sunnudagur, október 02, 2005

Fór í morgun yfir í Elliðaárdal að hitta félagana við startið á Paraþoninu. Pörunum hafði aðeins fækkað vegna veikinda og svoleiðis. Veðrið var eins og best var á kosið á þessum árstíma, logn og svalt. Eftir startið hjólaði ég út í Nauthól til Halldórs og Péturs sem stóðu vaktina með sóma við að gefa hlaupurunum drykk. Mikil umferð skokkara var á stígunum í morgun.

Á aðalfundi FM í gærkvöldi var rætt um fyrirkomulag og fjölda hlaupa á vegum á vegum félagsins. Nærstaddir gerðu góðan róm að því að viðhalda sama fjölda og verið hefur. Það er gott mál. Með því brautarfyrirkomulagi sem síðustu hlaup hafa verið hlaupin eftir er fyrirhöfnin á drykkjarstöðvum í lágmarki sem skiptir verulegu máli. Stjórn FM ámiklar þakkir skildar fyrir það framtak og kraft sem þeir sýna að halda þessum hlaupum gangandi síðla vetrar og haust (og paraþonið til viðbótar). Það hefur án efa haft hvetjandi áhrif á marga sem eru að byrja að takast á við maraþonvegalengdir. Ég þekki það bara á sjálfum mér að það skipti bæði miklu máli að hafa tækifæri til að geta hlaupið maraþon oftar en tvisvar á ári og einnig og ekki síður skipti félagsskapurinn miklu máli. Svo er einnig um aðra það ég veit. Störf FM hafa vafalaust verið undirstaðan að þeirri miklu fjölgun maraþonhlaupara sem hefur átt sér stað á liðnum árum.

Náði ekki að sjá paraþonfólk koma í mark því ég þurfti að ná í Jóa upp að Esju en MRingarnir gengu á Esjuna í dag. Notaði tækifærið og gekk langleiðina upp að Steini og hljóp svo niður. Fyrsta Esjuæfing frá því snemma í júní. Hitti forseta ferðafélagsins í miðjum Esjuhlíðum. Hann er hefur tekið forystustarf í Ferðafélaginu föstum tökum enda ekki ókunnugur viðfangsefninu. Það virðist vera svo að ef mann langar til að hitta einhvern kunnugan án fyrirvara þá er næsta öruggt að ganga á Esjuna skilar árangri.

Maður veltir fyrir stundum fyrir sér hvort engar kröfur séu gerðar til fólks sem tekur að sár þáttastjórnun í sjónvarpinu (ef hægt er að kalla það því nafni). Eftir kvöldfréttir á laugardögum eru hljómsveitir fengnar til að spila í sjónvarpssal og er það svo sem í lagi. En að hafa einhverja manneskju í kringum þetta sem á að heita stjórnandi eða ég veit ekki hvað sem er að reyna að spyrja einhverra spurninga og er gjörsamlega óhæf til þess að mínu mati, það er í einu orði sagt skelfilegt að horfa uppá. Af hverju er ekki hægt að láta hljómsveitir spila án þess að skemma það með þessum ósköpum?

Mér likar vel hvernig Geir Haarde tekur á Öryggisráðsmálinu. Hann ætlar ekki að draga framboðið til baka til að halda friðinn en hann ætlar ekki að eyða neinum fjármunum í þetta sem neinu nemur (sem er þó of mikið). Sem betur fer ætlar hann að stoppa diplomatana í að vera að flengjast um heiminn að skrifa upp á stjórnmálasambönd við einhverjar okkur allsendis ókunnugar og óviðkomandi þjóðir sem koma aldrei til með að skipta okkur neinu máli. Ég hef aldrei séð ljósið í þessu máli og vona að það fái tiltölulega farsælan endi eftir því sem hægt er úr þessu.

Engin ummæli: