sunnudagur, október 02, 2005

Fór niður í Laugardal í morgun og hitti hinn fjölbreytilega hóp Vini Gullu. Berlinarfararnir Sibba og Hálfdán voru þar misánægð með frammistöðuna. Sibba bætti sig vel og náði fínum árangri, sérstaklega miðað við þann stutta tíma sem hún hafði til undirbúnings. Hálfdán var ekki eins glaður og lýsti dramatískum afleiðingum þess að hlaupa á vegginn. Hann sagðist hafa dottið niður á kílómeter 35 - 37 og átti í miklum erfiðleikum þaðan í mark. Ástæðuna fyrir þessum hörmungum taldi hann vera of litla drykkju og einnig hafði hann engan viðbúnað vegna steinefna. Það var frekar heitt og menn þola hitann misjafnlega. Mér hefur aldrei liðið eins illa í nokkru hlaupi eins og í Búdapest en öðrum hefur aldrei liðið eins vel og þar. Hitinn þar var milli 23 - 25 C og sterk sól. Það var ekki hlaupið langt í morgun eða ca 15 km í þéttum rigningarsudda.

Sá á norska ultravefnum kondis.no að Spartathlon fór fram á föstudag og laugardag. Spartathlon er hlaupið milli Spörtu og Aþenu. Hlaupið er á götum, það er 245 km langt og hækkun er 1100 metrar (3500 fet). Cut off er 36 klst. Af þeim 240 sem hófu keppni komust 100 í mark undir tilsettum tíma. Kim Rasmussen frá Danmörku og Eiolf Eyvindssen frá Noregi, sem voru báðir meðal keppenda í WS í júní, tóku þátt í hlaupinu. Kim varð 10. með tíma um 30 klst og er sá fyrsti sem klárar WS og Spartathlon á sama árinu. Eiolf þurfti að hætta eftir 150 km þar sem hann átti í vandræðum með bólgur í öðrum fætinum. Hann þarf ekkert að sanna á þessum vettvangi þar sem hann hefur klárað hlaupið þrisvar áður. Ætla að hafa samband við hann bráðlega varðandi undirbúning og annað sem hann hefur reynt á þessum vettvangi.

Bibba tileinkar mér bloggið sitt í gær og er búin að hugsa lengi. Hún fjallar þar um bleikt og blátt ásamt fleiru í kjölfar þess sem ég skrifaði um Pink í sumar. Nú verður maður að vanda sig!!

Ég sé að það hefur verið ákveðinn misskilningur á ferðinni hjá mér þegar ég lagði út af hugrenningum hennar um Pink Ladies. Ég hafði Pink í huga í tengslum við baráttu feminista um jákvæða kynjamismunun og allt það tuð sem ég er mjög ósammála en ég sé að Bibba hefur verið að meina bleika litinn hennar Barböru Cartland. Það finnst mér flott. Bleiki liturinn hefur verið of lítið í umræðunni á þeim forsendum á seinni árum, alla vega það ég hef séð.

Þegar maður ræðir við feminista eða kvenréttindakonur um kynin og stöðu þeirra þá segir maður varla meiri vitleysu að þeirra mati en þegar maður segir að munurinn á kynjunum sé genetiskur en ekki uppeldislegur. Þær halda því gagnstæða fram, sem sé að uppeldið hafi því sem næst allt að segja um hugsun og eðli kynjanna. Því sé það þannig að ef stúlkur eru ekki klæddar í bleikt í barnæsku þá finnist þeim bleikur litur ekkert tilheyra konum frekar en körlum svo dæmi sé nefnt. Mín skoðun er aftur á móti að kynin séu í eðli sínu mjög ólík, sem betur fer. Ég er ekki með því að segja að annað sé betra en hitt. Þau hafa vitaskuld hvort sín karaktereinkenni sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í þó ýmis dæmi mætti nefna.

Mér finnst því mjög flott að lesa það að Bibba macho sem hleypur maraþon með blöðru undir mestallri ilinni, fer í þríþraut með góðum árangri og dembir sér í hjólreiðakeppni með körlunum af því henni rann í skap, skuli eiga sínar ánægjulegustu minningar frá afmælisdegi þegar fjölskyldan bauð henni upp á bleikt og blúndur, kerti og konfekt og góða (kannski Barböru Cartland) sögu. Þetta styður enn frekar mínar fyrri kenningar um að kynin séu í eðli sínu ólík og það beri að virða og meta. Með hliðsjón af þessu þá finnst mér nafngiftin Pink Ladies vera fínt nafn á keppnissveit kvenna á Grænlandi þar sem það er ekki tilvísun í baráttu feminista fyrir jákvæðri kynjamismunum heldur undirstrikar að þrátt fyrir löngun og áhuga meðlimanna til að takast á við erfiðar æfingar og þreytu, erfiði, svefnleysi og átök í keppninni sjálfri til að ná ákveðnum árangri, þá séu þær ekki búnar að afneita sínu innra kvenlega eðli, finnst bleikur litur æðislegur og Barbara Cartland bara ágæt í bland.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Held þú sért bara búin að ná þessu bleika (allt nema Barbara Cartland :)

Nafnlaus sagði...

Já, ég þakka hrósið, Gunnlaugur. Vissi að þú mundir vera sammála mér í eðli þínu ;)