föstudagur, október 07, 2005

Þingstaðahlaupið á morgun. Við förum alla vega fjórir, ég, Pétur R., Halldór G, og Alfreð Jungfraufari. Það lítur vel út með veður, bjart og stillt og ekki of kalt. Vegna morgundagsins var ekkert hlaupið í dag.

Gleymdi mér um stund í dag undir lok vinnu við að skoða heimasíðu vestan af fjörðum eða nánar tiltekið frá Gistiheimilinu að Breiðuvík í hinum gamla Rauðasandshreppi (www.breidavik.net). Hjónin Birna og Keran reka þarna gistiheimili og búskap og hafa gert um nokkurra ára skeið. Þau halda úti fréttasíðu á heimasíðu sinni þar sem gefið er ágrip af amstri hversdagsins með skemmtilegum myndum. Það er gaman að fá innsýn í daglegt líf þessa fólks sem maður þekkti hér á árum áður og kannast svo sem við ennþá. Gistiheimilið í Breiðuvík er vel sótt af gestum enda aðstaðan þar alltaf að batna og stækka. Einnig eru Guðjón og Mæja í Hænuvík að byggja upp gistiaðstöðu hjá sér og sögðu þau mér um daginn að gistináttafjöldi hefði nær tvöfaldast hjá þeim milli ára. Þetta er duglegt fólk sem bjargar sér vel.

Heyrði skemmtilega hugmynd í dag sem á rætur sínar að rekja til Ítalíu. Hún gengur út á að gera Vestfirði eins og þeir leggja sig að einum þjóðgarði. Láta línuna liggja úr Gilsfirðinum þar sem styst er yfir á Strandir. Þjóðgarðurinn myndi njóta ákveðinna forréttinda svo sem möguleika á að fara með ferðamenn í sjóstanga veiði á rýmri kvótareglum en annarsstaðar gerðist og einnig yrði minni skattlagning á áfengi sem selt væri á svæðinu og gerðar ráðstafanir til að matsölustaðir gætu selt vöru sína eins ódýrt og hægt væri. Á Vestfjörðum búa um 8.000 manns eða um 2,7% þjóðarinnar. Skatttekjurnar eru því ekkert sem munar um í heildina. Ríki og sveitarfélög þyrftu að taka höndum saman um ýmis grundvallaratriði sem varðaði skipulagningu og struktur á svæðinu. Hugmyndin er fengin frá Ítalíu þar sem ákveðið jaðarsvæði þar sem búa 6.000 manns var gert að slíkum þjóðgarði. Svæðíð býr við ákveðin forréttindi og Evrópusambandið veitti fjármagn til að byggja upp infrastruktur svæðisins. Nú heimsækja svæðið um 1,5 milljónir manna á ári. Líklega yrði stærsti þröskuldurinn öfund og innri togstreyta. En hverju hafa menn svo sem að tapa? Á sameiningarfundinum í Tálknafirði á dögunum voru allir sammála um að íbúum svæðisins heldur áfram að fækka að óbreyttu. Það er ekkert í augsýn að óbreyttu sem kemur í stað samdráttar í fiskveiðum og landbúnaði. Þetta er skemmtileg hugmynd sem gaman væri að ræða nánar við áhugasama. Orð eru til allra hluta fyrst. Það héldu allir að íbúarnir í Jykkesjarvi norður við Kiruna í Svíþjóð væru orðnir vitlausir þegar þeir fóru að ræða um að byggja snjóhótelið. Nú er það ein öflugasta túristadæmi í Svíþjóð og þó víðar væri leitað. Það á aldrei að slá brjálaðar hugmyndir út af borðinu að óathuguðu máli.

Halló! Ég er Johnny Cash verður á Grandrokk á sunnudagskvöldið. Kallinn Johnny Cash er einn af þeim sem ég hef uppgötvað á nýjan leik á síðustu árum. Maður hlustaði á San Quinten plötuna með honum hér áður fyrr og þá var það afgreitt. I walk the Line og A Boy Named Sue.......... Ég hef keypt milli 20 og 30 plötur með honum á undanförum árum og ekki orðið fyrir vonbrigðum með eina einustu. Kannski eru einhverjar misgóðar en allar þess virði að eiga þær. Síðustu plöturnar eru hrein gersemi þar sem hann situr í sæmd sinni og gefur hverja plötuna út á fætur annarri og hver annarri betri. Textarnir hafa komið mér verulega á óvart. Umhverfismál, mannréttindabarátta, málefni indíána, söguleg kvæði og ástarkvæði til konu sinnar, þetta er allt þarna. Johnny Cash átti lengi í vandræðum með dóp og annan óþverra. Síðan tók hann sig á og hélt sér við beinu brautina og ástæðan var: I walk the line, because you are mine.........

Engin ummæli: