. Enginn hafði komið með sterkt vín með sér eftir tómum umbúðum að dæma. Umgengni og framkoma var til slíkrar fyrirmyndar að betra verður ekki á kosið. Gaman að fá svona magnaða krakka í heimsókn. Ég er hræddur um að það hefði verið eitthvað annað uppi á teningnum við svipaðar aðstæður þegar maður var á svipuðum aldri sjálfur. Þá höfðu unglingarnir ekki aðra möguleika en að drekka rótsterkt brennivín sem gerði alla meir og minna vitlausa. Ég held að tilkoma bjórsins hafi verið ein jákvæðasta kulturbreyting sem hefur átt sér stað hérlendis um mjög langan tíma. Ég hvet alla sem lesa þetta til að rifja upp reglulega hvaða alþingismenn voru á móti því að lögleiða bjórinn á sínum tíma og sitja enn á þingi.

Engin ummæli: