Tók 10 m Yasso æfingu í Laugum í gær. Planið heldur enn, + 0,2 í viðbót á hverri æfingu. Það er samt töluvert í að ég nái Ívari enn en það kemur. Þá fer ég að róa mig aðeins niður og minnka hröðunina á æfingum.
Stundum er maður dálítið hissa á því sem maður heyrir. Nú ætlar ríkið að setja 160 milljónir í að útrýma mink á Eyjafjarðarsvæðinu og Snæfellsnesi. Þetta finnst mér skrítin pólitík. Sveitarfélögin ráðstafa nú um 100 millj. króna að halda refa- og minkastofninum í skefjum. Af því mun ríkið endurgreiða um 35 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007. Því eru 160 milljónir miklir peningar í þessu samhengi, í verkefni sem virðist vera gagnrýnivert á margan hátt. Í fyrsta lagi skil ég ekki hvernig er hægt að eyða mink af ákveðnum svæðum því minkurinn er með fjóra fætur. Hann kom á Rauðasandinn árið 1963, gangandi og syndandi. Þannig mun minkurinn leita á ný inn á þau svæði þar sem lögð er mikil áhersla á að fækka honum. Ég hef ekki trú á að það sé hægt að útrýma honum nema með gríðarlegum kostnaði. Annað mál er að halda stofninum í skefjum eins og fært er. Mikilvægt í því sambandi er að fjölda sjálfveiðandi gildrum sem ætti að leggja sem víðast í læki og ár. Ég heyrði einhverja bull umræðu um daginn að minkurinn ætti sama rétt og aðrir á að vera drepinn með mjög snyrtilegum hætti. Hvað er verið að tala um? Skjóta hann í skotklefa í sláturhúsi eins og kýr eða kindur? Ætli hann verði ekki drepinn hér eftir eins og hingað til með byssum, hundum, í gildrum og með skóflum. Það er einnig mjög andhælislegt að kostnaðurinn við að vernda fuglalífið fyrir tófu og mink skuli að mestu æelyti vera lagður á herðar þess fólks sem býr í fámennum sveitarfélgögum út um dreifðar byggðir landsins. Hvaða réttlæti er í því að 410 íbúar Skútustaðahrepps skuli einir bera kostnaðinn að mestu leyti af því að vernda fuglalíf Mývatnssvæðisns sem er þekkt víða um heim fyrir fjölbreytni en íbúar höfuðborgarsvæðisins sleppa því sem næst alveg?
Sjálfskipaðir umhverfisverndarforystumenn minnast aldrei einu orði á eitt stærsta umhverfisslys af manna völdum sem fyrirfinnst hérlendis en rétt er að minnast á í þessu sambandi. Það gerðist eftir að refurinn var friðaður á Hornströndum. Hann hefur algerlega útrýmt mófugli þar í friðlandinu og eins bjargfugli af stórum svæðum í fuglabjörgunum. Ég þekki þetta af eigin raun. Ég fór fyrst um Hornstrandir árið 1976 og þá vall spóinn þar á hverri þúfu en tófan sást ekki frekar en annarsstaðar þar sem veiðum var sinnt. Ég fór síðan um strandirnar á hverju sumri á árunum 1994 - 1999. Þá hafði skipt um. Það sást ekki mófugl en hvein í tófunni um allt. Hún dreifir sér síðan út um alla Vestfirði og er langt komin með að útrýma rjúpunni í fjórðungnum. Ragnar í Reykjafirði sagði mér eitt sinn að þá um vorið hefði hann verið slæmur í fæti og lítið komist en skaut um 30 tófur af tröppunum hjá sér. lengi deildu vísindamenn og bændur um hvort tófan færi út um allt af Hornströndum. Þeir fullyrtu að tófan væri staðbundin og færi lítið um en bændur fullyrtu hið gagnstæða. Loks fékkst það í gegn að sendar voru settir á tófur og þá kom vitaskuld hið rétta í ljós, tófan flækist um gríðarlega stór svæði. Tófu og mink verður aldrei útrýmt og það hefur heldur aldrei verið stefnan. Á hinn bóginn hefur markmið með veiðum verið að viðhalda ákveðnu jafnvægi. Nú eru einhverjir spekingar farnir að halda því fram að það eigi að láta náttúruna þróast óhindrað og það leiti allt jafnvægis um síðir. Já takk sama og þegið.
föstudagur, apríl 06, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli