sunnudagur, apríl 01, 2007

Það sér á að það er komið vorveður. Maður sér á bloggsíðum hlaupara að þeir eru eins og kálfar út um allar koppagrundir, kátir yfir að vera sloppnir undan vetrinum (í bili að minnsta kosti). Fór Poweratehring með Grensássslaufu á föstudagskvöldið í frábæru veðri. Í gærvar fyrirhuguð 8 brekku æfing (reyndar eru þetta 9 brekkur þegar betur er að gáð). Ásgeir og félagi hans Jósep komu með okkur Jóa en Halldór lá veikur heima. Við lögðum upp frá Fossvogsbotninum upp úr kl. 8.00, fórum síðan sem leið lá yfir Kópavogshálsinn, upp brekkuna við Fífuna, síðan aftur til baka yfir Kópavoginn og upp tröppurnar, niður þær og upp HK brekkuna. Síðan lá leiðin yfir Fossvoginn og upp að Réttarholtsskóla. Þaðan niður í Elliðaárdalinn og upp að sunnanverðu og brekkan tekin sem liggur ská upp undir Breiðholtið. þaðan fórum við stíginn neðan undir Breiðholtinu yfir á göngustíginn fyrir neðan kirkjuna og inn að brúnni. Á leiðinni með Fáksvellinum dró Steinar okkur uppi og spjallaði um stund en síðan sagði hann hæversklega að hann þyrfti að halda æfingunni áfram og hvarf eins og fugl flygi. Víð fórum nokkrun númerum of hægt fyrir hann. Á leiðinni niður í Elliðaárdalinn ittum við Pétur Reimarsson sem sagði sínar farir ekki sléttar með slitinn vöðvaþráð í kálfa. Félagi Jói var með síma svo Pétur gat hringt eftir aðstoð. Við maraþon upphafið skildu leiðir, Ásgeir og Jósep héldu heim á leið en við Jói tókum stokkinn upp að mjólkursttöð. Þar sneri Jói við en ég pjakkaði áfram niður í Grafarvog, inn í botn hans og þaðan upp í "Jökulheima" og þaðan svo upp og inn að vatnstönkunum. Síðan hélt ég til baka gegnum Bryggjuhverfið og kom heim 42 km ríkari eftir rúmar fjóra og hálfan tíma. Fínn dagur.

Úrslit Múzíktilrauna voru í gærkvöldi. Öll hersingin fór niður í Listasafn þar sem keppnin fór fram. Það var fullt hús og mikil stemming. Það var svolítið gaman að því að þarna vorum við þrír rauðsendingar sem ttum stráka í hljómsveitum á sviðinu. Við Haukur bróðir vorum með hvorn sinn trommuslagarann og síðan hittum við Alla sem bjó í Saurbæ en sonur hans Ólafur Gísli spilaði á gítar í einni sveitinni. Þau fluttu suður árið 1995 og þá var strákurinn 7 eða 8 ára tappi. Það var gaman að sjá hve margir foreldrar og aðstendendur voru þarna til að horfa á krakkana sína auk fjólmargra unglinga. Jói og félagar í gleðisveitinni <3 Svanhvít urðu í öðru sæti og voru kátir með sinn hlut, stúdíótíma og ýma aðra sæmd. Þeir áttu greinilega slagara kvöldsins og er Óli Palli útvarpsmaður búinn að biðja um að hann verði settur á þrykk sem snarast svo hann geti farið að spila hann.
Ég var búinn að heyra að það voru ýmsir að vona að það yrði ekki harðkjarnahljómsveit sem myndi vinna þetta árið því vonast var eftir einhverri fjölbreytni í sigursveitirnar. Svo fór þó að það var sveitin sem öskraði hæst og óskiljanlegast sem vann. Ég er kannski orðinn og gamall til að hafa gaman af svona löguðu en mér finnst að músík eigi að skemmta og draga að en ekki fæla frá. Salurinn tæmdist að mestu leyti strax þegar ljóst var hverjmir unnu því fólki leist greinilega ekki á að hlusta á ósköpin aftur í aukalaginu. Það voru margar fínar sveitir þarna sem ég fannst að hefðu frekar átt að vinna, t.d. strákar úr Keflavík sem spiluðu þétt og skemmtilegt melódóskt pönkrokk og síðan gleðisveitin <3 Svanhvít sem átti greinilega salinn og slagara kvöldsins. Skemmtilegt kvöld.

Suma einstaklinga á að umgangast af virðingu. Einn þeirra er Cliff Richard. Hann er einn þeirra sem skrifuðu sögu rokksins sem breytti heiminum á sínum tíma. Ungmenni dagsins njóta ávaxtanna af þeirri byltingu. Síðan er kallinn náttúrulega ótrúlegur í útliti að verða sjötugur. Mér fannst stelpan sem talaði við Cliff Richard í Kastljósinu um kvöldið eiga ýmislegt lært í mannasiðum. Hún spurið Cliff með fyrirlitningarsvip hvort þetta væru ekki mest "elderly women" sem kæmu á tónleikana hjá honum. Cliff svaraði því að ljúfmennsku og fagmennsku eins og hans er von og vísa. En þó að svo væri. Hvað hefur einhver stelputrunta efni á að setja upp fýlu- og merkilegheitasvip yfir því þótt fullorðið fólk fari á tónleika? Ég veit ekki betur en "elderly women" hafi sama rétt á að skemmta sér og hún og henni kemur nákvæmlega ekkert við hvernig þær gera það. Varla eru þær að skipta sér af henni og hennar skemmtanalöngun. Ef eldri konur flykkjast á tónleika með Cliff Richard þá er það bara fínt.

Engin ummæli: