mánudagur, apríl 23, 2007

Tók góða æfingu með vinum Gullu á sunnudagsmorgun í fínu veðri. Tuttugu km komu í hús og allt eins og það á að vera. Ætla að fara frekar stuttar æfingar næstu tvær vikur til að vera ekki að byggja upp þreytu. Kláraði að ganga frá gistingu í dag á Borgundarhólmi.

Það er svolítið fróðlegt að fylgjast með umræðunni sem fer fram eftir að húskofinn brann í Austurstræti í síðustu viku. Sjálfskipaðir besservisserar um meint menningarverðmæti húsa hafa farið mikinn og rætt um nauðsyn þess að endurbyggja húsið í sinni upprunalegu mynd til að við halda götumyndinni. Maður veltir fyrir sér því Rimmugýgi Skarphéðins er ekki endursmíðuð ekki í leiðinni fyrst verið er að byggja upp brunarústir. Það er þó einn og einn maður sem vogar sér að vera á annarri skoðun og er það vel. Ég hef aldrei verið hrifinn af þessum húsakumböldum í Lækjargötunni og Austurstrætinu. Þetta fyrirkomulag að hafa þarna lágreista tréhúsabyggð leiðir af sér að þarna verður aldrei neitt af fólki að ráði. Starfsemin í þessu húsi sem brann var svo sem ekki heldur af bestu sortinni ef það er rétt sem maður heyrir. Það verður aldrei iðandi mannlíf við svona aðstæður eins og maður sér víða í miðbæjum erlendis. Í miðbæ þurfa að vera háreist hús þar sem mikið af fólki vinnur. Fyrirtæki og þjónustustofnanir eiga að vera staðsett í miðbænum. Það komast fleiri fyrirtæki fyrir í stórum húsum en litlum húsum. Það er einfalt mál. Ef menn vilja vernda þessi hús sem eru vafalaust mjög langt frá upprunalegri mynd eftir að það hefur veruð tjaslað við þau á margvíslegan hátt þá er hægt að flytja þau til og koma þeim fyrir á húsaeilliheimili. Tillaga Hrafns Gunnlaugssonar um að setja þessi hús niður í Hljómskálagarðinum er svo sem alveg ágæt. Þau eiga allavega að vera annarsstaðar en í hinum svokallaða miðbæ sem ekki er hægt að segja að standi undir nafni að neinu leyti. Maður á aldrei erindi þarna niður eftir. helst að það sé hlaupið í gegn á sunnudagsmorgnum.

Fréttaflutningurinn af brunanum var síðan dálítið sérstakur. "Gallinn þinn er bara sótugur" sagði einn fréttamaðurinn þegar hún var komin í algera spurningaþröng og tíminn ekki liðinn sem þurfti að fylla út. Það var ekki laust við að það örlaði fyrir smámonti. Miðbærinn brennur. Það er bara eins og í stóru löndunum.

Bæði í gær og í dag hef ég heyrt vísað í Maó formann þegar fólk er að hvetja til framþróunar og nýsköpunar. "Látum þúsund blóm spretta" er boðorð dagsins. Ætli sé verið að vísa í Stóra stökkið þegar allir áttu að fara að bræða járn í bakgarðinum? Maó var nú ekki betri ræktunarmaður en svo að tæplega 40 milljónir manns sultu í hel í Kína á árunum um og fyrir 1960. Heilu héruðunum var lokað með hervaldi til að fréttir af þessum ósköpum bærust ekki út og kusk félli á kommúnistaflipann. Fæðuskorti var ekki útrýmt úr Kína fyrr en markaðsvæðingin hélt innreið sína og slaknaði á alræði kommúnistanna. Blóm Maós voru nú ekki saðsamari en svo. Mér finnst alveg með ólíkindum að sæmilega skynsamt fólk skuli vitna í kenningar Maós án þess að blikna eftir að allir sem vilja vita eiga að vera upplýstir um þau voðalegheit sem áttu sér stað í Kína undir stjórn Maós. Ætli það hafi ekki verið um ein milljón manns sem voru drepin á tímum rauðu varðliðanna fyrir utan þá tugi eða hundruð milljóna sem lentu í ólýsanlegum hörmungum vegna ákvarðana Maós. Hvað ætli yrði sagt ef maður færi að vitna í Hitler á framboðsfundum alveg blákaldur og væri bara stoltur af því?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég segi bara Amen!, við því sem þú segir um brunarústirnar niður í bæ.

Kveðja Halli.

kókó sagði...

Hva, ferðu aldrei á rúntinn og færð þér ís? Það gerir ótölulegur fjöldi á sunnudögum og á sumardaginn fyrsta var rúnturinn með líflegasta móti.
Hetjudýrkunin fór yfir markið að mínu mati.

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Það er bara miklu styttra fyrir mig í aðrar ísbúðir.