fimmtudagur, október 13, 2005

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu í kjölfar viðtala við þær Hafnarfjarðarsystur. það er vel því kannski fær það einhverja sem málið varðar til að átta sig betur á því að í slíkum tilvikum á að láta hagsmuni barnanna ráða för. Ýmsir svokallaðir fréttamenn sem eru að hamast á barnaverndarnefndum ættu að hugsa um þá hlið mála einstaka sinnum. Það væri framför. Ég minntist nýlega á myndina Rokkað í Vitulla sem ég keypti í Helsingfors og gerist í Pajala í norður Svíþjóð. Ég sagði að hún væri skemmtileg en það er hún alls ekki nema að hluta. Sumar senur í henni eru óborganlegar en aðrar eru tragiskar og sýna dökku hlið samfélagsins sem er þar eins og annarsstaðar. Myndin fjallar um uppvöxt tveggja stráka sem kynnast barnungir og eldast og þroskast saman. Annar kemur frá eðlilegu heimili en hinn er barinn með belti allan uppvöxtinn. Pabbinn er geðsjúklingur á vissan hátt og heldur fjölskyldunni í ótta og undirgefni með barsmíðum og ofbeldi. Þegar Nilli sonur hans sem barn smíðar sér eftirlíkingu af gítar og síðar þegar hann kaupir sér ódýran kassagítar þá brýtur pabbinn þá og brennir því hann vill ekki að strákurinn sé að spila djöflamúsík. Síðan er það nýr tónlistarkennari og rokkmúsíkin sem meðal annars losar um þessa fjötra. Strákarnir synir hrottans stækka og eitt sinn þegar þeir eru úti í skógi að saga tré þá ætlar hann að taka þá í gegn út af einhverjum smámunum. Þeir snúast aftur á móti varnar og berja hann í klessu. Þaðan í frá eru það þeir sem ráða. Viðbrögð hrottans við því eru að hann brotnar saman, hættir að vinna og verður að niðurbrotnum vesaling. Þannig er með flesta þá sem níðast á börnum, yfirleitt eru þetta aumingjar sem leka í duftið þegar tekið er á þeim.

Davið Oddson hélt sína síðustu landsfundarræðu í kvöld. Hann skaut föstum skotum í þær áttir sem honum fannst hæfa og er það viðeigandi við þessi tímamót. Hann hefur ekki setið á átakalitlum friðarstóli heldur hefur hann haft skýra stefnu og framfylgt henni hvað sem á hefur dunið. Það er einkenni foringja í stjórnmálum að móta stefnu með félögum sínum og fylgja henni. Sá sem æðir áfram stefnulaus eða hleypur til allra átta eftir því sem köllin berast tapar fljótt áttum og villist í þokunni.

Fundur var í Framsóknarfélagi Reykjavíkur í kvöld. Fundurinn var átakalaus og fór vel fram en þeim mun meir var unnið og talað í aðdraganda fundarins. Lykilatriði er ef flokkur vill ná árangri í stjórnmálum að einstaklingar geti tekist á málefnalega og virði jafnframt ákveðnar leikreglur. Sé það gert standa menn ósárir upp eftir að hafa tekist á. Ef þessar línur eru ekki virtar og einstaklingar fara að berast á banaspjótum í leðjuslag persónuníðsins þá tekur slíkt aldrei enda því takmörkin eru engin. Í slíkum atgangi tapa allir og flokkurinn mest.

Las í dag frásögn Kim Rasmussens frá Spartathlon hlaupinu þar sem hann náði 10. sæti fyrir skömmu. Hann notaði 5:1 taktikina eða að hlaupa í fimm mínútur og ganga í eina mínútu frá og með 20 km. Hann sagðist hafa ekki kennt sér neins meins eða stirðleika í fótum í hlaupinu og þakkaði það þessari taktik. Ég hef séð að bandaríkjamenn eru sérstaklega hrifnir af þessari aðferð. Ég nota þetta mikið á löngum æfingum og er alveg óhræddur við að ganga nokkur skref inn á milli. Gangan virkar eins og teygjur því áreynslan á vöðvana er allt öðruvísi. Á 140 km í Spartathlon eða þar um bil er hækkunin um 800 metra. Lýsing hans á þessum hluta leiðarinnar er eins og að ganga á Esjuna og klettarnir þar með taldir og síðan er brattinn svipaður beint niður hins vegar. Kim sofnaði tvisvar á leiðinni eða í 15 mín hvort skiptið. Hitinn var mestur um 25C en það rigndi mikið inn á milli. Þetta tókst hjá honum en það er ekki sjálfgefið. Hann hefur þrisvar klárað hlaupið en einu sinni dottið út. Kunnugir segja að keppendur verði að klára 100 km vel undir 10 klst til að vera tilbúnir að taka þennan slag.

Tók góðan hring í hverfinu síðdegis. Ætlaði vestur um helgina en fresta því vegna veðurs. Skoða næstu helgi en þá er haustmaraþonið!! Æ,æ.

Engin ummæli: