fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Fundur í stjórn íbúasamtakanna í Bústaðahverfi eftir vinnu. Umferðarmálin eru ofarlega á baugi, ekki síst þegar við fáum fréttir af því að íbúasamtökin í Breiðholti eru búin að hanna umferðarmannvirki við Sprengisand sem munu að öllum líkindum auka umferðarþunga á Bústaðavegi. Ef norðurbeygjan á vegamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar verður bönnuð þá mun umferðarþungi á Réttarholtsvegi vaxa. Þannig eru fáir kostir góðir. Við erum að undirbúa íbúaþing sem verður haldið undir mánaðamótin.

Eftir kvöldmat mættu félagar í Fókus í Smáralindina til að hengja upp myndir fyrir ljósmyndasýningu sem verður þar yfir vetrarhátíðina. Hún er á svæðinu fyrir framan Hagkaup. Svart - Hvítt í Fókus. Nítján manns mættu með myndir og komu þeim fyrir. Þetta er svolítið skemmtilegt að taka þátt í svona verkefni því þá fer maður að skoða myndirnar á annan hátt og með gangrýnni augum. Síðan hefur maður sig í að láta stækka mynd sem að öðrum kosti hefði ekki gert.

Ég tók Poweratehringinn og Grensássslaufuna seint í gærkvöldi. Hitti Þórð og við vorum samferða upp að Árbæjarlaug. Hann er að æfa fyrir Boston maraþonið en bar sig ekki vel. Þegar Þórður kvartar þá er eitthvað að. Hann hefur verið að berjast við liðþófaeymsli um nokkura ára skeið sem er farið að leiða til þess að hann misbeitir fótunum og er farinn að fá í bakið. Þórður er hörkutól og hefur sett sér það að fara Boston maraþon. Hann sagðist hafa haldið með Boston Celtics (vona að ég fari rétt með nafnið) síðan hann var níu ára gamall og nú á gamall draumur að rætast.
Þegar ég kom heim var myndin Englar Alheimsins í sjónvarpinu. Ríkissjónvarpið hefur tilkynnt að það ætli að sýna íslenska kvikmynd fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði eða réttara sagt aðfaranótt fyrsta fimmtudags í hverjum mánuði. Hvaða vit er í að sýna íslenska bíómynd í miðri viku sem byrjar kl. 11.30 og er búin kl. 1.00 e.m? Flestir eru farnir að sofa á þessum tíma. Það eru bara einhverjir vitleysingar eins og ég sem vaka við að horfa á bíómynd fram á nótt í miðri vinnuviku. Mig grunar að þetta sé hefðbundið trix hjá ríkistofnun. Svona sýningar þýða hærra hlutfall af innlendu dagskrárefni. Það kostar hins vegar mjög lítið þegar það er sýnt á tíma þegar því sem næst enginn horfir á það. Þannig eru slegnar tvær flugur í einu höggi, hlutfall innlendrar dagskrárgerðar hjá Rúv hækkar án þess að kosta mikið. Dæmigert fyrir metnaðarlausa stofnun. Ég horfði á Englana enn einu sinni því þetta er góð mynd. Sérstaklega finnast mér senurnar af heimilinu átakanlegar því það getur hver sjálfan sig séð í þessari stöðu.

Tók 10 km á bretti seinnipartinn. Fín æfing og tók ágætlega á. Ég er farinn að breiða yfir mínútu og kílómetrateljarann á brettinu. Þá er maður ekki alltaf að hugsa um hvað mikið sé eftir, heldur lætur maður skrokkinn um að ákveða hraðann og álagið. Með vel hlaðinn Ipod innan seilingar og tónlist í eyrunum þá líður tíminn miklu fljótar en þegar maður er að telja metra og mínútur. Útvarpið tapar tvímælalaust í þessum samanburði þó maður geti hlustað á það líka. Það er svo óinteressant að það stenst ekki samanbur við góða lagasyrpu. Doors kyntu undir taktinn í dag.

Fór í Elliðaárdalinn í kvöld að taka myndir. Það er reyndar ekki svo gaman að taka myndir hér á kvöldin vegna þess að það eru ljós um allt. Best væri að það væri hvergi ljós og nokkuð dimmt. Þá væri viðfangsefnið spennandi.

Ég sá á vefnum hjá Múlabræðrum (www.123.is/bardi) í dag að það eru um 70 manns búsettir nú á Ströndinni. Þegar ég var að alast upp fyrir vestan þá voru um 100 manns í hreppnum heima en um 200 voru búsettir á Ströndinni. Nú eru kannski rúmlega 30 í hreppnum heima og um 70 inni á Strönd eins og áður segir. Svona er þróunin víða á landsbyggðinni.

Engin ummæli: