Tók 8 km Yasso æfingar í dag. Fín keyrsla, fór á 4.04/km tempói. Fann aðeins til í hægri fætinum þegar á leið en það var allt í þessu fína. Ég held að ég þurfi að fara að hlaupa meira af styttri keppnishlaupum til að byggja upp keppnisandann og hækka sársaukaþröskuldinn. Kemur í sumar.
Það var fín sumardagsinsfyrsta hátíð í Víkinni í gær. Fullt af fólki, gott veður og góð skemmtun. Í fyrra féll þessi samkoma niður en þá átti að stefna öllum í hverfinu niður í Laugardal. Það gekk náttúrulega ekki upp og sumardagurinn fyrsti var afar kollóttur það árið. Sem betur fer var til fólk sem gaf sér tíma til að vinna nauðsynlegan undirbúning og gekk í málið. Merkilegt sem ein konan sagði mér, því mest voru þetta konur sem gengu í málið. Hún sagðist hafa verið að hringja út og biðja foreldra þeirra barna sem æfa með Víking að baka köku og koma með í kaffið. Flestir tóku þessu vel en of margir voru með hundshaus og sögðust sko alls ekki ætla að baka ofan í eitthvað pakk úr öðrum hverfum sem væri að koma og éta og drekka fyrir ekki neitt. Í okkar ágæta hverfi sem er gegnumsneitt vel megandi er alltaf eitthvað af egóistum sem skilja ekki hvað svona félagsstarfsemi gengur út á. Einnig eru alltaf einhverjir sem reyna að smokra sér undan því að borga æfingagjöldin fyrir krakkana sína. Ég myndi leggja mikið undir að það er ekki fátækasta fólkið í hverfinu. Kannski það séu þeir sömu sem ekki nenna að baka köku fyrir sumardaginn fyrsta.
Ég kunni ekki við það að þegar leið á samkomuna birtust sendiboðar frá ákveðnum stjórnmálaflokki og fóru að dreifa áróðri. Sendiboðarnir voru á þeim aldri að maður gat ekki verið að amast við þeim persónulega en ég tel mig vita nokkuð upp á víst að það var ekki beðið um leyfi fyrir þessu. Mér er sama hvaða flokk er um að ræða en þetta er ágengni sem pirrar mig og eg hefði lagst gegn að leyfa þetta ef þetta hefði verið lagt fyrir stjórnina.
Það er ekki ósjaldan sem maður verður bit á þessu liði sem kallar sig fréttamenn og maður verður að borga laun hvort sem maður vill eða ekki. Í gærkvöldi var álnarlöng umfjöllun (það er ekki hægt að kalla þetta svo virðulegu nafni sem frétt) í kvöldfréttum og varðaði eitthvað erlent fólk sem hafði ekki fegnið kennitölu á börnin sín og kom þeim því ekki í leikskóla. Umfjöllunin gekk öll út á að fólkið hafði verið beitt rangindum óg starfsfólk Útlendingastofnunar væri af meinbægni eða fjandsemi við útlendinga að gera þeim erfitt fyrir. Langt viðtal var við pabbann um það ranglæti sem hann taldi sig vera beittann af hálfu kerfisins hér. Í dag kom náttúrulega í ljós að þetta fólk hafði ekki lagt fram umbeðnar upplýsingar og hafði þar af leiðandi ekki staðið sína plikt. Það er eins og menn haldi að það sé hægt að mæta hingað með allt óklárt og fara síðan bara í útvarpið ef allt gengur ekki eins og þeir vilja. Það er alveg hægt í þessu sambandi að rifja upp ruglið á Ísafirði sl. haust þegar bæjarstjórnin þar var gerð að blóraböggli fyrir að fólk fékk ekki afgreiðslu í kerfinu vegna þess að það lagði ekki fram umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir síendurtekin tilmæli þar um, meðal annars með hjálp túlka. Þar fóru þessir svokölluðu fréttamenn út um allar koppagrundir án þess að hafa hugmynd um hvað þeir voru að fjalla um. ef þa er eitthvað sem pirrar venjulegt fólk þá er það svona rugl sem er dælt yfir mann úr fjölmiðlum. Ég þekki alveg hvaða viðbrögð íslendingar fengju á hinum Norðurlandanna ef þeir vildu komast inn í kerfi þarlendra án þess að hafa tilskilin gögn. Þeim væri sagt að hypja sig heim hið snarasta ens og eðlilegt væri. Það væri sko ekki boðið upp á nein viðtöl í þarlendum útvarpsstöðvum.
Ég hlustaði á frambjóðendapistil á RÚV í dag á brettinu. Frambjóðandinn talaði mikið um traust, að segja satt og að það væri hægt að treysta mönnum. Hann sagðist vera traustsins verður. Síðan tiltók hann tvö dæmi um nauðsyn þess að standa við orð sín og gera sér grein fyrir staðreyndum. Hann vitnaði í fyrsta lagi í umfjöllun Fréttablaðsins þar sem blaðið gerði úttekt á svokölluðum kosningaloforðum flokkanna og endurtók umsögn blaðsins að stjórnarflokkarnir hefðu ekki staðið við loforð sín. Nú gerði Fréttablaðið þann regin fingurbrjót í þessari umfjöllun að það setti samasem merki á milli ályktana landsfunda flokkanna og stjórnarsáttmála. Samþykktir landsfunda eru stefnumörkun en ekki sáttmálí. Í stjórnarsamstarfi gera menn síðan samkomulag um það sem hægt er að ná saman um. Það er stjórnarsáttmáli og þar er hægt að leita að þvi sem staðið hefur verið við og því sem ekki hefur verið gert. Alþýðubandalagið sáluga, sem þessi frambjóðandi var eitt sinn meðlimur í, gerði t.d. úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins aldrei að úrslitaatriði í sjórnarsamningum enda þótt stefna þess efnis væri undirstrikuð á sérhverjum landsfundi flokksins. frambjóðandinn gerði heldur ekki greinarmun á stefnumótun landsfunda og stjórnarsáttmála en hefði þó átt að vita betur.
Í öðru lagi sagði hann nauðsynlegt að stjórnendur viðurkenndu stöðu mála hverju sinni en reyndu ekki að stinga höfðinu í sandinn varðandi staðreyndir og tiltók matinn í mötuneytinu sem dæmi. Þessi ágæti frambjóðandi hélt því fram statt og stöðugt á síðasta ári að allt væri í lagi í rekstri sem hann kom nálægt enda þótt tapið á rekstrinum væri slíkt að maður getur varla náð utan um fjárhæðirnar nema með því að umreikna þær í einbýlishús af dýrari taginu eða dýrustu Landcruser bíla. Segið svo að það sé ekki gagn að því að hlusta á útvarpið.
föstudagur, apríl 20, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli