miðvikudagur, apríl 18, 2007

Það var ekki sérstaklega spennandi veður þegar við Sigurður komum úr lestinni á Park station í Boston um kl. 6.30 á mánudagsmorguninn. Hvasst og rigning. Það hafði verið ausandi rigning og rok alla nóttina. Paul, félagi Sigurðar sem keyrði okkur á lestarstöðina, sagðist hafa verið mest hræddur um að það hefðu fallið tré á veginn svo hann kæmist með okkur á áfangastað á réttum tíma. Við tókum rútuna uppeftir og alla leiðina hellirigndi og rigninguna skóf eftir veginum. Á leiðarenda komum við okkur inn í íþróttasal og biðum þar. Sem betur fer vorum við snemma í því þar sem salurinn fylltist skjótt og þá var hætt að hleypa inn. Við höfðum hitt tvo hlaupara í lestinni inn til Boston. Annar var frá Kaliforníu og var fölur af ótta við kuldann. Hinn var frá Kentucky og brá sér hvergi þar sem hann var vanur að æfa í -20 oC. Maður rétt náði að hlaupa út á klósett í rigningunni en annars átti maður ekkert erindi út. Ég trúi að ábyrgðaraðilum hlaupsins hafi ekki verið rótt yfir nóttina eins og veðrið var. Um kl. 9.30 fór hins vegar að skúra og stytti alveg upp á milli. Bestu konurnar voru ræstar kl. 9.45 og fyrri stóri hópurinn kl. 10.00. Þeir fengu á sig skúr í upphafi hlaupsins en síðan hékk hann þurr. Ég fór í seinni hópnum og þá var alveg hætt að rigna. Skilin gengu ótrúlega hratt yfir þannig að það var eins og hefði bara verið skrúfað fyrir rigninguna í þann mund sem hlaupið hófst. Það hafði hlýnað nokkuð svo hitinn hékk í 10 oC þannig að það var allt í lagi. Maður týndi af sér fötin eftir því sem nær dró startinu og endaði bara með réttan klæðnað, síðar buxur og léttan vindjakka. Vindurinn var ekki til trafala enda þótt töluverðar vindstrokur kæmu af og til. Ég hafði ekki lagt upp með að vinna nein afrek heldur vildi halda mig í námunda við + 3.30. Ég hitti Kötu þegar hlaupið var nýlega hafið og síðar fór Dagur fram úr mér léttur á fæti. Aðra landsmenn sé ég ekki enda ekki að furða því flestir voru mjög hraðir á minn mælikvarða. Brautin var erfiðari en ég hafði búist við. Hún er óslétt og mikið að brekkum á henni bæði upp og niður. Það kom mér á óvart að eini staðurinn sem ég fann fyrir hlaupinu í fótunum var framan á lærunum eða þar sem haldið er við niður í móti. Maður hefði greinilega þurft að fara nokkrar Esjuæfingar til að standa klár á þessu. Vanalega er mikill fjöldi fólks að horfa á hlaupið eða allt að 500 þúsund manns. Nú var miklu færra meðfram brautinni og spilaði veðrið eðlilega stórt hlutverk í því.
Hlaupið leið áfram eins og gengur. Ég var yst fata í bol sem var merktur með íslenska fánanum og ICELAND. Það kallaði víða fram góð viðbrögð því þeir áhorfendur sem voru meðfram brautinni voru mjög líflegir. Svona einum kílómeter áður en komið var að kvennaskólanum sem er á miðri brautinni heyrði maður skrækina í stelpunum. Þær standa þarna æpandi eins og þær geta best gert og taka þannig virkan þátt í hlaupinu. Að sögn hafa þær vaktaskipti með reglulegu millibili því ella væru þær orðnar ansi hásar þegar á líður. Ópin í þeim eru fyrir löngu orðin partur af hefð Boston maraþons. Það er gaman að svona hefðum. Ég hljóp með röðinni og gaf eins mörgum five og hægt var. Það er ekki á hverjum degi sem maður kemst í slíka stöðu. Ég kunni vel við mig í brekkunum upp og þá skreið maður fram úr mörgum. Þð ganga sögur af Heartbreake Hill á mílu 21 en ég var mest hissa þegar hún var búin; Var þetta ekki meira? Það var í þessu þoni eins og í öðrum, það er ósköp gott þegar hlaupið fer að styttast. Það var gaman að beygja inn á breiðstrætið og sjá markið fram undan. Tíminn var eins og ætlað var, hvorki betri eða verri.
Fram að þessu hafði allt verið eins og átti að vera. Eftir að í markið kom fékk maður nóg að drekka og borða, flagan var tekin af manni og peningur kom um hálsinn. Þá fór maður að huga að fötunum. Þau voru geymd í gulu skólarútunum og voru sætin númeruð með pokahaug í. Nú fóru hlutirnir hins vegar að versna. Það hafði kólnað þegar nær dró bænum og orðið allhvasst í markinu. Maður vildi því flýta sér í þurr för. Svo var einnig um alla aðra. Því var stór hópur blautra og þreyttra hlaupara sem beið fyrir utan hvern vagn eftir fötunum sínum. Ég hugsa að ég hafi beðið í um 20 mín þar til minn poki kom loks. Þá var mér orðið mjög kalt og farinn að skjálfa eins og hundur þannig að ég skipti um föt á miðri götunni og hugsaði um það eitt að komast í þurrt hvað og gekk eftir. Ég fór síðan að staðnum þar sem við ætluðum að hittast og hitti Úlfar skömmu eftir að hann kom í mark. Við skelltum í okkur koníaki enda ekki vanþörf á að fá blóðið til að renna. Við fórum síðan upp á hótel þar sem hópur hinna hraðskreiðu sat. Margir höfðu skilað skínandi tímum. Bæði bætingum og eins mjög góðum tíma miðað við erfiða braut og þungar aðstæður. Valur fór á 2.49 og Gauti á 2.53. Glæsilegastur var hins vegar árangurinn hjá Sibbu og Huld sem bættu sig báðar og eru komnar í hóp bestu maraþonkvenna landsins. Þær eiga ófáar mínútur inni á hraðri braut við góðar aðstæður miðað við ann tíma sem þær náðu í Boston.
Eftir að hafa skellt í mig bjórglasi fór ég að hitta Sigurð. Hann var nýkominn í mark og var ekki nógu sáttur við daginn. Hann hafði kvefast illa strax eftir að við komum út og það tók helsta neistann úr honum. Það er nægt verkefni að hlaupa maraþon frískur þannig að slappleikinn tekur í á langri leið.
Við drifum okkur svo heim með félögum okkar, ánægðir með daginn.

Það tóku nær 30 íslendingar þátt í Boston maraþoni. Árangur þeirra var góður og sumra mjög góður. Nokkrir bættu sig sem er mjög gott á svona erfiðri braut. Allnokkrir hlupu undir 3 tímum. Ég fór á vef hlaupsins og gáði að öðrum norðurlandabúum. Tíu danir tóku þátt í hlaupinu, enginn norðmaður, tveir finnar og fjórir svíar. Enginn þeirra náði að hlaupa undir þremur tímum. Við vorum því með mjög harðsnúna sveit þarna miðað við nágranna okkar.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var flott hjá þér Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með árangurinn og hlaupið Gunnlaugur, glæsilegt hjá þér, sérstaklega m.v. að þú hljópst 42km helgina á undan og já líka takk fyrir skemmtilega frásögn.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju.. magnaður að vanda.

Kveðja Halli