Fór 15 km í gærkvöldi í góðu veðri en frekar erfiðu færi. Mánuðurinn er góður, rúmir 300 km eins og ætlað var. Næsti mánuður á að verða um 400 km.
Stjórnaði íbúafundi í Réttarholtsskóla í gærkvöldi. Þar mættu um 50 manns og ræddu umferðarmál. Fólk hefur miklar áhyggjur af aukunni umferð um Réttarholtsveg en við hann stendur m.a. Réttarholtsskóli, leikskóli og heimili fyrir aldraða. Börn úr austurhluta hverfisins þurfa að fara yfir Réttarholtsveg yfir í Breiðagerðisskóla. Flestir foreldrar keyra börnin í skólann því þau treysta ekki umferðinni til að taka tillit til barnanna. Ekkert hefur gerst í málefnum Bústaðavegs í áratugi en hann klýfur hverfið í tvennt eftir langlínunni. Íbúarnir eru orðnir langþreyttir eftir undirgöngum undir götuna en krakkar sem búa ofan Bústaðavegar sækja t.d. íþróttir miklu lakar í Víking en börn sem búa neðan vegar.
Áróðursfulltrúi Múhameðstrúarmanna í USA var enn í útvarpinu í gærmorgun. Hann fullyrti m.a. að jafnstaða karla og kvenna væri alger innan múhameðstrúarinnar. Reyndar gengi það kannski ekki alveg eftir í Afganistan og Pakistan. Það má vel vera en maður spyr sig hvers vegna þessi ágæti maður fer þá ekki til þessara landa og kynnir principin í Kóraninum fyrir þarlendum körlum. Mér sýndist á myndinni sem sýnd var nýlega í sjónvarpinu um stöðu kvenna í Afganistan að það væri ekki vanþörf á að herða upp á principunum þar. Síðan var viðtal við tvær konur í útvarpinu í dag um fundinn sem var haldinn í gær. Allt við það sama, einungis önnur hlið málsins rædd. Það væri kannski ekki úr lagi að rifja upp sumt af því sem konurnar tvær sem komu hingað til lands sl. haust sögðu um Islamistana.
Hola er djúp, turn er hár og vegur er langur. Ég hélt satt að segja að hinn ágæti fréttamaður Sigmundur Ernir hefði þetta á hreinu en hann endurtók ruglið af visir.is frá því í gær í fréttum Stöðvar 2 rétt áðan um löngu borholuna á Hellisheiði. Mér er rétt sama þótt borholan liggi eitthvað á ská niður í jörðina, hún er djúp en ekki löng. Það er talað um dýpi á því sem fer niður í jörðina, það er talað um hæð á því sem rís upp úr jörðinni og það er langt sem liggur eftir jörðinni.
Önnur ambaga. Ritstjóri DV sagði í útvarpinu í morgun: "Svo er það hin hliðin á teningnum". Á mínum teningum eru sex hliðar. Maður segir hins vegar "Svo er það hin hliðin á peningnum" eða "Hin hlið málsins er ....".
föstudagur, febrúar 29, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli