Baldvin Jónsson ásamt fleiri góðum mönnum hefur með atorku og eljusemi tekist að byggja upp athyglisverða hátíð matargerðarlistar hérlendis. Á hátíðina koma meistarakokkar héðan og þaðan úr heiminum og spreyta sig á að gera lystilega rétti úr íslensku hráefni. Það er margt hægt. Hátíðin gengur undir nafninu "Food and Fun" og er það svo sem allt í lagi. Nú hefur einhverjum íslenskufræðingnum verið falið að þýða nafnið yfir á íslensku og út úr því hefur komið skrípisetningin "Fóður og Fjör". Hverjum dettur í hug að nota orðið fóður yfir mat, meir að segja listilega gerðan mat? Maður fóðrar skepnur en fæðir fólk. Það er talað um heyfóður, kjarnfóður, kraftfóður, svínafóður, fuglafóður, fiskafóður, loðdýrafóður og fleira sem dýrum er boðið. Það er nú það fyrsta. Hefur einher heyrt talað um fóðurmeistara í eldhúsi sem tilreiðir mat ofan í fólk? Fóðurmeistari sér um að fóðra svín.
Tölvuorðabókin mín segir t.d. eftirfarandi þegar ég læt hana þýða orðið food:
n: matur k.; matvara kv.; fæða kv.; matvæli h. (ft.)
Maður talar einungis um s.k. mannamat sem fóður þegar um er að ræða næringarlaust ruslfæði eins og skyndibita úr lakari kantinum, pastadót eða annað álíka og þá er fóður alltaf notað í niðrandi merkingu.
Ef íslenska á nafn matargerðarhátíðarinnar þá er það auðvitað í stíl við "Fæða og fjör" ef á að halda stuðlunum eða eitthvað í þeim dúr en látum fóðurmeistarana um að tilreiða fóður ofan í svínin.
föstudagur, febrúar 22, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli