þriðjudagur, september 13, 2005

Úrslit norsku þingkosninganna lágu fyrir í morgun. Stjórnin féll og vinstri- og miðflokkarnir fengu meirihluta. Þeir völdu þann skynsamlega kost að bjóða fram sameiginlegan valkost. Þetta hafa vinstri menn aldrei viljað gera hérlendis til að útiloka ekki þann möguleika að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem er svo sem allt í lagi. Menn verða hins vegar að vera samkvæmir sjálfum sér í þessu sem öðru. Jens Stoltenberg bíður erfitt hlutskipti að halda þessum hóp saman. Hann stóð sig svo sem ekki sérstaklega vel þegar hann leiddi ríkisstjórn á þar síðasta kjörtímabili, hrökklaðist frá eftir verstu útreið kratanna nokkru sinni. Þó verð ég að óska honum til hamingju með að þurfa ekki að díla við Maóistana. Það hlýtur að vera versta martröð hvers alvöru stjórnmálamanns að eiga pólitískt líf sitt undir slíku liði. SF tapaði einnig verulegu fylgi sem gerir þá ekki eins fyrirferðarmikla og ella hefði orðið.

Heyrði viðtal í kvöldfréttunum við fyrrverandi þingmann miðflokksins (kona) sem fáraðist mikið yfir því hve konum fækkaði á þingi í kosningunum. Hún féll út, væntanlega vegna þess að kjósendum fannst þeim standa aðrir betri valkostir til boða. Framfaraflokkurinn sem lítur ekki á neina fléttulista fékk 25% fylgi og er stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hér heima hefur einnig ætíð keyrt þá stefnu að það sé gildi einstaklingsins sem eigi að ráða á röðun í sæti á framboðslistum en ekki kynferði. Hann hefur verið stærsti flokkur landsins áratugum saman. Veit ekki hvort þetta sé einhver vitnisburður um ágæti fléttulista eða ekki en það segir mér alla vega það að það er ekki eingild söluvara að reyna að ganga í augun á kjósendum með einhverjum trixum. Nú heyrir maður að ungir væntanlegir stjórnmálamenn vilji setja upp fléttulista með ungum (og þá væntanlega óreyndum fyrst viðhafa þarf sérstaka aðferð við að tryggja þeim sæti á listum) í öðru hverju sæti. Mér finnst þetta bera keim af því að þeir sem telja sig ekki eiga sjens í opinni samkeppni vilji engu að síður ná sínu fram eftir trixleiðinni með stöðugum áróðri og málæði um nauðsyn þess að hafa vit fyrir kjósendum.

Í Finnlandi er allt önnur leið valin við kosningar. Í kjörklefanum er listi yfir frambjóðendur hvers flokks og er þeim raðað í stafrófsröð. Hver frambjóðandi hefur sitt númer. Kjósendur skrifa númer þess kjósenda á kjörseðilinn sem þeir vilja að sé kosinn hvort sem er heldur til sveitarstjórnar eða þings. Þannig ákveða kjósendur hverjir komast að en ekki einhverjar klíkur eða þrýstihópar þeirra sem telja sig ekki standast almenna samkeppni.

Fundur í 100 km félaginu í kvöld hjá Ágústi og Ólöfu í Kópavoginum. Höskuldur Kristvinsson var tekinn í félagið með pompi og prakt og þó vonum seinna. Hann hljóp 100 km í Lapplandi sumarið 2003 en það fór ekki hátt svo enginn í félaginu vissi af því fyrr en í vor. Hann bætti síðan um betur og hljóp 100 mílur í Bandaríkjunum í vor. Við bárum saman bækur okkar um líkamlegt ástand, áætlanir komu fram um átök komandi mánaða og missera og síðan voru sagðar sögur úr hlaupum. Ég sýndi myndir frá WS og er gaman að rifja þessa mögnuðu upplifun upp enn einn ganginn. Hugur er í félagsmönnum og bar í því sambandi Þingstaðahlaupið á góma sem fer fram um næstu mánaðamót svo og möguleiki á að halda 6 tíma og 12 tíma hlaup hérlendis.

Engin ummæli: