miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Tók 16 km í kvöld, Powerate hringinn og Grensássslaufuna. Þægilegt hlaupaveður en snjóþæfingur.

Íþróttamaður Reykjavíkur hefur nýlokið þáttöku í badmingtonmóti í Íran. Framkvæmd mótsins var dálítið sérstök á okkar vísu. Af því það er erfitt að keppa í badmingtoni í göngutjaldi með útsýnisgati en auðveldara að keppa í stuttbuxum og T shirt þá var karlmönnum meinuð aðganga að höllinni þar sem konurnar kepptu. Það getur riðlað stjórnskipulaginu þar í landi ef karlar sjá í beran kvenmannsfótlegg. Það vildi reyndar svo til að nú nýlega voru tvær ungar þarlendar konur dæmdar til dauða vegna þess að það na´ðist vídéómynd af þeim þar sem þær voru saman í herbergi með tveimur karlmönnum. Ekki var sannað á þær hjúskaparbrot en engu að síður þótti sannað að þær hefðu getað framið það og þá þykir engin refsing hæfilegri en dauðinn með grýtingaraðferðinni. Ef fólk er í vafa um hvernig grýting er framkvæmd þá er það ekki flókið. Viðkomandi er grafinn í jörð upp fyrir mitti. Sá hluti líkamans sem stendur upp úr er vafinn þéttingsfast með laki eða hvitu klæði. Síðan eru steinarnir vandlega valdir því þeir mega ekki vera of léttir því þeir verða að drepa en ekki of þungir því þá tekur þetta of fljótt af. Þegar steinarnir hafa verið valdir þá hefst grýtingin. Fljótlega litast lakið rautt en löng stund líður þar til tekist hefur að sálga manneskjunni. Yfirleitt tekur það ekki skemmri tíma en hálftíma. Með þessum dómsaðferðum eru þarlend yfirvöld að senda konum skýr skilaboð um hvað gerist ef þær svo mikið sem láti sér detta í hug að þær séu eitthvað annað en eign karlanna, skilyrðislaust.
Ég verð að segja það að mér finnt það vera ábyrgðarhluti af íslenskum íþróttayfirvöldum að þeir skuli hafa nokkur samskipti við lönd þar sem svona villimennska viðgengst. Með því að hafa eðlileg samskipti við lönd með svona dómskerfi þá erum við að kvitta undir að okkur finnist þetta bara eðlilegur framgangsmáti. Ég geri ráð fyrir því að fjölmenningarvitarnir segi að þetta sé þeirra menning og þeirra hefðir og þær eigum við að virða. Ég set grýtingar undir sama hatt og smástelpugiftingar, heiðursmorð á dætrum, umskurð, handhögg og annan álíka viðbjóð. Talandi um heiðursmorð þá sé ég í norrænum blöðum að það hefur aukist verulega að ungar konur hoppi út um glugga eða fram af svölum í nálægum löndum. Það er svona svipað og í Afganistan þar sem steinolian hefur verið eini útvegur æ fleiri kvenna úr vonlausu lífi.

2 ummæli:

stefan sagði...

Sæll vinur,

Hvað með kína í sumar ? Ættum við ekki að sniðganga leikana þar. Þar ganga stjórnvöld afar hart fram í kúgun á þegnum sínum.

kv, Stefán Viðar

Nafnlaus sagði...

Það má svo sem minna á að það var hvorki almenn þátttaka í Ólympíuleikunum sem haldnir voru í Rússlandi eða í Bandaríkjunum á sínum tíma. Ekki ætla ég að draga úr mannréttindabrotum í Kína hvorki fyrr né síðar né gera lítið úr þeim gegnum tíðina. Mér finnst það hins vegar að það eigi ekki siður að hugsa sinn gang þegar viðhorfin eru þannig að það verði að halda kynjunum algerlega aðskildum. Er það sú skipan mála sem við viljum? Ég man ekki betur en Suður Afríka væri einangruð í íþróttaheiminum á tímum Aparteid stefnunnar. Það eru hins vegar svo miklir hagsmunir í veði gagnvart olíuheiminum að þar er varast að styggja valdafa. Það sakar hins vegar ekki að tuða.