sunnudagur, október 09, 2005

Er að hlusta á fróðlega umræðu í útvarpinu um PISA rannsóknir. Eitt að því sem kemur út úr PISA rannsóknunum er hve íslenskir nemendur eru miðjusæknir. Fáir sem standa sig mjög illa en ekki margir sem eru framúrskarandi. Það kemur mér ekki á óvart. Mér hefði komið á óvart ef niðurstaðan hefði verið öðruvísi. Það er reynt að hlú að þeim sem eru seinfærir en hinir sem eru næmir og bráðþroska eru frekar látnir eiga sig og sjá um sig sjálfir. Ég er ekki búinn að gleyma foreldrafundinum haustið 2000 þegar kennarinn tjáði okkur frá vandamáli sem kom upp í skólanum veturinn áður og tengdist Jóhanni Reyni Gunnlaugssyni. What?? Jú hann var kominn ári á undan jafnöldrum sínum í stærðfræði þegar hann kom að norðan um miðjan vetur og það var skilgreint sem vandamál af skólanum. Síðan var hann settur í þvinguna þar til hinir krakkarnir voru búnir að ná honum. Ég verð enn reiður út í sjálfan mig fyrir aðgerðaleysið þegar ég hugsa um þetta.

Ekkert hlaupið í morgun en í staðinn var farið í góðan hjólatúr. Ég var með myndavél með og reyndi að ná í restina af haustlitunum meðfram hjólastígunum.

Stundum verður maður mjög undrandi. Nú er það stóra bindismálið sem vekur undrun manns. Þingmaður talaði í þinginu í síðustu viku í beinni útsendingu án þess að hafa bindi. Hann hafði hins vegar ekkert fram að færa í ræðu sinni annað en innantóma frasa. Það skipti ekki máli því hann var miðpunktur umræðunnar vegna bindisleysisins. Viðtöl og frásagnir. Bindislausi þingmaðurinn var í Silfri Egils í dag. Hvað annað þótt hann hefði ekki mikið til málanna að leggja umfram almennt hjal. Alltaf finnt mér Einar Oddur góður. Rökfastur og lætur ekki frasaliðið koma sér úr jafnvægi.

Stjórnmálamenn nota ýmsar aðferðir til að koma sér á framfæri. Sumir eru bindislausir en það er undantekning. Sumir þingmenn hafa mótaða framtíðarsýn fyrir þróun þjóðfélagsins og fylgja henni eftir með rökum og umræðu. Aðrir reyna að afla sér fylgis með því að auka hag einhverra á kostnað annarra með því að lofa einhverjum hópum samfélagsins því að hagur þeirra verði bættur annaðhvort með auknum fjárveitingum til ákveðinna verkefna eða með því að eitthvað verði ókeypis sem áður kostaði. Skattgreiðendur borga. Það er alltaf gott að greiða fyrir hlutina úr annarra manna vösum. Ég las í sumar grein í Dagens Nyheter (sænskt dagblað) sem gekk lengra en flest sem ég hef séð í þessum efnum. Þar skrifaði sósialdemókrati lærða grein um nauðsyn þess að samfélagið (skattgreiðendur) færi að greiða konum laun fyrir að vinna heimilisstörf. Rökin voru þau að konur ynnu tvöfalda vinnu og fengju ekkert borgað fyrr aðra vinnuna. Það var ekkert minnst á að karlar legðu neitt til heimilisstarfa í þessu samhengi. Kannski er það svo í Svíþjóð. Ég veit það ekki. Skyldi eiga að fara að greiða körlum laun af almannafé fyrir að mála húsið sitt utanhúss eða gera við bílinn? Gaman verður að vita hve mörg ár líða þar til verður farið að brydda á því í umræðunni hérlendis að nauðsynlegt sé að greiða konum laun fyrir heimilisstörfin af sköttm almennings.

Las í Lesbók Morgunblaðsins í morgun frásögn um ótrúlega reynslu systrahóps í Hafnarfirði þar sem geðsjúkur og brjálaður faðir beitti þær kynferðislegu ofbeldi árum saman. Kerfið brást í heild sinni enda þótt allir sem vildu vita vissu hvað átti sér stað. Þetta gerist á árunum frá ca 1970 og fram yfir 1980. Ég man eftir því þegar ég flutti til Svíþjóðar haustið 1980 þá las maður iðulega umræðu í sænskum blöðum um kynferðislega misnotkun á börnum. Maður velti fyrir sér hvort þetta væri ekki til á Íslandi þar sem engin umræða var um þessa hluti í fjölmiðlum. Síðar kom vitaskuld á daginn að þetta var heldur betur til staðar. Þegar hugsað er til baka og maður leggur saman tvo og tvo tel ég víst að ég þekki álíka dæmi eins og sagt var frá í Hafnarfirði og kannski fleiri en eitt þar sem þolendurnir eru á mínum aldri.

Engin ummæli: