Það var ekki hlaupið mikið á helginni. Tók 16 km á bretti í Laugum á laugardagsmorguninn. María var að keppa á meistaramóti 15 - 22 ára yfir helgina og ég hef það hlutverk að taka myndir fyrir Ármannsvefinn af mótinu. Það er það minnsta sem maður getur gert. Það er gaman að eiga myndir af krökkunum til seinni tíma. Maður er búinn að fylgjast með mörgum af þessum stelpum síðan þær voru 9 - 10 ára gamlar þegar þær voru að keppa á Gogga mótunum og gaman að sjá að ýmsar eru að þróast í að vera miklar afrekskonur.
María stóð sig vel eins og hennar er von og vísa.
Víkingar spiluðu við Hauka 2 í Hafnarfirði í eftirmiðdaginn og þar steig Jói sín fyrstu spor með meistaraflokki. Nokkur tímamót þótt innkoman væri ekki mjög löng.
Það var þorrablót hjá brottfluttum Patreksfirðingum og Rauðasandshreppsbúum öðrum úr Vestursýslunni í gærkvöldi. Það er alltaf gaman að koma á þessar samkomur. Þær eru að mörgu leyti eins og ættarmót því þarna hittir maður oft gamla vini og kunningja sem maður hélt sjó með fyrir vestan hér áður fyrr á árunum. Þá var allt fullt af fólki, velsæld í samfélönum og mikið að gerast. Sá tími er heldur betur breyttur. Það er því miður ekki bjart útlitið á mínum gömlu heimaslóðum. Fólkinu fækkar alltaf hægt og sígandi og menn sjá engin ráð til að snúa þeirri þróun við. Sömu söguna má segja víða á landsbyggðinni. Maður dregur línuna við mitt Snæfellsnes, norður og austur til Rangárvallasýslu. Undantekning er Eyjafjarðarsvæðið og Mið Austurland. Til að snúa þróuninni við á Austurlandi þurfti 200 milljarða fjárfestingu og Þingeyingar telja að ekkert snúi við þessari þróun við hjá þeim nema álver á Bakka.
Las á helginni bókina Bíbí. Það er orðið frekar óvanalegt að bók grípi mann heljartökum en þessi gerði það svo sannarlega. Sögukona og skrásetjari hafa í sameiningu náð að gera tíðarandann ljóslifandi og segja sögu Bíbíar af mikilli íþrótt. Ég vissi ekki áður að hún væri systir Matta á Fossi í Arnarfirði. Ég man vel eftir honum, Matti var vélamaður og mikið heljarmenni sem dó langt fyrir aldur fram. Lýsingarnar af skyggnihæfileikum hennar eru magnaðar og magnað að svona hæfileikar skuli vera til.
sunnudagur, febrúar 03, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli